„Við svæfinga- og gjörgæslulæknar eigum engan einn sjúkdóm, við vinnum mikið með öðrum sérgreinum svo rannsóknarferillinn litast mikið af því,“ segir Martin.

Hann segist aðallega hafa starfað við tvenns konar rannsóknir, annars vegar grunnrannsóknir á sviði erfðafræði og hins vegar hefðbundnari faraldsfræðileg verkefni sem tengjast útkomum skurðaðgerða og bráðveikra sjúklinga.

„Ég hef verið að vinna erfðarannsóknirnar með aðferðum lífupplýsingafræði. Þá er ég mest að vinna úr raðgreiningargögnum í samstarfi við rannsóknarhópa í Bandaríkjunum. Áherslan hefur verið á genatjáningu innan hjarta mannsins. Við erum að reyna að skilja betur hvernig hjartað bregst við álagi, til dæmis vegna blóðþurrðar,“ útskýrir Martin.

„Við tökum sýni úr hjartavöðvanum í hjartaskurðaðgerðum og mælum tjáningu gena með því að nota raðgreiningartækni, og könnum svo mismunandi tjáningu hjá sjúklingum miðað við magn blóðþurrðar, og hvernig tjáningin lítur út hjá þeim sem fá hjartsláttaróreglu eftir aðgerðina.“

Hin hefðbundnari faraldsfræðilegu verkefni snúa að sögn Martins að því að reyna að skilja betur áhættuþætti og afdrif sjúklinga sem fara í ýmiss konar skurðaðgerðir.

„Það sem ég hef mest unnið að hér á Íslandi er að byggja upp gagnagrunna sem hjálpa okkur að tengja saman upplýsingar um aðgerðir sem fara fram, hvaða undirliggjandi sjúkdóma sjúklingarnir hafa, hvernig blóðprufumynd þeirra lítur út og hvaða lyf þeir eru að taka í aðdraganda aðgerðar og eftir hana. Við gerum þetta til þess að reyna að átta okkur á tengslum þessara þátta við árangur aðgerðanna og hvernig sjúklingunum vegnar eftir aðgerðina, sérstaklega með tilliti til undirliggjandi heilsufars, lyfjatöku og slíks. Við höfum til dæmis skoðað talsvert mikið af lyfjatengdum áhættuþáttum skurðsjúklinga,“ útskýrir Martin.

Mikilvægt að margir komi að rannsóknum

Margar þeirra rannsókna sem Martin hefur unnið að eru samstarfsverkefni. Bæði við aðra rannsóknarhópa á Landspítalanum, Íslenska erfðagreiningu og Hjartavernd.

„Þar hef ég ekki drifið rannsóknina áfram sjálfur heldur kem að henni sem samstarfsmaður á einhvern hátt. Ég hóf rannsóknarferilinn árið 2006. Þá var ég þriðja árs læknanemi og fór til Bandaríkjanna og vann rannsóknir hjá íslenskum barnaerfðalækni sem heitir Hans Tómas Björnsson. Þar komst ég fyrst í tæri við erfðafræði. Í kjölfarið hóf ég að sinna rannsóknum samhliða námi,“ upplýsir Martin.

„Núna fer um það bil helmingurinn af vinnutíma mínum í rannsóknir og kennslu og hinn helmingurinn fer í hefðbundnari klínísk störf svæfinga- og gjörgæslulæknis. Ég að það sé mikilvægt að þeir sem hafa áhuga og getu til, hafi þann möguleika að stunda rannsóknir og vísindastörf samhliða klínísku starfi. Þetta styður hvort annað. Þegar maður sinnir sjúklingnum vakna oft spurningar sem gaman er að geta komið að því að finna svörin við.“

Martin segir mikilvægt að hafa vísindafólk á öllum stigum. „Það þarf að vera grunnvísindafólk sem sinnir eingöngu vísindum. Ef það hefði ekki orðið gríðarleg þróun í grunnvísindum þá væri raðgreinitæknin ekki til og ég hefði ekki tæki og tól til að vinna úr raðgreiningargögnum. Mínar rannsóknir byggja á þeim. Grunnvísindafólkið þróar mjög aðferðirnar og mælitækin auk þess að byggja undirstöðu fyrir önnur vísindi. Að sama skapi er mikill styrkur að það sé breidd í rannsakendahópnum og að fólk sem sinnir klínískum störfum komi líka að rannsóknum. Oftast er þetta gert í samstarfi grunnvísindamanna og þeirra sem vinna klínískt. Flest rannsóknarverkefni í dag eru stór og breið samstarfsverkefni. Það er mikilvægt að margar stéttir vísindamanna komi að rannsóknum.“

Ekki á hverjum degi sem fólk sér okkur

Martin segir að það sé einstaklega hvetjandi að hljóta verðlaun eins og Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs

„Að sjá listann af fyrri verðlaunahöfum og vita hvað þau hafa afrekað í kjölfar verðlaunanna er mjög hvetjandi og gaman að einhver hafi hugsað að ég eigi heima í þeim hóp. Það er mikill heiður. Ég vil sérstaklega nefna hinn hvatningarverðlaunahafann í ár, Ernu Sif, sem er einstakur vísindamaður. Það er rosalega gaman að standa við hliðina á henni og þiggja þessi verðlaun,“ segir hann.

„Við svæfinga- og gjörgæslulæknar erum svolítið faldir á spítalanum. Það er ekki á hverjum degi sem fólk hittir okkur og kynnist störfum okkar. Heimsfaraldurinn hefur þó aðeins breytt því, en almennt erum við til baka og rólegheitafólk á spítalanum. Það er því alltaf gaman þegar einhver úr okkar röðum hlýtur viðurkenningu fyrir rannsóknarstarf sitt.“