Nýja húsnæðið er rúmgott og rúmar betur alla þjónustu fyrirtækisins, sem og gámaþjónustuna sem fyrirtækið byrjaði nýlega að bjóða upp á. „Við bjóðum fyrirtækjum og einstaklingum að fá hjá okkur sérmerkta gáma eða kör til þess að safna brotamálmi í. Við útvegum körin, komum með þau á staðinn, sækjum þegar þau eru orðin full og komum við með nýtt í staðinn. Þessi þjónusta er viðskiptavininum að kostnaðarlausu og fær hann greitt fyrir þá málma sem safnast í körin, eftir uppgefinni verðskrá. Viðskiptavinur fær þannig greitt fyrir efnið en þjónustan er þeim að kostnaðarlausu,“ segir Högni Auðunsson, framkvæmdastjóri og eigandi Málma.

Þegar Málma hóf störf á Íslandi var fákeppni á brotajárnsmarkaðnum. „Við hristum verulega upp í markaðnum meðal annars með því að borga hærra verð fyrir málma. Við fylgdum einfaldlega erlendum mörkuðum á brotajárni og brotamálmum,“ segir Högni.

Stórt og glæsilegt húsnæði

„Nýja húsnæðið í Mosfellsbæ er frábært í alla staði og mun stærra en rýmið í Stangarhyl, þar sem við vorum áður. Við höfum sett upp akstursleið í gegnum bygginguna og aukum þannig þægindi viðskiptavina okkar. Fólk getur þá losað brotajárn inni í hlýjunni í öllum veðrum. Við leggjum að auki mikinn metnað í að halda rýminu hreinu og snyrtilegu. Við viljum ekki að fólki finnist eins og það sé að koma inn í einhvern brotajárnshaug. Við höfum hlustað vel á viðskiptavini okkar hvernig þeim þætti best að haga sinni endurvinnslu og viljum gera þetta einfalt, þægilegt og ánægjulegt fyrir fólk.“

Nýja húsnæðið í Flugumýri er glæsilegt og býður upp á akstursleið í gegn sem einfaldar losun.
Mynd/Aðsend.

Það er orðið vandamál að byggja skip, flugvélar, flutningsgáma og annað vegna skorts á málmum.

Verð á málmum fer síhækkandi

Að sögn Högna er endurvinnsla á málmum gríðarlega mikilvægt og þarft verkefni. „Hér í Flugumýri flokkum við alla málma og gerum flutningshæfa. Svo eru þeir fluttir ýmist með gámum til Hollands eða upp á Akranes þar sem við erum með járnaport. Þaðan fer málmurinn til Hollands með skipi og Hollendingar endurvinna efnið. Hollenskt fyrirtæki á helminginn í Málma og sjálfur á ég ásamt lykilstarfsmönnum hinn helminginn.“

Málma tekur á móti öllum málmum og borgar eftir verðskrá. Verðlistann er að finna á vefsíðu malma.is en þar er einnig að finna reiknivél sem viðskiptavinir geta nýtt sér. „Hver sem er getur komið til okkar og fengið greitt fyrir málma og það er ekkert lágmark á þyngd. Við tökum við öllu magni, hvort sem það er lítil eða mikil þyngd. Ef fólk er óvisst með hvernig það eigi að flokka málmana þá geta starfsmenn Málma mætt á svæðið og hjálpað til við að finna út hvernig sé best að standa að flokkun. Þannig hámarkast verðmætin sem fólk er með í höndunum,“ segir Högni.

„Frá því við hófum störf höfum við sent út um 8.000 tonn af járni og 2.000 af góðmálmum. Eins og er tökum við ekki á móti spilliefnum eins og rafgeymum og fleiru, en það er klárlega eitthvað sem við sjáum fram á að bæta við hjá okkur á næstunni. Flesta málma er hægt að endurvinna og þetta er í raun framtíðin í málmvinnslu. Verð á málmum fer síhækkandi því það er skortur alls staðar. Það er orðið vandamál að byggja skip, flugvélar, flutningsgáma og annað vegna skorts á málmum. Faraldurinn hefur eflaust eitthvað að segja í því en einnig hafa hertar reglur er varða starfsöryggi við uppgröft málma þar áhrif.“

Málma tekur við öllum gerðum málma og brotajárns og greiðir fyrir eftir verðskrá.
Mynd/Aðsend.

Verðmæti í hverjum kút

Það eru mikil verðmæti í málmum. „Til dæmis gera sér ekki allir grein fyrir því að gríðarleg verðmæti geta falist í hvarfakútum. Verðmætasti málmur í heimi er ródíum en hann finnst meðal annars í hvarfakútum bifreiða ásamt palladíum og platínum. Þessir málmar eru þeim eiginleikum gæddir að hvarfast við koltvísýring í útblæstri bíla. Í heiminum eru ekki til nema um 100 tonn af ródíumi og í hverjum kút er þennan verðmæta málm að finna í mjög litlu magni. En þetta litla magn tapast úr umferð fari það í urðun.

Hvarfakútar eru í raun eins og happaþrenna. Stundum er mikið af dýrmætum málmum í þeim og stundum nánast ekkert. Þessu er hægt að fletta upp í sérstakri hvarfakútaskrá, en hver kútur er númeraður og finnst þannig í skránni. Ég hef mest borgað 120.000 kr. fyrir einn hvarfakút sem innihélt mikið af málmum, en algengt er að fólk fái um 15-20.000 kr. fyrir kútinn. Við viljum vekja fólk til vitundar um að allir málmar hafa verðmæti. Það er alltaf þess virði að endurvinna alla málma,“ segir Högni að lokum.

Nánari upplýsingar má nálgast á malma.is