„BIOEFFECT var stofnað árið 2010 af þremur íslenskum vísindamönnum þegar þeir uppgötvuðu, eftir um áratug af rannsóknum, byltingarkennda leið til að framleiða EGF prótín í byggplöntu. Það kom í ljós að EGF er virkt og afar eftirsótt boðskiptaprótín í húðvörur, enda er það efni sem húðin okkar þekkir vel og því tekur hún vel á móti virkninni sem EGF hvetur til. EGF fyrirfinnst náttúrulega í húðinni og gegnir meðal annars mikilvægu hlutverki við framleiðslu og virkni kollagens og elastíns. Með aldrinum dregur verulega úr magni EGF í húðinni,“ segir Anita Brá Ingvadóttir, sölustjóri BIOEFFECT á Íslandi. „Fyrsta varan okkar, EGF Serum, kom út árið 2010 og hefur verið á markaði í óbreyttri mynd síðan, enda er hún margverðlaunuð og enn þann dag í dag okkar vinsælasta vara. Síðan hafa aðrar frábærar vörur bæst í BIOEFFECT línuna og við erum einstaklega stolt af þeim öllum.“

Framúrskarandi og persónuleg þjónusta

„BIOEFFECT er íslenskt hugvit frá A til Ö. Fyrirtækið var stofnað af íslenskum vísindamönnum og vörurnar eru framleiddar á Íslandi, meðal annars úr íslensku vatni. Svo er EGF að sjálfsögðu okkar sérstaða, en BIOEFFECT er eina fyrirtækið sem hefur tekist að framleiða þessi sérvirku prótín í byggplöntunni,“ útskýrir Anita.

EGF Serum hefur verið á markaði í óbreyttri mynd síðan árið 2010, enda er það margverðlaunuð vara sem er enn í dag vinsælasta vara BIOEFFECT.

„BIOEFFECT starfar á 28 mörkuðum víðs vegar um heiminn, en eina BIOEFFECT verslunin er á Íslandi. Við erum virkilega stolt af því og verslunin gefur okkur tækifæri til að veita okkar viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og þessa BIOEFFECT upplifun sem við viljum að gestir okkar fái,“ segir Anita og bætir við: „Verslunin er einstaklega falleg og í henni starfa sérfræðingar undir leiðsögn Agnesar Evu verslunarstjóra, sem sjá til þess að hver og einn viðskiptavinur fái persónulega ráðgjöf og einstaklingsmiðaða þjónustu, en okkur þykir virkilega skemmtilegt að dekra við þá sem kíkja til okkar.“

Veitir góða sýn á ástand húðarinnar

Hluti af dekrinu sem boðið er upp á í verslun BIOEFFECT er húðmæling með VISIA tæki.

„Við erum með svipað húðmælingartæki á skrifstofunni okkar, sem við notum í rannsóknir og mælingar á virkni og gæðum varanna áður en þær koma á markað,“ segir Anita. „Tækið gefur nákvæmar upplýsingar um ástand húðarinnar. Það varð fljótt ljóst að með því að bjóða viðskiptavinum upp á slíkar mælingar getum við veitt enn persónulegri þjónustu og betri ráðgjöf varðandi hvaða vörur henta hverjum og einum. Það var því engin spurning um að bjóða upp á þessa einstöku þjónustu í versluninni okkar.

Húðmælingartækið gefur góða innsýn í ástand húðarinnar.

Húðmælingin hefur heldur betur slegið í gegn, enda gerist ráðgjöfin ekki persónulegri. Nákvæmt ástand húðarinnar er mælt og skilgreint, við greinum það sem vel er gert og bendum á hvað þarf mögulega að bæta í húðrútínunni,“ segir Anita.

Fyrir alla sem vilja læra betur á sína húð

„Mælingin fer þannig fram að teknar eru myndir af báðum hliðum andlitsins með VISIA tækinu. Mælingin sjálf tekur svo um það bil tvær mínútur. Því næst eru myndirnar greindar og sérfræðingur aðstoðar við að lesa úr þeim með viðskiptavininum. Loks veitir starfsmaður sérhæfða ráðgjöf þar sem mælt er með vörum sem henta viðkomandi til að bæta ásýnd húðarinnar,“ segir Agnes Eva Sandholt Sigurðardóttir, verslunarstjóri BIOEFFECT.

„VISIA tækið mælir fjóra þætti á yfirborði húðarinnar með því að taka háskerpuljósmyndir með tvenns konar ljósi. Þannig er hægt að greina roða í húð, hrukkur og fínar línur, áferð húðar og húðholur. Forritið sem við notum til að skoða myndirnar ber niðurstöður hvers og eins saman við stóran gagnagrunn af fólki. Þannig fáum við eins konar „stöðumat“ húðarinnar og upplýsingar um hvar viðkomandi stendur í samanburði við jafnaldra sína,“ útskýrir Agnes. „Eftir mælinguna förum við yfir niðurstöðurnar í sameiningu og mælum með vörum sem geta hjálpað til að vinna á vandræðaþáttum hvers og eins.“

BIOEFFECT er á 28 mörkuðum víðs vegar um heiminn, en eina BIOEFF­ECT verslunin er á Íslandi.

Agnes bendir á að hver sem er geti komið í húðmælingu: „Við erum öll eins misjöfn og við erum mörg og það sama á við um húðina okkar. Það er mikilvægt fyrir þá sem vilja viðhalda heilbrigðri og sléttri húð að vita hvaða áherslur og vörur skipta máli fyrir þá,“ segir Agnes. „Húðmælingin hentar öllum sem vilja læra betur á sína húð, fá ráðgjöf um hvað vel er gert og hvað þarf mögulega að bæta eða breyta. Við erum virkilega stolt af að geta veitt viðskiptavinum BIOEFFECT svo nákvæmar upplýsingar um ástand húðarinnar og hvað hún virkilega þarf með þessari nýju og byltingarkenndu húðmælingu í verslun okkar við Hafnartorg.“

Mestu máli skiptir að vernda og næra

„Það sem hefur komið fólki mest á óvart í þessari mælingu er þurrkur, oft í kringum augnsvæðið, enda er afar mikilvægt að halda húðinni vel nærðri. Þá kemur mörgum á óvart hversu miklu máli skiptir að þrífa húðina vel. Hreinsivörur taka ekki bara af farða og augnmálningu heldur líka yfirborðsóhreinindi, mengun, dauðar húðfrumur og húðfitu,“ segir Agnes. „Ef húðin er ekki þrifin vel þá ertu heldur ekki að fá það besta út úr virku húðvörunum þínum.“

Verslun BIOEFFECT er einstaklega falleg, þar vinna sérfræðingar sem veita persónulega ráðgjöf og einstaklingsmiðaða þjónustu.

Agnes bendir einnig á að það sem veldur húðinni hvað mestum skaða séu sólböð og ljósabekkjanotkun. Sá skaði verður oft ekki sýnilegur fyrr en mörgum árum síðar. „Ég mæli því alltaf með að nota sólarvörn í útivist og á ferðalögum. Helst daglega. Húðin er okkar stærsta líffæri og því er mikilvægt að hugsa vel um hana, bæði með því að nota rakagefandi, hreinar og nærandi húðvörur en einnig með því að drekka nóg vatn og borða næringarríkan mat. Svo má ekki gleyma góðri hreinsun!“ segir Agnes.

„Oft kemur í ljós að smávægilegar viðbætur eða breytingar á húðrútínunni geta gert gæfumuninn og hámarkað árangurinn af þeim vörum sem fólk er þegar að nota. Þess vegna mælum við með að allir líti við hjá okkur á Hafnartorgi. Það er til mikils að vinna,“ segir Agnes að lokum.


Hægt er að panta húðmælingu á heimasíðu okkar www.bioeffect.is eða í Noona appinu. Húðmæling er framkvæmd fimmtudaga og föstudaga á milli kl. 14.00-17.30. Greiddar eru 4.000 kr. fyrir húðmælingu og gildir upphæðin upp í vöruúttekt í verslun BIOEFFECT á Hafnartorgi.

Í mælingunni eru teknar myndir af báðum hliðum andlitsins með VISIA tækinu sem eru svo greindar af sérfræðingum sem mæla með vörunum sem henta hverjum og einum.