Ragnheiði þekkja flestir sem kunnugir eru stangaveiðisportinu. „Ég byrjaði í þessu ung og hafði mikið gaman af. Svo færðust unglingsárin yfir og ég hætti á tímabili. Svo byrjaði ég aftur fyrir alvöru upp úr 1997 og hef verið sýkt af þessari veiðibakteríu æ síðan. Í dag lifi ég og hrærist í þessu og ver öllum mínum aukastundum við árbakkann,“ segir Ragnheiður.

Frumþörf mannsins

Að sögn Ragnheiðar fylgir veiðibakteríunni veiki sem er bæði skemmtileg og gefandi. „Í hvert sinn sem ég byrja að tala um veiði þá léttist í mér lundin. Það er gaman að eiga sér áhugamál sem maður getur endalaust talað og hugsað um. Ef ég á erfitt með að sofna á kvöldin þá reikar hugurinn að árbakkanum og ég get ferðast niður alla ána, frá upptökum til árósa, numið staðar við hvern hyl og rifjað upp frábærar minningar. Þetta geri ég í stað þess að telja kindur eins og sumir og sofna með heilann stútfullan af serótóníni.“

Útiveran er það sem heillar flestar veiðiklær og það jafnast ekkert á við að vera við árbakkann á pollabuxunum.
Mynd/Aðsend

Það er margt sem heillar veiðiklær landsins og að sögn Ragnheiðar er það helst útiveran sem dregur hana að árbakkanum. „Ásamt því að hafa gaman af því að veiða þá hef ég unun af því að læra að þekkja plönturnar og fuglana og svo er æðislegt að vera úti í náttúrunni í pollagallanum, hvort sem er í vondu eða góðu veðri. Það er eitthvað við það að hafa það notalegt á bakkanum við rennandi vatn. Ætli þarna sé ekki komin ein af frumþörfum mannsins,“ hugleiðir Ragnheiður.

Hagstæð kjör

SVFR er með ellefu laxveiðiár og sjö silungsveiðiár víða um land. „Flestar eru staðsettar á vesturhelmingi landsins en svo erum við með nokkrar fyrir austan og norðan líka.“

Að sögn Ragnheiðar er tilgangur SVFR sá að bjóða upp á eins ódýr veiðileyfi fyrir félagsmenn og hægt er. „Okkar markmið er ekki að skila arði heldur viljum við reka félagið og bjóða fólki upp á veiðileyfi á hagstæðum kjörum svo að sem flestir geti stundað sportið. Í upphafi hvers árs sækja félagsmenn SVFR um veiðileyfi og restin fer svo í almenna sölu á vef svfr.is. Ég hvet áhugasama til að fara á vefsíðuna og skoða veiðileyfin sem eru í boði. Fólk getur valið um að fara í lax eða silung og veiðileyfin eru á mjög breiðu verðbili.“

SVFR heldur fjölda námskeiða fyrir ýmsa aldurshópa á sumrin.

Öflugt fræðslustarf

SVFR rekur öflugt barna- og unglingastarf og heldur fjölda námskeiða fyrir unga fólkið. „Námskeiðin eru öll kennd í sjálfboðaliðastarfi enda eru allir að sinna áhugamálinu og sömuleiðis er endurnýjun í veiðiskap afar mikilvæg fyrir félagið. Þá bjóðum við upp á ýmis styttri námskeið fyrir fólk á öllum aldri eins og kastnámskeið, fræðslu og margt fleira. Það er áríðandi að fólk kunni að veiða rétt og svo er það líka miklu skemmtilegra fyrir vikið að vita til dæmis hvað virkar fyrir hvaða fisk. Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, verður opinn veiðidagur við Elliðavatnsbæinn þar sem við bjóðum fólki að koma með börnin og veiðistangirnar sínar. Svo erum við til staðar til að aðstoða þá sem eru að taka sín fyrstu skref. Við fáum líka reglulega símtöl frá fólki sem langar að koma sér af stað í veiðinni og við erum mjög fús að ráðleggja öllum sem hafa áhuga.“

Endurnýjun í sportinu er mikilvæg fyrir SVFR.

Veiðin eins og eldgos

Veiðitímabilið er hafið í nokkrum ám Stangaveiðifélagsins. „Það er misjafnt hvenær tímabilin hefjast í hverri á fyrir sig. Silungurinn byrjar almennt í lok maí, Varmá er opnuð 1. apríl en sumar silungsveiðiár opna ekki fyrr en 1. júní. Svo eru laxveiðitímabilin að hefjast frá 1.–20. júní. Núna er „aðventan“ hjá veiðiklóm landsins enda er allt að fara af stað og fólk er spennt fyrir sumrinu. Fiskifræðingar eru vongóðir um gott og gjöfult sumar í veiðinni, en þetta er annars eins og að tala um jarðhræringar, hvort það verði eldgos eða ekki. Það er engin leið að segja til um það. Það þykjast allir hafa skoðun en í raun veit enginn neitt þegar upp er staðið. Síðasta sumar var þokkalegt í veiðiám landsins en árið þar á undan var hræðilegt út af miklum þurrkum. Rigningasumur geta verið betri en þau mega heldur ekki vera of köld. Þetta er mjó veiðilína að feta og það getur brugðið til beggja vona. En veiðimenn eru alla jafna fullir af von og bjartsýni uns efinn tekur yfir.“

Árniðurinn og góð rauðvínsflaska er hin fullkomna rómantíska helgarferð í huga Ragnheiðar.

Langá er París Íslands

Nú nýlega var opnað fyrir veiðileyfi í Laxá í Laxárdal og Mývatnssveit, Leirvogsá og Varmá. „Ég hef aldrei veitt í Leirvogsá, sem er að opna núna og ég er mjög spennt að prófa hana. Annars er það árlegt tilhlökkunarefni hjá okkur hjónum að fara í Langá enda byrjar veiðiárið fyrir alvöru þar. Fyrir mér er það að veiða í Langá eins og að fara í rómantíska borgarferð með manninum mínum. Ég kaupi mér gott rauðvín og nýt mín í botn við veiðina. Áin er mjög fjölbreytt og býður upp á erfið svæði og auðveld. Svo tek ég eftir breytingum á milli ára enda fer ég þangað ár hvert. Langá á sér það kæran stað í hjarta mínu að ég dreifði ösku labradortíkurinnar minnar í Kerstapahyl í ánni, enda elskaði hún að vera þarna með mér.“

Ragnheiður leyfir ösku labradortíkurinnar að hvíla í ástkærustu veiðiá þeirra beggja. Hér dreifir hún öskunni.

Silungsveiðimenn betri elskhugar

Ragnheiður segist aðallega hafa verið í laxinum undanfarið en í ár langar hana að finna sig aftur í silungsveiðinni. „Þeir segja víst að silungsveiðin geri mann að betri elskhuga. Ætli það sé ekki vegna þess að það er meira fitl í silungsveiðinni og hún krefst mun meiri þolinmæði. Þetta er meiri hugleiðsla. Í laxinum er maður að pirra fiskinn til að hann bíti á, en í silungnum er maður að fá fiskinn til að bíta á með því að líkja eftir ætinu sem hann borðar. Þá þarf að athuga hvað hann étur, setja flugu sem líkist ætinu og vera svo þolinmóður. Sama er upp á teningnum með bleikjuna og urriðann.“ ■

Veiðileyfi fást keypt á vefsíðu svfr.‌is

Hér getur að líta stóran glæsilegan urriða sem veiddist í Þingvallavatni.