Það er nauðsynlegt að landsmenn láti ekki góðar hefðir deyja út, segir Sigmar Vilhjálmsson, veitinga- og athafnamaður sem meðal annars rekur Barion matbar í Mosfellsbæ, Barion Bryggjuna úti á Granda í Reykjavík og Minigarðinn. Þorrinn gengur í garð eftir rúma viku og þótt heimsfaraldurinn hafi stöðvað öll hefðbundin þorrablót þýðir það ekki að Íslendingar þurfi að sleppa þorramatnum í ár. „Kristnitakan kom ekki í veg fyrir þorrablótið þannig að Covid ætti svo sannarlega ekki að stoppa það heldur. Við bjóðum upp á tvenns konar úrvals þorrabakka í ár. Annar inniheldur smakk af vinsælasta þorramatnum en hinn fjölbreyttara úrval af ósýrðum þorramat. Báðir koma þeir í vakúmpökkuðum og þar af leiðandi lyktarlausum pakkningum og því þarf enginn að hafa áhyggjur af lykt í bílnum. Þessir bakkar eru frábær kostur í take-away og fyrir Zoom-þorrablótin í ár.“

Glæsilegur þorramatur frá mammamia.is.

Sérvalið hráefni

Hann segir Barion hafa vandað vel val á framleiðendum og því innihaldi bakkarnir einungis vörur frá bestu framleiðendum sem völ er á. „Við bjóðum til dæmis upp á hákarl frá Bjarnarhöfn, síldin er hátíðarsíldin frá Norðanfiski sem var valin besta síldin árið 2020, allt kjötmeti kemur frá Esju og brauðmetið frá Gæðabakstri. Allt í bakkanum er því sérvalið og einungis er um framúrskarandi hráefni að ræða. Það er því óhætt að segja að bakkarnir standist allar gæðakröfur þorramatarunnenda.“

Súri þorrabakkinn kostar 1.995 krónur og segir Sigmar leitun að bakka á betra verði þegar tillit er tekið til gæða. „Stóri bakkinn sem inniheldur ósýrðan þorramat er ætlaður fyrir tvo eða fyrir einn ef viðkomandi vill borða þorramat tvo daga í röð. Hann kostar 5.995 krónur og í honum eru 2 kíló af mat sem telst ansi vel útilátið.“

Þorramaturinn kemur í fallega hönnuðum öskjum. Bæði er hægt að fá súran og ferskan mat.

Þarf að smakka á öllu

Sjálfur er Sigmar mikill þorramaður og talsmaður hefða. „Mér finnst mikilvægt að halda í íslenskar hefðir þótt það sé bara einu sinni á ári. Þorranum fylgir sérstök stemning og sjálfur hef ég sótt tvö til þrjú þorrablót undanfarin ár. Auðvitað finnst mér þorramaturinn misgóður en það er bara hluti af stemningunni að smakka á öllu saman. Mér finnst til dæmis hákarlinn frábær á þorranum en ég borða hann ekki á venjulegum þriðjudegi. Ég á þrjá syni og finnst líka nauðsynlegt að halda hefðum að þeim og mér sýnist þeir njóta þorramatarins betur og betur með hverju árinu.“

Þorrabakkana er hægt að panta á mammamia.is en þar er hægt að velja hvenær þeir eru sóttir og hvar, en valið stendur á milli Barion í Mosfellsbæ, Barion á Granda eða Minigarðsins í Skútuvogi.

Allar nánari upplýsingar á mammamia.is.