Einar Ágúst Einarsson og fjölskylda stofnuðu vefverslunina Silkisvefn árið 2019 og hefur verslunin fengið frábærar viðtökur. Þau reka verslunina, hanna vörurnar sjálf og selja þær á vefsíðunni silkisvefn.is.

„Við erum komin með nýjar vörur eins og sloppa, náttkjóla, boxer nærbuxur og náttföt í nýjum litum,“ segir Einar Ágúst.

„Í næstu viku fáum við sendingu með nýjum og spennandi litum. Rose Pink, French Blue, Champagne og Lavender.“

Aðrir litir sem eru í boði eru hvítur, svartur, silfur, næturblár, kóngarauður og ferskjubleikur. Að baki hverjum lit býr ákveðin hugsun en þeir eru ekki bara valdir af handahófi.

„Vinsælasti liturinn okkar á rúmfötum er silfurlitaður en svartur og hvítur hafa líka verið vinsælir. Hugmyndin á bak við rauða litinn er að endurspegla þá konunglegu eiginleika sem silki hefur upp á að bjóða. Silfurliturinn á að endurspegla dásemdina við spegilslétt silki og næturblái liturinn var valinn af því hann er fallegur og fágaður litur sem býr til afslappandi andrúmsloft í svefnherberginu. Litirnir í svefnherberginu geta skipt miklu máli upp á að komast í ró og ná góðum svefni,“ segir Einar Ágúst.

Rúmfötin eru til í mörgum fallegum litum völdum af kostgæfni.

Á þessu ári hefur úrval stærða af sængurverum og lökum verið aukið. Nýju sængurverin eru í aukinni lengd: 140 cm x 220 cm. En einnig eru til sængurver í hefðbundinni stærð: 140 cm x 200 cm og tvíbreið sængurver í tveimur stærðum, 200 cm x 220 cm og 220 cm x 240 cm.

Einar Ágúst segir að einnig sé tekið við sérpöntunum á sérstökum stærðum og reynt að koma til móts við allar kröfur viðskiptavina.

Saumað í virtri silkiverksmiðju

Í versluninni fást eingöngu vörur úr 100% mórberjasilki sem hefur einstök gæði. Allar vörurnar í búðinni eru saumaðar í virtri silkiverksmiðju í Sjanghaí en Einar segir Kínverja brautryðjendur í framleiðslu á silki og silkivörum.

„Silki er afar mjúkt og auðvelt að hreyfa sig á silkilaki. Silki andar betur en önnur efni og verður því hitastig líkamans jafnara þegar sofið er með silkisængurver. Mýktin hefur yngjandi áhrif og kemur í veg fyrir úfið hár og flóka. Eins og flestir vita er silki allra fínasta efni sem völ er á og er sérstaklega notalegt þegar kemur að rúmfötum og klæðnaði. Silki endist líka lengi ef vel er hugsað um það, en á vefsíðunni okkar er hægt að finna þvottaleiðbeiningar,“ segir Einar.

„Við erum eingöngu með 22 momme silki í öllum okkar nýjustu vörum. Momme er mælieining sem mælir gæði silkisins. Gæði hefðbundinna efna eru oft mæld í fjölda þráða á hvern fersentimetra, en þar sem silki er með hámarksþráðafjölda þá er momme notað til að mæla þykkt og þar með gæði silkisins. 22 momme þýðir að þú ert með hágæðasilki.“

Hjá Silkisvefni fást fallegir sloppar.

Þar sem Silkisvefn er vefverslun er hún aðgengileg fyrir fólk á landsbyggðinni sem vill sofa í lúxus silkirúmfötum en vörurnar eru keyrðar út á höfuðborgarsvæðinu og sendar með pósti beint heim að dyrum um allt land.

„Við leggjum okkur fram um að afgreiða allar pantanir eins fljótt og auðið er,“ segir Einar Ágúst.

„Stór hluti viðskiptavina okkar kaupir fljótlega meira hjá okkur, oft er það til gjafa eða til að stækka við rúmfatasettið sitt. Vörurnar okkar hafa verið mjög vinsælar jólagjafir og sérstaklega stök koddaver. Það segir okkur að við erum með vandaðar vörur sem fólki líkar vel við.“ ■

Hægt er að panta vörurnar og fá nánari upplýsingar á silkisvefn.is. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið silkisvefn@silkisvefn.is eða hringja í síma 618 0707.