Kombucha Iceland er fjölskyldufyrirtæki, rekið af hjónunum Rögnu Björk Guðbrandsdóttur og Manuel Plasencia Gutiérrez. Ragna kynntist kombucha upprunalega í gegnum Manuel, en hún segir það áhugamál hans að gerja ýmsa matvöru.

,,Við urðum strax heilluð af kombucha. Kombucha er miklu meira en bara drykkur, það má segja að það sé heill heimur á bak við það. Sagan á bak við kombucha heillaði mig og eftir að hafa kynnast þessum bransa og fólkinu á bak við hann, varð ég enn meira heilluð og alveg viss um að þetta væri drykkur sem við vildum færa fólkinu,“ segir Ragna.

Manuel útskýrir að kombucha sé gerjaður drykkur búinn til úr ekta tei úr laufum plöntunnar Camellia sinensis.

„Það er hægt að nota grænt te, svart te, hvítt te, í raun hvaða te sem er. Út í þetta er bætt við sykri fyrir gerjunina og vatni. Þetta eru aðalinnihaldsefnin. Þegar þú blandar þeim saman og gerjar þau undir eftirliti, færðu að lokum þennan næringarríka og svalandi drykk, sem inniheldur allt það holla við te, auk þess sem kostir gerjunarinnar bætast við,“ upplýsir hann.

„Kombuchað okkar er hrátt, sem þýðir að það inniheldur lifandi gerla og ger sem er sagt að hafi góð áhrif á þarmaflóruna.“

Manuel segir að sem framleiðendur ábyrgist þau ekki neinn heilsufarslegan ávinning af því að drekka kombucha, en bendir á að ef leitað er á netinu sé hægt að lesa fullt af reynslusögum frá fólki sem hefur fundið mun á heilsunni eftir að það fór að drekka kombucha reglulega.

„Við sem framleiðendur erum þó ekki að selja heilsudrykk. Við erum að selja hressandi svaladrykk sem má til dæmis fá sér í staðinn fyrir áfengi eða ef fólk fær mikla sykurlöngun, þá getur eitt glas af kombucha verið góður kostur í staðinn,“ segir hann.

„Við leggjum okkur fram um að nota hágæðahráefni, lífræn hráefni og engin aukaefni. Okkur er umhugað um að gera eins hollan drykk og við getum. En þó við getum ekki fullyrt að kombucha hafi heilsubætandi áhrif, þá getum við sagt að það er til fjöldi rannsókna sem sýna fram á heilsubætandi áhrif af tedrykkju, og te er aðalinnihaldsefnið í kombucha.“

Drykkirnir frá Kombucha Iceland fást í ýmsum bragðtegundum, með krækiberjabragði, engifer og glóaldinum, svo eitthvað sé nefnt. Fréttablaðið/Valli

Vegan vara

Kombuchað frá Kombucha Iceland er 100% vegan vara. Ekkert innihaldsefnanna kemur úr dýraríkinu og dýraafurðir eru heldur ekki notaðar við framleiðslu þess. Þau Ragna og Manuel nota einungis hágæðainnihaldsefni í framleiðsluna sem eru lífrænt vottuð og engum erfðabreyttum efnum er bætt í vörurnar.

„Til að gera drykkinn meira spennandi þá bragðbætum við hann með ýmsum ávöxtum og jurtum. Til dæmis með krækiberjum sem við nýtum úr íslenskri náttúru, engiferi, basil, jarðarberjum, rabarbara og fleiru,“ segir Manuel.

Ragna bætir við að ein bragðtegundin, Glóaldin, hafi árið 2019 unnið gullverðlaun í sínum flokki á Askinum, Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki.

„Mörgum sem kunna að meta bjór finnst Glóaldin mjög góður, eflaust vegna þess að það eru humlar í honum. Það eru margir sem kunna að meta að geta fengið sér glas af kombucha í staðinn fyrir áfengan drykk,“ segir hún.

Þau Manuel og Ragna segjast vera með fullt af hugmyndum fyrir árið 2022. Stefnan er að stækka og flytja á stærri stað með framleiðsluna.

„Eitt af markmiðum okkar þetta ár er að stækka og kynna Kombucha Iceland fyrir stærri hópi fólks. Til dæmis fyrir fólki sem er ekki endilega með sérstakan áhuga á hollum lífsstíl. Við viljum gera drykkinn meira aðlaðandi fyrir fólk sem er bara að leita sér að svalandi drykk, en er ekki endilega að hugsa bara um hollustuna. Við erum til dæmis alltaf að prófa okkur áfram með nýjar bragðtegundir,“ segir Manuel.

„Við erum með hefðbundnar bragðtegundir sem við seljum í flöskum, eins og engifer, jarðarber, krækiber og glóaldin. En það eru nokkrir staðir þar sem við seljum kombucha á krana og þar prófum við nýju bragðtegundirnar,“ útskýrir hann.

Það er meðal annars hægt að kaupa kombucha, frá Kombucha Iceland, á krana í Veganbúðinni en einnig hjá Mamma veit best í Kópavogi, Ljómalind í Borgarnesi, hjá Frú Laugu í Laugardalnum, Vistveru á Selfossi og nýlega var líka opnaður kombucha-bar í versluninni Me og Mu í Garðabæ.

„Á þessum stöðum getur fólk keypt sér glas af kombucha eða komið með flöskurnar sínar og fyllt á þær,“ segir Manuel.

Kombucha með Glóaldinbragði vann gullverðlaun í sínum flokki í Askinum, Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki.

Umhverfisvæn framleiðsla

Þau Ragna og Manuel leggja áherslu á að öll framleiðsla þeirra sé umhverfisvæn og hafa þess vegna valið að nota glerflöskur sem umbúðir.

„Það eru okkar gildi að vera umhverfisvæn. Við hugsum um það í öllu ferlinu að henda sem minnstu og nota umhverfisvænar framleiðsluaðferðir. Það er okkur mjög hugleikið. Eitt af því sem við gerum til að vera umhverfisvæn er að bjóða upp á þessar áfyllingarstöðvar. Þannig getur fólk nýtt umbúðirnar sínar aftur,“ segir Ragna

„Við erum oft spurð hvort við tökum við flöskum því þær safnast saman heima hjá fólki. Það tímir ekki að henda þeim því þetta eru veglegar flöskur. Það er framtíðardraumurinn okkar að taka við flöskum og endurnýta þær. En þangað til bendum við á áfyllingarstöðvarnar.“

Kombucha Iceland er tiltölulega ungt fyrirtæki en þau hjónin stofnuðu það árið 2017. Manuel hefur aftur á mót búið til kombucha heima hjá sér í fjölda ára. Margir velta fyrir sér hvaðan kombucha kemur upprunalega, en enginn veit það fyrir víst að sögn Manuels.

„Það hefur verið til lengi. Sumir segja í margar aldir, þá heimabruggað. Það eru til sögur um að kombucha hafi fyrst verið bruggað fyrir keisara í Kína. En þetta eru bara sögur,“ segir hann.

„Það eru svo ekki nema svona 20 til 25 ár síðan farið var að fjöldaframleiða kombucha, og vinsældir þess aukast sífellt. Þetta hefur orðið mjög vinsælt í Evrópu og Bandaríkjunum. Ísland er auðvitað lítill markaður en hann er að taka við sér.“

Kombucha með jarðarberjabragði.

Áhugi á hollum drykkjum eykst

Manuel segir að þar sem mjög lítill sykur sé í kombucha sé drykkurinn ekki sætur. Vegna gerjunarinnar sé hann súr og einnig innihaldi hann kolsýru sem verður til vegna gersins.

„Vegna þess að drykkurinn er ekki svo sætur þarf aðeins að venjast bragðinu af honum, en mér finnst hann mjög góður og frískandi. Engifer og glóaldin eru vinsælustu bragðtegundirnar en mér finnst glóaldin best,“ segir Manuel og Ragna bætir við:

„Þetta er líkt og með osta og vín. Þetta er bragð sem þarf að læra að meta og ekki öllum finnst þetta gott við fyrsta sopa, en ég hvet fólk til að smakka oftar en einu sinni.“

Þegar hjónin fengu þá hugmynd að byrja að framleiða kombucha hér á landi, var það ekki til á íslenskum markaði. En stuttu eftir að þau hófu framleiðsluna var byrjað að flytja inn kombucha frá Bandaríkjunum til Íslands að sögn Manuels.

„Í fyrstu voru ekki margir hér á landi sem þekktu kombucha en smám saman jókst áhuginn og hann er enn að aukast,“ segir Manuel.

„Áhuginn á heilsuvörum er að aukast og margir leita eftir drykkjum með minni sykri og minna af viðbættum efnum. Þannig að sá hópur sem er farinn að drekka kombucha hér á Íslandi heldur áfram að stækka.“


Kombucha Iceland í flöskum fæst í Krónunni, Hagkaupum, Nettó, Melabúðinni og Fjarðarkaupum ásamt einstaka veitingahúsum og kaffihúsum.