Óhefðbundinn tími kallar á óhefðbundnar lausnir. Við hjá Netheimi höfum fundið vel fyrir áhrifum COVID og hvað það hefur fært kröfur um stafrænar lausnir fram um mörg ár. Það er eins og fólk og fyrirtæki hafi skyndilega áttað sig á því að tæknin er langt á undan samtíðinni, segir Guðmundur Ingi Hjartarson framkvæmdastjóri Netheims.

„Ef eitthvað eitt ætti að lýsa kröfunum væri það Sjálfsafgreiðsla. Einstaklingar vilja geta sinnt erindum sínum þegar þeim hentar, hvar sem þeir eru í heiminum. Tími 9-5 vinnunnar og almennir opnunartímar munu líða undir lok og fyrr en við áætluðum.“

Guðmundur Ingi segir að fyrirtæki hafi mörg hver verið að ýta á undan sér kröfum um netverslanir eða þjónustu.

„En framhjá því verður ekki komist lengur. Í vor þegar COVID tímabilið stóð sem hæst og fyrirtækjaeigendur öðluðust jafnvel svigrúm til hugmyndasmíði fæddust ótrúlegustu vefverslanir. Margir hafa jafnvel sagt við okkur að þetta hafi verið að sumu leyti kærkomið frí til að geta einbeitt sér að breyttu umhverfi.”

„Við erum svo heppin að eiga frábæra samstarfsaðila og má þar nefna Dokobit á Íslandi sem er fyrsta íslenska auðkenningarfyrirtækið með Evrópuvottun. Hjá Dokobit erum við þróunar- og þjónustuaðilar,“ bætir Ellert Kr. Stefánsson stjórnandi tæknideildar og fjármálastjóri Netheims við.

Hjá Netheimi starfar í dag 19 manna teymi við þjónustu og þróun á fjölbreyttum stafrænum lausnum fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Homebase fasteignasölukerfið

Netheimur er þróunar- og þjónustuaðili Homebase fasteignasölukerfisins og því þótti þeim hjá Netheimi rakið að þróa tengingu á milli kerfanna með fullgildum rafrænum undirskriftum.

„Í sumar innleiddum við lausnir sem bjóða upp á rafrænar undirskriftir og auðkenningar fyrir fasteignaviðskipti þar sem fasteignasalar geta sent frá sér ýmis skjöl til viðskiptavina sinna eins og til dæmis söluumboð, kauptilboð, lögskilauppgjör, þjónustusamninga og margt fleira beint út úr Homebase. Þetta hefur sparað kaupendum og seljendum mikla fyrirhöfn og betri nýtingu tímans fyrir bæði fasteignasalann sem og kaupanda/seljanda,“ útskýrir Guðmundur og Ellert bætir við:

„Nú geta aðilar lesið gögn í rólegheitum og undirritað um leið og þeir eru ásáttir. Homebase er í eigu Félags fasteignasala. Félagið gerir miklar kröfur um netöryggi og ábyrgð og að farið sé eftir settum reglum um persónuvernd. Fasteignasölurnar hafa tekið vel við þessari nýjung og spara nú viðskiptavinum sínum oft bæði ferðalög og tíma.“

Guðmundur Ingi segir óskandi að ríki og sveitarfélögin væru jafn snögg að taka við sér.

„Við bíðum í ofvæni eftir nýju Stafrænu Íslandi og þeim lausnum sem við getum tengst þar svo hægt verði að þinglýsa kaupsamningum rafrænt fljótlega.“

Netheimur býður einnig upp á rafrænar auðkenningar og undirritanir í samstarfi við Dokobit og er nú þegar að vinna með Félagsstofnun Stúdenta og umsóknarferli þeirra. Dvalarsamningar leikskólanna og Stúdentagarðarnir nota nú rafrænar undirskriftir við samningana sína. Umsækjendur dvalarsamninga og stúdentagarða sækja um á netinu og í framhaldi fer starfsfólk yfir umsóknina sem sendir síðan samning í rafræna undirskrift. Umsóknarferlið er 100% rafrænt.

Vefverslanir og tengingar við bókhaldskerfi

Netheimur sérhæfir sig einnig í vefverslunum og tengingum við bókhaldskerfi. Guðmundur Ingi bendir á að allir sem sinna verslunarrekstri vilji geta sinnt öllum sölumálum á sem einfaldasta hátt. Með tengingum milli WooCommerce og helstu bókhaldskerfa er vefverslun stýrt frá einu kerfi en uppfærir upplýsingar á milli í rauntíma.

„Þannig komum við í veg fyrir tvöfaldan lager, því að vara sé tvíseld eða birgðastaða sé einhverra hluta vegna röng. Reikningar stofnast svo sjálfkrafa í bókhaldskerfinu og allir eru kátir. Við höfum unnið mikið með bæði DK og Business Central en gaman er að segja frá því að Netheimur opnaði Business Central-deild í miðju COVID. Undirbúningur deildarinnar hófst síðsumars 2019 og því var ekki hægt að bakka út og settum við því bara í fimmta gír og héldum okkar striki þrátt fyrir allt. Við sjáum svo sannarlega ekki eftir því enda samvinna eins aðalbókhaldskerfis landsmanna og WooCommerce vefverslunarkerfisins eins og gott hjónaband.“

Rafræn auðkenning fyrir WordPress vefi

Í vor þróaði starfsfólk Netheima viðbót (plugin) fyrir WordPress og WooCommerce vefi. Lausnin er sjálfstæð WordPress viðbót með tilbúnu viðmóti sem hægt er að setja inn á WordPress vefi.

„Með henni er því óþarfi að smíða allt frá grunni, útbúa sér stuðning fyrir bæði skilríki á farsíma og skilríki á kortum eða öðru formi, meðhöndla allar villumeldingar rétt og fleira. Það eina sem þarf að gera er að setja viðbótina inn á réttan stað á vefnum og sjá til þess að vefurinn taki síðan við upplýsingunum um notandann eftir auðkenninguna. Lausnin er hönnuð til að lágmarka vinnu og kostnað við innleiðingu, tryggja öryggi notandans og eiganda vefsins,“ segir Guðmundur Ingi.

„Þetta virkar þannig að notandi á vef nýskráir sig með farsíma sínum eða Smart-ID. Stofnast sem notandi um leið á vef og fær úthlutað sínum aðgangi að vefnum. Nýskráning tekur nokkrar sekúndur.“

Business Central-deild Netheims. Á myndinni eru Kristinn, Sædís, Elínborg og Gylfi en Jón Gunnar var fjarverandi. FRÉTTABLAÐIÐ/?SIGTRYGGUR ARI

Vöxtur í miðju COVID

Netheimur er með þó nokkra viðskiptavini sem nota Business Central og fyrirtækið sá þar tækifæri til að veita heildstæða þjónustu.

„Við höfum lengi lagt áherslu á þjónustu við verslunarfyrirtæki og það sama gildir um þessa nýju einingu. Við erum samstarfsaðilar LS Retail sem er stærsti framleiðandi að verslunarlausnum í Business Central í heiminum í dag. Allir okkar starfsmenn eru vottaðir LS Retail-sérfræðingar og hafa áratuga reynslu af innleiðingu og þjónustu við þessar lausnir.

Við settum þessa einingu formlega af stað í maí og þrátt fyrir samdrátt í samfélaginu þá hefur okkur gengið mjög vel. Við vorum svo heppin að fá til okkar nokkra snillinga með mikla reynslu af Business Central og LS Retail og erum því mjög vel í stakk búin að veita fyrirmyndarþjónustu,“ segir Kristinn Eiríksson sem leiðir eininguna.

Kristinn hefur unnið með Business Central lengi og þekkir lausnirnar og markaðinn mjög vel.

„Verslunarlausnir LS Retail eru í notkun í flestum stærstu verslunarfyrirtækjum á Íslandi en þær henta einnig mjög vel minni sérhæfðum verslunum og veitingahúsum. Okkar reynsla er að mörg fyrirtæki vannýta Business Central og gætu náð aukinni hagræðingu með því að nýta lausnirnar betur. Því leggjum við mikla áherslu á ráðgjöf við innleiðingar í þjónustu okkar. Microsoft eru sífellt að koma með nýjungar í Business Central og öðrum Dynamics 365 kerfum. Samþætting er því orðin mun auðveldari og hægt að nýta til dæmis PowerApps til að færa ferla út í handtölvur eða síma,“ útskýrir Kristinn.

Þjónusta við fyrirtæki af öllum stærðum

Netheimur sér um alhliða upplýsingatæknirekstur fjölda fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Fyrirtækið hefur verið nánasti samstarfsaðili Bónus í upplýsingatækni í yfir 20 ár.

„Bónus útvistar mestum hluta UT rekstar síns og þar er Netheimur mikilvægasti samstarfsaðilinn. Einnig hafa hugbúnaðardeildir Netheims komið að mörgum hugbúnaðarverkefnum og ráðgjöf fyrir Bónus með einstaklega góðum árangri,“ segir Guðmundur.

„Netheimur hefur veitt Bónus framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf á sviði UT mála gegnum tíðina og saman hefur þeim tekist að lágmarka kostnað við UT og hámarka framleiðni og árangur í UT-rekstri og UT-verkefnum almennt. Ég mæli hiklaust með þjónustu Netheims hvort sem er á sviði UT-rekstrar eða UT-hugbúnaðarverkefna,“ er haft eftir Steinari J. Kristjánssyni UT-stjóra Bónuss.


Nánari upplýsingar um Netheim má finna á www.netheimur.is