„Hreyfisport var stofnað árið 2014 en árið 2013 fengum við hjónin umboð fyrir Norwell útiæfingatækin, sem má segja að hafi markað upphaf rekstursins. Ég sagði upp mínu fyrra starfi haustið 2019 og ákvað að leggja allan minn kraft í fyrirtækið, sem hafði verið aukavinna hjá okkur hjónunum fram að því. Í byrjun árs 2020 opnuðum við svo skrifstofu og sýningarsal í Reykjanesbæ,“ segir Sigurbjörg Gunnarsdóttir, íþróttafræðingur og framkvæmdastjóri Hreyfisports. „Hreyfisport selur hágæða líkamsræktartæki sem er hægt að nota bæði innan- og utandyra, heilsueflandi skrifstofutæki og endurhæfingartæki, auk þess að veita faglega ráðgjöf og persónulega þjónustu.

Menntun og reynsla okkar hjónanna gefur fyrirtækinu ákveðna sérstöðu. Sjálf er ég sálfræðimenntaður íþróttafræðingur með víðtæka reynslu á sviði kennslu, þjálfunar og starfsendurhæfingar, en Björgvin er byggingatæknifræðingur og það má segja að Hreyfisport sameini áhugasvið okkar beggja,“ segir Sigurbjörg. „Björgvin er mjög handlaginn og er alveg inni í tækni- og gæðamálum tækjanna, en ég er mjög kröfuhörð á gæði þeirra og finnst fátt skemmtilegra en að aðstoða viðskiptavini við að finna tæki og búnað við sitt hæfi. Það er hægt að hafa samband við okkur til að fá ráðgjafa í heimsókn sem veitir ítarlega kynningu og upplýsingar.“

Vönduð tæki í stöðugri þróun

„Þegar Björgvin var að vinna í eignaumsýslunni hjá Reykjanesbæ árið 2012 var eitt af verkefnunum að finna útiæfingatæki sem myndu þola krefjandi veðráttuna á Reykjanesinu fyrir hreystigarða sem sveitarfélagið var að setja upp. Eftir að garðarnir voru komnir upp á fjórum stöðum í sveitarfélaginu okkar kolféllum við fyrir gæðum tækjanna og hversu góð virknin væri, en það er líka algjör plús að hönnunin er falleg. Skandinavískur einfaldleiki einkennir hana og tækin eiga að falla vel inn í umhverfið,“ útskýrir Sigurbjörg. „Arkitektar Norwell í Danmörku bjóða líka upp á að hanna hreystigarðana út frá staðsetningu og umhverfi þeirra og það fylgja þrívíddarteikningar af garðinum og afstöðumynd til að viðskiptavinir geti áttað sig betur á útliti og útkomu áður en hafist er handa við uppsetninguna.

Tækin í hreystigörðum Hreyfi­sports eru einföld í notkun og slysahætta er lítil, þar sem hver og einn notar eigin líkamsþyngd við þjálfunina.

Norwell Outdoor fitness er danskt fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 2007 og er eitt af leiðandi fyrirtækjum á markaði útiæfingatækja í Evrópu og um heim allan. Það eru rúmlega 1.000 Norwell hreystigarðar í Evrópu, Asíu, Bandaríkjunum og Ástralíu og þeim fjölgar ört. Bara hér á landi eru komnir 20 hreystigarðar í yfir 10 sveitarfélögum víðs vegar um landið.

Norwell útiæfingatækin eru einstaklega vönduð og þau hafa verið í stöðugri þróun frá því Norwell kom með fyrstu vörulínuna á markað árið 2007. Það er komin mjög góð reynsla á tækin hér á landi, þar sem fyrstu Norwell hreystigarðarnir voru settir niður árið 2012 í Reykjanesbæ og sá fyrsti í Reykjavík við Bríetartún árið 2013,“ segir Sigurbjörg. „Tækin eru líka einföld í notkun og slysahætta lítil þar sem hver og einn notar eigin líkamsþyngd við þjálfunina.

Það eru komnir upp 20 hreystigarðar í yfir 10 sveitarfélögum víðs vegar um landið. MYND/AÐSEND

Sæti og snertifletir eru úr gúmmíi og liðamót eru ýmist með legum eða sérhertu plasti en tækin sjálf eru úr ryðfríu duftlökkuðu stáli, sem verndar þau einstaklega vel gegn tæringu og eykur endingu. Norwell tækin eru líka sérstaklega hönnuð til að þola norrænt veðurfar, meðal annars seltu, kulda og snjó,“ segir Sigurbjörg. „Tækin eru fyrir alla og við erum með nokkrar vörulínur, þar á meðal tæki sem eru sérhönnuð fyrir þá sem nota hjólastól og líka leiktæki fyrir yngstu kynslóðina. Svo er einnig til „street workout“ lína fyrir þá sem hreyfa sig mikið, sem og borðtennisborð, bekkir og fleira sem hentar vel á almenningssvæði.“

Heilsueflandi og gott fyrir barnafólk

„Mörg sveitarfélög taka þátt í verkefninu „Heilsueflandi samfélag“, þar sem sem markmiðið er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan íbúa,“ segir Sigurbjörg. „Það að bjóða íbúum upp á æfingatæki undir berum himni, þar sem fólk getur komið saman og æft, er frábær þjónusta sem styður vel við markmið heilsueflandi samfélags.

Norwell útiæfingatækin eru einstaklega vönduð og þau hafa verið í stöðugri þróun frá því Norwell kom með fyrstu vörulínuna á markað árið 2007. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Það er líka algjörlega frábært að þurfa ekki barnapössun þar sem börnin hafa ekki síður gaman af því að hreyfa sig í hreystigarðinum og það eru margir hreystigarðar staðsettir við leikvelli, sem er bráðsniðugt,“ segir Sigurbjörg. „Nýlega var Norwell líka að kynna nýjung hjá sér sem er leiktækjalína. Tækin hafa hingað til verið hugsuð fyrir 13 ára og eldri og það hefur vantað línu sem hentar börnum, hvort sem það er í leikskólum, grunnskólum eða bara í almenningsgörðum, þar sem börnin geta verið að hreyfa sig markvisst með foreldrum.

Útivist og hreyfing er frábær blanda og á tímum Covid hafa margir nýtt sér hreyfingu utandyra á meðan lokanir stóðu yfir. Hreyfing og heilsuefling almennt hefur aldrei verið mikilvægari en núna, þegar fólk er að byggja sig upp eftir krefjandi tíma,“ segir Sigurbjörg. „Það má heldur ekki gleyma félagslega þættinum. Það að hitta annað fólk í hreystigarðinum í hverfinu getur verið alveg jafn gott fyrir heilsuna og hreyfingin sjálf.“

Það er frábært að bjóða fólki upp á æfingatæki undir berum himni þar sem það getur komið saman og æft. Það eflir bæði líkamlega og andlega heilsu. MYND/AÐSEND

App sem auðveldar notkun

„Alla Norwell hreystigarða má finna í Norwell Outdoor fitness appinu og þar er líka meðal annars hægt að sjá hvaða garður er næstur manni og hvaða tæki eru þar. Þar má líka finna útskýringarmyndir, myndbönd sem sýna hvernig á að gera æfingarnar og fleira. Við hvetjum alla til að sækja appið og kanna hvar næsti hreystigarður er og prófa að taka æfingu í góðra vina hópi,“ segir Sigurbjörg. „Svo er alltaf tilvalið að stoppa við í göngu- eða hjólatúrnum og taka nokkrar vel valdar æfingar.“ ■


Nánari upplýsingar er að finna á hreyfisport.is, en það er líka hægt að hafa samband í gegnum tölvupóstinn sigurbjorg@hreyfisport.is eða í síma 551-6151.