Það er heillandi að skoða sig um og versla það sem til þarf í vefverslunum Húsasmiðjunnar. Þar blasa við nýjar viðskiptalausnir, frábær þjónusta og aukið vöruframboð, allt frá blómum upp í byggingar.

„Við sjáum gríðarlegan vöxt í öllum okkar vefverslunum og engin merki um að það sé að minnka; þvert á móti heldur vöxturinn áfram og við erum vel undirbúin,“ segir Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar.

Húsasmiðjan rekur þrjár vefverslanir; husa.is, blomaval.is og iskraft.is, sem er sérverslun fyrir rafvirkja og rafiðnaðinn.

„Á síðasta ári margfaldaðist sala í vefverslunum Húsasmiðjunnar og við höfum mætt því með aukinni þjónustu og enn meira vöruframboði, sem og margvíslegum viðskiptalausnum til að mæta auknum áhuga viðskiptavina á vefverslunum okkar,“ upplýsir Magnús.

Í netverslunum Húsasmiðjunnar fæst mjög breitt vöruúrval og aukning hefur orðið í öllum vöruflokkum.

„Verkfæri, grill og heimilistæki hafa alltaf notið vinsælda í vefverslun okkar en nú sjáum við að aðrir flokkar hafa vaxið mjög mikið, eins og parket, blöndunartæki fyrir eldhús, baðtæki, búsáhöld og margt fleira,“ segir Magnús.

Bjarki Þór Árnason, rekstrarstjóri vefverslunar og Húsasmiðjunnar í Skútuvogi, og Petra Dís Magnúsdóttir, vefstjóri vefverslana Húsasmiðjunnar. MYND/MARINÓ FLÓVENT

Lausnamiðað starfsfólk lykill að góðri vefverslun

Húsasmiðjan var ágætlega undirbúin fyrir sprenginguna sem varð í vefverslun Íslendinga í kjölfar heimsfaraldursins.

„Við höfum í raun furðað okkur á að þetta hafi ekki gerst fyrr því vefverslun er ekkert nýtt fyrir okkur. Við höfðum þróað vefverslanir okkar í nokkur ár og var vefverslun Húsasmiðjunnar meðal annars tilnefnd sem vefverslun ársins 2016 og 2017. Hins vegar hafa viðskiptavinir okkar tekið sérstaklega vel við sér undanfarið og sala á netinu margfaldast. Því lítum við á vefverslunina sem eina af okkar hefðbundnu verslunum í dag, þar sem við hugum að góðri upplifun, auðveldu aðgengi að vöruúrvali og upplýsingum, rétt eins og í öllum okkar verslunum. Við segjum líka oft hér innanhúss að vefverslunin okkar sé í raun okkar mikilvægasti „búðargluggi“ því þar hefja margir leit að vörum og klára kaupin með söluráðgjafa í verslun. Þess vegna er svo mikilvægt að sýna gott vöruúrval og við erum sífellt að bæta við vörum í vefverslun,“ segir Magnús.

Lykillinn að velgengni vefverslana Húsasmiðjunnar sé þó fyrst og fremst samtakamáttur öflugs og lausnamiðaðs starfsfólks í öllum deildum fyrirtækisins.

„Starfsfólk okkar um allt fyrirtækið leggur sig heilshugar fram um að hjálpast að við að bæta þjónustuna, vöruframboð og þróun ýmissa viðskiptalausna til að bæta upplifun viðskiptavina. Í mars og apríl í fyrra var gríðarlegt álag á starfsfólki vefverslunar okkar og þurfti mikla útsjónarsemi og dugnað til að halda þjónustustiginu eins og við viljum hafa það. Það tókst oftast og við lærðum mikið og hratt á þessum tíma,“ segir Magnús.

Blöndunartæki sem og hvers kyns verkfæri eru meðal mjög vinsælla vara í vefverslun Húsasmiðjunnar, husa.is.

Pallaefni heimsent úr vefverslun

Húsasmiðjan varð árið 2019 fyrst íslenskra byggingarvöruverslana til að bjóða timbur til sölu í vefverslun.

„Í fyrrasumar má segja að hreyfing hafi komst á sölu timburs í vefversluninni, og við bjóðum að sjálfsögðu heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu sem margir nýttu sér síðasta sumar. Við sjáum aukinn áhuga viðskiptavina á að nýta sér þennan möguleika þótt enn kjósi flestir að tala við söluráðgjafa þegar timbur og önnur byggingarvara er keypt. Við sjáum hins vegar æ fleiri nýta sér þessa þjónustu í vefverslun og það er ánægjuleg þróun,“ segir Magnús.

Fagmenn versla áfram á sínum kjörum í vefverslun Húsasmiðjunnar.

„Húsasmiðjan var einnig fyrsta byggingarvöruverslunin til að bjóða fyrirtækjum, einstaklingum, og auðvitað iðnaðarmönnum að versla í reikning á sínum kjörum í vefverslun. Hægt er að sækja um aðgangsorð í vefverslun og við það virkjast þessi möguleiki sem æ fleiri nýta sér. Þar að auki færðu aðgang að öflugum þjónustuvef þar sem hægt er að hafa gott yfirlit yfir reikninga og fleira. Allt er það hluti af stefnu okkar, að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu og á það að sjálfsögðu við um viðskipti á vefnum líka,“ upplýsir Magnús.

Í dag nýta margir sér pallareiknivélina á husa.is til að áætla kostnað og efni á pallinn.

„Þar er á einfaldan hátt hægt að áætla efni og kostnað og auðvitað senda útreikningana beint á sölumann sem gefur endanleg tilboð í sólpallinn,“ segir Magnús.

Viðmót í netverslunum Húasmiðjunnar er einfalt, notendavænt og þægilegt.

Framkvæmdalán og ýmsar nýjar þjónustuleiðir

Hjá Húsasmiðjunni starfar öflug tölvudeild sem vinnur hörðum höndum að þróun viðskiptalausna sem auðveldar viðskipti, kaup og vöruafhendingu til viðskiptavina.

„Framkvæmdalán Húsasmiðjunnar er dæmi um slíka lausn og hefur reynst mörgum vel. Þar bjóðum við 90 daga vaxtalaust lán og er hægt að dreifa greiðslum á lengri tíma ef þess er óskað. Framkvæmdalánin henta vel þeim sem eru í framkvæmdum og þurfa að versla mikið magn af okkur í styttri tíma og vilja létta aðeins undir greiðslunum. Þá er þægilegt og einfalt að sækja um Framkvæmdalánið í vefverslun okkar, husa.is,“ segir Magnús.

Umhverfisvænar byggingarvörur í vefverslun

Í byggingargeiranum er mikil vitundarvakning um umhverfisvænar vörur og lausnir, og í vefverslun Húsasmiðjunnar er auðvelt aðgengi að umhverfisvottuðum byggingarvörum.

„Húsasmiðjan vinnur eftir metnaðarfullri umhverfisstefnu og er hluti hennar að efla samstarf við vottaða framleiðendur sem huga að umhverfinu og framleiða vörur með eins vistvænum hætti og unnt er. Við höfum að leiðarljósi að kynna markvisst vistvænar vörur, bjóða upp á nýjungar, tryggja sýnileika umhverfisvænna vara og lausna í verslunum okkar og vefverslunum,“ segir Magnús.

Markmið Húsasmiðjunnar sé að bjóða umhverfisvæna valkosti í öllum helstu vöruflokkum.

„Eitt af markmiðum okkar er að vera með umhverfisvottaðar vörur sýnilegar á vefnum og að auðvelt sé að finna til dæmis Svansvottaðar vörur og vörur sem eru leyfilegar í Svansvottaðar byggingar. Það nýtist jafnt einstaklingum og byggingarverktökum sem eru að undirbúa Svansvottuð eða önnur vistvæn byggingarverkefni.“

Heimsend blóm í áskrift er ný þjónusta sem hefur slegið í gegn í Blómavali.

Blóm í áskrift vinsæl nýjung

Ekki má gleyma Blómavali sem heillað hefur Íslendinga í áratugi með blómaskrúði og fögrum munum.

„Vefverslun Blómavals hefur gengið vel undanfarin ár. Þar bjóðum við úrval ferskra blóma og gjafavöru, ferska blómvendi við öll tækifæri, blómaskreytingar fyrir útfarir, brúðkaup og önnur tímamót,“ upplýsir Magnús.

Í byrjun árs bættist við vinsæl nýjung í vefverslun Blómavals sem er áskrift að ferskum blómum.

„Þar fær fjöldi ánægðra viðskiptavina blóm send heim, einu sinni eða oftar í mánuði. Þá veljum við ferskustu blómin frá bónda hverju sinni og útbúum yndislega fallega blómvendi. Þessi nýja þjónusta hefur farið vel af stað, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum.“

Skoðaðu þig um og gerðu góð kaup í vefverslunum Húsasmiðjunnar: husa.is, blomaval.is og iskraft.is