Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Reykjalundi, Lára M. Sigurðardóttir, hefur langa starfsreynslu á staðnum en hún hefur starfað þar í 37 ár.

„Ég hef unnið við hjúkrun hérna í öll þessi ár og sem framkvæmdastjóri hjúkrunar frá því árið 2000. Hjúkrunarfræðingar hafa verið samofnir stofnuninni frá upphafi, en annar starfsmaðurinn sem var ráðinn hér inn, og sá fyrsti á eftir yfirlækni, var yfirhjúkrunarkonan Valgerður Helgadóttir. Hún lagði grunninn að því starfi sem við höfum að miklu leyti byggt á í öll þessi ár,“ segir Lára.

„Við höfum auðvitað aðlagast breytingum sem hafa orðið í þjóðfélaginu eins og annars staðar og hjúkrun hefur þróast verulega hér á þessum árum. Starfið er að vissu leyti orðið ólíkt því sem það var. En hjúkrun er alltaf hjúkrun og umönnun og velferð sjúklinganna er alltaf í fyrsta sæti. Við erum hér fyrir þá.“

Hjúkrunarfræðingar sinna hjúkrun á öllum sviðum á Reykjalundi og allir sjúklingar sem koma þangað hitta hjúkrunarfræðing. Lára segir það mjög mikilvægt fyrir sjúklingana, þar sem hjúkrunarfræðingar nálgast sjúklingana með heildrænni nálgun og hafi því mikilvæga sýn á þeirra mál sem þeir leggja inn í teymisstarfið.

Samhliða starfsemi Reykjalundar er rekið Sambýlið Hlein. Það var opnað árið 1993 og byggt fyrir fé sem safnaðist í landssöfnun Lions-hreyfingarinnar með sölu á rauðu fjöðrinni.

„Sambýlið er ætlað fyrir þá sem hafa hlotið varanlega fötlun vegna sjúkdóma eða slysa. Þar búa sjö einstaklingar sem hver hefur sína stúdíóíbúð með svefnplássi, sérbaðherbergi og stofukrók,“ útskýrir Lára.

Á Reykjalundi er rekin vinnustofa fyrir íbúana á Hlein sem þeir fara í á hverjum degi, en þeir sækja einnig þjálfun á Reykjalund.

„Það er mjög öflugt starfsfólk hjá Hlein sem sumt hefur starfað þar frá því að sambýlið var opnað. Þar er þroskaþjálfi í forstöðu og með henni er sjúkraliði. Þær standa í brúnni en svo starfa þarna félagsliðar og sjúkraliðar ásamt ýmsum fleirum.