„Það var aldrei spurning að fara á Unglingalandsmót hjá okkur, þetta var bara sjálfsagður hlutur, rétt eins og að jólin koma alltaf þá kom alltaf að Unglingalandsmóti. Þetta var ekki bara íþróttakeppnin heldur líka tónleikarnir á kvöldin og stemningin á tjaldsvæðinu,“ segir frjálsíþrótta- og afreksstelpan Eva María Baldursdóttir. Hún er fædd árið 2003 og býr ásamt fjölskyldu sinni á Selfossi.

Eva María var um tíu ára þegar hún byrjaði að æfa frjálsar íþróttir. Hún hefur haldið sig að mestu við þær síðan. Hástökk hefur verið hennar sérgrein og á hún Íslandsmet í flokki 16–17 ára (1,81 metri). Hún stefnir þó á að slá gamalt met Þórdísar Gísladóttur sem er 1,88 metrar.

Eva María fór fyrst á Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki árið 2014 og hefur síðan þá farið árlega á mótin með fjölskyldu sinni. Hún mælir með því að allir skelli sér á Selfoss um verslunarmannahelgina og taki þátt í Unglingalandsmótinu.

„Þetta eru geggjuð mót! Það er svo rosalega gaman að það ættu allir að upplifa það. En svo má líka bara taka rúntinn á Selfoss og fylgjast með, hitta fólk og skoða bæinn okkar,“ segir hún að lokum.