Iða Brá Benediktsdóttir er mikill náttúruunnandi og hefur lengi haft áhuga á skógrækt og landgræðslu. Hún er framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka og nýtir þar krafta sína í að tengja vörur og þjónustu sviðsins við græna vegferð bankans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

,,Við stöndum auðvitað frammi fyrir risavaxinni áskorun í tengslum við umhverfis- og loftslagsmálin og við verðum öll að leggja okkar af mörkum. Það að beina fjármunum í átt að grænum verkefnum er í mínum huga nauðsynlegt svo við náum árangri. Bankar geta þar haft mikil áhrif með því að veita fjármagni til vistvænna verkefna og bjóða viðskiptavinum umhverfisvænar lausnir. Græn vegferð Arion banka snýst einmitt að miklu leyti um það að hjálpa viðskiptavinum okkar að velja umhverfisvænni kosti og við erum í raun að slíta barnsskónum á því ferðalagi,“ segir Iða Brá.

Arion banki hefur sett sér metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og markið Parísarsamkomulagsins. Jafnframt hefur framkvæmdastjórn bankans samþykkt sex heimsmarkmið sem bankinn mun leggja megináherslu á. Um er að ræða markmið 5 um jafnrétti kynjanna, 7 um sjálfbæra orku, 8 um góða atvinnu og hagvöxt, 9 um nýsköpun og uppbyggingu, 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og 13 sem snýr að aðgerðum í loftslagsmálum.

Sparnaður viðskiptavina styður við heimsmarkmiðin

Arion banki kynnti í sumar fyrstur banka hér á landi spennandi nýjung á fjármálamarkaði, grænan innlánsreikning sem kallast Grænn vöxtur. Um er að ræða sparnaðarreikning sem er hugsaður fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar og styðja við heimsmarkmiðin.

Iða Brá segir að fjármunum sem safnast inn á Grænan vöxt sé ráðstafað til vistvænna verkefna í samræmi við umgjörð um græn innlán Arion banka, fyrst um sinn fjármögnun eða endurfjármögnun vegna kaupa á bílum sem nýta umhverfisvæna orkugjafa og uppfylla ákveðin skilyrði um útblástur. „Við höldum utan um öll fjármögnunarverkefni í aðgreindu grænu eignasafni og höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessari nýjung,“ segir Iða Brá. „Nú þegar hafa um ellefu hundruð manns stofnað reikning. Það er sannarlega hvatning til að halda áfram á þessari braut.“

Stutt við orkuskipti og umhverfisvænni byggingar

Viðskiptavinir greiða engin lántökugjöld við fjármögnun bíla sem ganga eingöngu fyrir rafmagni eða öðrum 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. 50% afsláttur er veittur af lántökugjöldum við fjármögnun annarra vistvænna bíla sem uppfylla ákveðin skilyrði. ,,Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum og hvetja viðskiptavini til að velja umhverfisvæna bíla. Ísland er í kjöraðstöðu til þess að vera leiðandi í þeim efnum,“ segir Iða Brá.

Í byrjun mánaðarins kynnti bankinn til sögunnar þá nýjung að viðskiptavinir sem festa kaup á umhverfisvottuðu húsnæði fá 100% afslátt af lántökugjöldum. „Markmiðið með þessari aðgerð er að hvetja til frekari uppbyggingar á umhverfisvænu og vottuðu íbúðarhúsnæði. Við höfum verið að fjármagna slík verkefni á byggingarstigi og því er kjörið að bjóða einnig upp á græn íbúðalán fyrir einstaklinga,“ segir Iða Brá. „Það er alls ekki mikið um umhverfisvottað húsnæði á Íslandi en vonandi á það eftir að breytast, enda mikilvægt að draga úr kolefnislosun við húsbyggingar. Hvert skref skiptir máli í baráttunni við loftslagsbreytingarnar og með markvissum hætti viljum við styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun enda hafa markmiðin veitt okkur mikinn innblástur og hvatningu.“