Á svæði Veðurstofunnar verður áhersla lögð á þá tækni sem notuð er til að vakta eldfjöll, hægt verður að prófa jarðskjálftamæli, en einnig verður hægt að kynna sér áhrif loftslagsbreytinga á jökla landsins.Ragnar Heiðar Þrastarson, fag­stjóri landfræðilegra upplýsingakerfa hjá Veðurstofu Íslands, segir að á básnum á Vísindavökunni verði stórum radar komið fyrir á bílkerru, en radarinn er til dæmis notaður til að mæla ösku frá eldgosum. Þá geta gestir fengið að skoða ýmislegt sem tengist því sem kallast fjarkönnun, en það eru gögn sem meðal annars koma úr gervitunglum sem svífa á braut um jörðina.

„Fjarkönnunargögnin eru mismunandi. Við ætlum aðallega að sýna tvenns konar gögn, sem annars vegar eru það sem við getum kallað hefðbundnar ljósmyndir og hins vegar radargögn. Radargögnin notum við til dæmis til að gera svokallaðar bylgjuvíxlgreiningar til að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum,“ útskýrir Ragnar.

„Við komum til með að sýna nokkur dæmi frá vöktun á náttúruvá og hvernig mismunandi gervitungl virka og tæknina þar á bak við. Við sýnum líka hvernig við lesum úr gögnunum, vinnum þau áfram til að geta túlkað og lesið í þau. Hvað það er sem við sjáum og hvaða þættir það eru sem við fylgjumst með sérstaklega í tengslum við eldgosa- og eldsumbrotavirkni.“

Veðurstofan verður einnig með eitt og annað á staðnum sem gestir geta fræðst um og fengið að prófa. Má þar nefna jarðskjálftamæli.

„Ef gestirnir standa nálægt mælinum og hoppa þá getur mælirinn mælt það, rétt eins og jarðskjálftamælar skynja titring í jörðinni,“ útskýrir Ragnar.

„Við verðum með hóp af fólki á svæðinu til að fræða fólk. Það er um að gera að nýta tækifærið á Vísindavökunni og að spyrja sérfræðingana. Það er ekki til neitt sem heitir heimskulegar spurningar, það er bara frábært að fólk sýni okkar starfi áhuga. Flestir vísindamenn hafa gaman af því að segja frá því sem þeir eru að gera frá degi til dags.“

Á vakt allan sólarhringinn

Á Veðurstofu Íslands er alltaf einhver á vakt til að fylgjast með ástandinu í náttúrunni – jarðskjálftum, rennsli í ám, snjóflóðum, skriðum og svo auðvitað veðri.

„Við erum með vakt allan sólarhringinn sem er mönnuð einum til tveimur sérfræðingum sem fylgjast með ýmsum þáttum. Svo eru fleiri sem styðja við vaktina og eru sérfræðingar á sínu sviði, til dæmis í gervitunglum, jarðskjálftum, gasi eða öðrum sviðum. Þetta geta verið 10-20 manns í heild,“ segir Ragnar.

Vöktunarbúnaður Veðurstofunnar er staðsettur um allt land, en auk eldgosa og jarðskjálfta er fylgst með flóði í ám og jökulhlaupum, svo eitthvað sé nefnt.

„Við erum með margs konar mælitæki eins og jarðskjálftamæla og GPS-tæki til að fylgjast með breytingum í náttúrunni. Við mælum þenslu á yfirborði jarðar vegna kvikuhreyfinga, flóð í ám og snjósöfnun til fjalla, svo dæmi séu nefnd. Við gerum heiðarlega tilraun til að ná utan um alla náttúruvá,“ útskýrir Ragnar.

Ragnar segir að tilgangur þess að vakta náttúruna sé að vara við hugsanlegri hættu og koma í veg fyrir tjón eða að fólk lendi í vandræðum. Náttúruváratburðir eru ólíkir að umfangi og misjafnt hver ógnin er.

„Sumir atburðir gerast aftur og aftur, eins og jökulhlaup úr Skaftárkötlum. Þau koma reglulega og fara sína leið til sjávar, en við verðum alltaf að vera á tánum og fylgjumst með breytingum sem gætu orðið. Eins er það þannig að það er alltaf einhver jarðskjálftavirkni einhvers staðar á landinu, hún getur aukist á ákveðnum stöðum tímabundið og þá er fylgst sérstaklega vel með því og vöktun efld ef þurfa þykir.Við búum á landi þar sem er mikið um alls kyns jarðhræringar og við þurfum að haga seglum okkar eftir því,“ útskýrir hann og bætir við að lokum: „Ég vil hvetja fólk til að koma á Vísindavökuna og fræðast um störf Veðurstofunnar. Það verða líka margir aðrir áhugaverðir básar þar sem fólk hefur lagt mikinn metnað í að matreiða fróðleik ofan í gesti og gangandi, sem fólk ætti endilega að skoða.“