Katrín Kristjánsdóttir og Þórkatla Aðalsteinsdóttir eru sálfræðingar og eigendur Lífs og sálar, sálfræði- og ráðgjafarstofu og sérfræðingar á þessu sviði.

„Við höfum í gegnum árin þróað okkar verklag og vinnubrögð, lært mikið af reynslunni og því verið sóst eftir okkar kröftum í þessi verkefni. Við höfum leitast við að fylgjast vel með nýjustu rannsóknum á þessu sviði. Það hefur vart farið fram hjá neinum að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum í samfélaginu hvað þessi mál varðar og því mikilvægt að vera vel vakandi þegar kemur að ramma vinnustaðarins og hvernig bregðast skal við þegar sá rammi er ekki virtur,“ segja þær Katrín og Þórkatla.

Þær hafa lengi fylgst með Ståle Einarsen prófessor og hans félögum við Bergen-háskóla, en þau hafa lyft grettistaki hvað varðar rannsóknir á sálfélagslegum áhættuþáttum.

„Við höfum sótt námskeið hjá honum síðastliðin ár og nú höfum við boðið honum til Íslands til að miðla sinni þekkingu til okkar. Við höfum fundið mikinn samhljóm með Einarsen hvað varðar nálgun, vinnubrögð og forvarnir í tengslum við sálfélagslega þætti. Þar sem þetta eru flókin og viðkvæm mál þarf að vanda mjög vel til verka. Við leggjum til að mynda ríka áherslu á að slík mál séu alltaf unnin af allavega tveimur sérfræðingum.“

Áhersla á fyrstu viðbrögð

Á námskeiðinu sem fyrirhugað er í maí á næsta ári, mun Ståle Einarsen fara yfir hvernig úttektum á eineltismálum skuli háttað til að tryggja réttláta og sanngjarna málsmeðferð. Þar skiptir máli þekking á hollustuháttum á vinnustað og þekking á þeim lagaramma sem gildir um þau mál.

„Á námskeiðinu verður lögð áhersla á fyrstu viðbrögð þegar lögð er fram kvörtun eða áhyggjur kvikna af samskiptum. Þá þarf að skoða vandlega í hvaða tilvikum gagnlegt er að vísa vinnslu kvartana út fyrir vinnustað í hendur óháðra fagaðila,“ segir Þórkatla.

„Það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt fyrir vinnustaði og stofnanir að til staðar sé góð þekking á EKKO, bæði hjá starfsfólki og stjórnendum. Það er ekki síður mikilvægt að til séu skýrar viðbragðsáætlanir, komi upp sú staða að einhver á vinnustaðnum fari út fyrir rammann. Mannauðsfólk og stjórnendur þurfa að hafa þekkingu á því hvernig bregðast skuli við af öryggi og fagmennsku,“ segir Katrín og segir þessa þekkingu skipta sköpum.

Farið verður yfir þessi atriði og margt annað sem viðkemur einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustað og úttekt á slíkum málum á áðurnefndu námskeiði sem Líf og sál mun halda í maí 2023, ásamt Ståle Einarsen og hans teymi.

Nánar á lifogsal.is