Vegan-búðin var fyrst opnuð sem örsmá netverslun þann 1. nóvember 2018, en hefur á tveimur árum stækkað ört og er nú fullvaxin matvöruverslun í Faxafeni 14. „Í upphafi samanstóð vöruvalið af um það bil þrjátíu vörum, en er nú um það bil hundraðfalt meira. Viðtökurnar hafa frá upphafi farið fram úr villtustu væntingum eigenda, sem eiga fullt í fangi með að halda í við eftirspurn,“ segir Linda Ýr Stefánsdóttir, starfsman Veganbúðarinnar.

Vegan vitundarvakning

Linda segist greina aukna umræðu um réttindi dýra og umhverfismál. „Mikil aukning hefur verið á umræðu um umhverfisáhrif og áhrifin sem dýraafurðaneysla og ræktun dýra til manneldis hefur á þau. Því hefur orðið mikil vitundarvakning hjá fólki í tengslum við umhverfismál og dýraréttindi. Þar með hafa fleiri orðið vegan og úrval af vörum fyrir vegan-fólk hefur því aukist gríðarlega eins og sjá má, en flestar matvöruverslanir á Íslandi eru nú komnar með sér kæli eða frysti fyrir vegan-mat.“

Þá segist hún vör við bæði jákvæðar og neikvæðar breytingar undanfarin ár, hvað veganisma snertir. „Fordómarnir hafa alltaf verið til staðar, einstaklingar sumir hverjir bregðast neikvætt við þegar það er skorað á þá að líta inn á við og sjá hvernig þeirra neysla hefur áhrif á dýr og umhverfið í kringum þau og með fjölgun grænkera og dýraaktívisma fjölgar þeim tilvikum einnig. Á stuttum tíma hefur þó orðið mikil breyting á þessu og almennt er fólk orðið mjög forvitið og jákvætt í garð veganisma.“

Ný og betri netverslun

Það verður nóg um að vera í Vegan búðinni um helgina. „Alþjóðlegur dagur grænkera er á sunnudaginn 1. nóvember, einnig er verið að fagna tveggja ára afmæli Veganbúðarinnar bæði laugardag og sunnudag. Við munum bjóða 15% afslátt af öllum vörum þessa helgi auk þess sem við setjum í loftið betrumbætta netverslun á veganbudin.is. Viðskiptavinir og fylgjendur á samfélagsmiðlum geta tekið þátt í gjafaleikjum þar sem fjölda girnilegra vinninga verður úthlutað,“ segir Linda.

„Netverslunin hefur ekki haldið í við verslunina á staðnum hvað vöruval varðar, en á næstu mánuðum stefnum við að því að allar vörur verði komnar á netið. Með nýju uppfærslunni höfum við tækifæri til að auka upplýsingagjöf og flokkun, en fólk reiðir sig mikið á sérþekkingu okkar og leitar að innblæstri á netinu. Á þessu ári hefur pöntunum í gegnum netverslunina fjölgað margfalt og við hlökkum til að bjóða meira vöruval og betri þjónustu, samhliða vaxandi viðskiptum í búðinni sjálfri.“

Linda segir mikinn eldmóð og metnað einkenna starfsemi verslunarinnar, sem er rekin af hugsjónafólki. „Sérstaða Vegan búðarinnar er fyrst og fremst dýravernd, hún hefur því marga fastakúnna sem geta treyst á að verslunin sé rekin með sama sjónarmiði og þeir hafa sjálfir. Eigendur og starfsfólk eru vegan af dýraverndarástæðum og því eru eldheitar hugsjónir, drifkrafturinn á bak við reksturinn. Við höfum öll mikla þekkingu og reynslu og metnað til að gera sífellt betur og koma fólki skemmtilega á óvart.“

Fjölbreytt og vaxandi úrval

Linda segir eina skilyrðið fyrir þeim vörum sem valdar eru inn vera að þær séu algjörlega lausar við dýraafurðir. „Ófrávíkjanlega krafan er sú að vörurnar mega ekki innihalda dýraafurðir, en við leitumst líka við að bjóða vörur sem eru framleiddar í þeim tilgangi að vera umhverfisvænni en aðrir sambærilegir valkostir.“

Þau fái ábendingar víða um áhugaverðar vörur. „Við erum alltaf að leita að einhverju nýju sem fólk hefur áhuga á, erum með frábæra birgja bæði hér á landi og erlendis, svo við erum alltaf snögg að stökkva á spennandi nýjungar. Einnig eru viðskiptavinir duglegir að benda okkur á áhugaverðar vörur, sem við elskum að leita uppi og koma í hillurnar.“

Linda ráðleggur þeim sem hafa áhuga á að draga úr eða hætta neyslu dýraafurða, að byrja á því að prófa þá fjölmörgu kjötstaðgengla sem eru í boði. „Auðveldast væri að byrja á því að smakka vegan-útgáfur af mismunandi réttum sem þeim þykir góðir. Það eru til staðgenglar fyrir nánast hvað sem er, til dæmis erum við með vegan-pylsur, hamborgara, túnfisk, lax og framleiðsla á vegan mat er stöðugt að þróast og því úrvalið sífellt að aukast. Við hvetjum áhugasöm til að kíkja í heimsókn og leyfa okkur að sýna þeim góða valkosti í stað þeirra hefðbundnu matvara sem fólk er vant að borða.“

Að sögn Lindu eru viðskiptavinir af öllum toga, en öll fagni þau því mikla úrvali sem verslunin býður upp á. „Við höfum marga vegan-fastakúnna, sumir hverjir koma við daglega. Einnig kemur fjöldi fólks sem er að stíga sín fyrstu skref í átt að veganisma og vörurnar okkar höfða líka mikið til fólks með ýmis fæðuóþol, enda eru þær lausar við alla dýraafurðatengda ofnæmisvalda. Svo er stór hópur sem elskar að koma reglulega til okkar því það er alltaf eitthvað nýtt í boði. Vöruvalið okkar er mjög ólíkt því sem er að finna í öðrum matvöruverslunum, svo hingað koma sælkerar í ævintýraferðir og mörg hafa líkt okkur við lítið útibú frá Whole Foods.“

Mikilvægur málstaður

Linda segir margt hafa breyst undanfarin ár. „Upplýsingamiðlun hefur aukist síðustu ár og mun halda áfram að aukast, þökk sé samfélagsmiðlum, heimildarmyndum og auknum aktívisma á alþjóðavísu. Því heldur fólk áfram að upplýsast um aðstæður dýra og afleiðingar neyslu sinnar á umhverfið.“

Nú sé nánast án undantekingar gert ráð fyrir því að hluti viðskiptavina veitingastaða fylgi vegan-lífsstílnum. „Fyrir nokkrum árum þurfti maður að undirbúa sig fyrir að maður færi á veitingastað og ekki einn réttur væri í boði fyrir grænkera, í dag gerir maður einfaldlega ráð fyrir að hafa jafnvel fleiri en tvo valkosti hvert sem maður fer. Sú þróun mun örugglega halda áfram í þá átt á komandi árum og grænkerafæði mun eflaust verða orðið algengara en það sem nú er talið hefðbundið, áður en langt um líður.“

Linda segir hugmyndafræðina að baki veganisma margþætta. „Eins og flest vita eru dýr einstaklingar með hugsanir, persónuleika og tilfinningar og því finnst okkur að þau ættu ekki að vera misnotuð í gróðaskyni eða til ánægju fólks. Einnig er neysla og ræktun dýra ekki sjálfbær framtíð fyrir plánetuna sem við lifum á. Að gerast vegan er það besta sem meðal einstaklingur getur gert fyrir umhverfið okkar og á sama tíma tekið afstöðu gegn misnotkun dýra.“

Þá hafi fjöldi rannsókna sýnt fram á heilsufarslegan ávinning vegan-mataræðis. „Stór plús er hvað vegan-mataræði er frábært fyrir heilsuna, ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar og vegan-mataræði hefur verið tengt við lægri blóðþrýsting og kólesteról, lægri tíðni hjartasjúkdóma, sykursýki 2 og nokkrar tegundir krabbameins. Framtíðin er björt ef hún er vegan.“

Verslunin er staðsett í Faxafeni 14 og heimasíðan er á veganbudin.is

Linda Ýr Stefánsdóttir segir að að viðskiptavinir og fylgjendur á samfélagsmiðlum geta tekið þátt í gjafaleikjum þar sem fjölda girnilegra vinninga verður úthlutað,. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN