Þórunn segir að markvisst sé unnið að því í hjartaendurhæfingunni að aðstoða sjúklinga við að þekkja og takast á við eigin áhættuþætti. „Áhættuþættirnir sem ekki er hægt að hafa áhrif á eru kyn, erfðir og aldur. Aðra þætti er hægt að hafa áhrif á eins og háan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursýki, streitu, reykingar, ofþyngd og hreyfingarleysi. Hafa má áhrif á þessa þætti með fræðslu, þjálfun, hvatningu, lyfjameðferð og innleiðingu nýrra lífsvenja. Mikill ávinningur er af því að koma inn reglulegri hreyfingu, vera sem næst hæfilegri líkamsþyngd og draga úr óþarfa streituvöldum í lífinu, svo eitthvað sé nefnt. Með öðrum orðum hvetjum við fólk til að taka ábyrgð á eigin heilsu,“ útskýrir hún og heldur áfram:

„Hjartaendurhæfing hefur það að markmiði að bæta líkamlegt, félagslegt og andlegt ástand einstaklinga með hjartasjúkdóma svo þeir nái að lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt er í umhverfi sínu. Endurhæfingin einkennist af samvinnu margra fagstétta sem mynda meðferðarteymi. Starf hjúkrunarfræðinga í hjartaendurhæfingu er að styðja skjólstæðinga til þess að taka á þeim þáttum sem hafa áhrif á lífsstíl og líðan þeirra. Unnið er með áhættuþætti sem tengjast sjúkdómi viðkomandi og aðstoð veitt við mögulegar lífsstílsbreytingar,“ segir Þórunn og bætir við að skjólstæðingar séu að eiga við miserfiða sjúkdóma þegar þeir koma í endurhæfingu. „Allur gangur er á því hvernig og hvenær árangur kemur í ljós enda skjólstæðingar okkar eins ólíkir og þeir eru margir.“

Þórunn segir að almennt sé miðað við að endurhæfing standi yfir í fjórar til sex vikur en það sé metið í hverju tilfelli í samráði við skjólstæðinga. „Dæmi um einfalt verkfæri til bata er lífsstílshringurinn. Hann felur í sér grunnþætti lífsins sem allir hafa áhrif hver á annan til að skapa góðan lífsstíl. Þar má helst nefna sjúkdómsástand, félagslega stöðu, virkni, svefn, neysluvenjur, andlega og líkamlega líðan.

Reynslan sýnir okkur að um leið og einn þáttur raskast hefur það með tímanum áhrif á aðra þætti innan hringsins. Við styðjum skjólstæðinga við að sjá heildarmyndina og samhengi þessara þátta. Markmiðið er að þeir átti sig á hvaða leið þarf að fara til að bæta lífsstílinn. Þá er síðan hægt að styðja við þær breytingar til hins betra með fræðslu, hvatningu og stuðningi,“ segir hún.

Þegar Þórunn er spurð hvort starfsfólkið fái þakklæti í vinnunni þegar vel gengur, svarar hún: „Það sem er mjög gefandi er að fá að fylgja fólki frá upphafi endurhæfingar og sjá það útskrifast með bætta líðan og jákvæðari framtíðarsýn. Við gleðjumst innilega með fólki þegar vel gengur og finnum fyrir þakklæti og velvild í okkar garð.“