„Nú er sannarlega kátt og gaman hjá Englabörnunum því á þessu ári fögnum við því að fjörutíu ár eru liðin síðan búðin var stofnuð,“ segir Ester Bergmann Halldórsdóttir sem er í markaðsráði fyrir fyrirtækið Föt og skór, og sér um netverslun Englabarnanna.

Englabörnin er rótgróin barnafataverslun sem verið hefur í Kringlunni síðan árið 2007.

„Fyrir hálfu ári fluttum við okkur um set í nýtt og glæsilegt pláss á 2. hæð Kringlunnar, þar sem viðskiptavinir geta notið þess enn betur að skoða vöruúrvalið í stærra og bjartara rými. Í kjölfar flutninganna fylgdi líka opnun á nýrri vefverslun og því er hægt að skoða nánast allar okkar vörur á englabornin.is, ganga frá kaupum og fá sent heim að dyrum,“ upplýsir Ester.

Vefverslun Englabarnanna fékk strax frábærar viðtökur.

„Það er ljóst að það skiptir viðskiptavini okkar á landsbyggðinni miklu máli að geta keypt barnaföt frá Englabörnunum heiman úr stofu. Einnig eru íbúar höfuðborgarsvæðisins duglegir að nýta sér þennan kost og við erum mjög glaðar yfir að geta loksins veitt þessa auknu þjónustu.“

Í Englabörnunum fást ekki bara föt heldur margvíslegir fylgihlutir fyrir yngstu börnin.

Skemmtilegasti árstíminn

Í hönd fer uppáhaldstími Esterar og starfsfólks Englabarnanna.

„Þetta er tíminn þegar haust- og vetrarvörurnar streyma inn og sala á útifatnaði byrjar. Svo tekur jólatörnin við, sem er ekki síður skemmtilegur tími, þegar búðin fyllist af fallegum jólakjólum og sparifötum fyrir hátíðarnar,“ segir Ester, innan um dýrindis og undurfögur barnaklæði í nýrri verslun Englabarnanna.

„Eitt af okkar uppáhaldsmerkjum er danska barnafatamerkið Petit by Sofie Schnoor sem hefur notið vaxandi vinsælda hjá okkur í Englabörnum. Merkið framleiðir stílhreinan barnafatnað með einföldu útliti og fallegum smáatriðum. Fötin eru vönduð og endingargóð, og okkar fasti kúnnahópur veit að hverju hann gengur með því að kaupa vörur frá Petit by Sofie Schnoor. Margir bíða með eftirvæntingu fyrir hverja sendingu, en línan inniheldur fallegan spariklæðnað sem og þægilegan hversdagsfatnað,“ greinir Ester frá.

Það fer vel um lítil kríli í fallegum fatnaði og með mjúkan stuðkant og rúmföt í vöggunni frá Petit by Sofie Schnoor.

Allt fyrir ungbarnið

Merkið Petit by Sofie Schnoor skiptist í tvær undirlínur; Sofie Schnoor og Petit by Sofie Schnoor.

„Sofie Schnoor er ætlað eldri börnum og í Englabörnum tökum við inn línuna í stærðunum 128 til 164. Þar eru jogging-gallarnir alltaf vinsælir, sem og allir fallegu sparikjólarnir og fylgihlutirnir,“ útskýrir Ester.

Petit by Sofie Schnoor er ætlað yngri börnum, allt frá fæðingu.

„Í ungbarnalínunni má finna samfellur, heilgalla, buxur og boli sem nýtast vel fyrstu vikurnar og mánuðina í lífi barnsins, auk fallegra fylgihluta í barnaherbergið. Hægt er að fá stuðkant í rúm, ungbarnahreiður, rúmföt, geymslubox, taubleiur og fleira; allt í sama látlausa mynstrinu sem fegrar barnaherbergið,“ segir Ester.

Danska barnafatamerkið Petit by Sofie Schnoor nýtur mikilla vinsælda enda eru fötin stílhrein, vönduð og endingargóð.

Sérstök fyrirburalína

Petit by Sofie Schnoor framleiðir sérstaka fyrirburalínu sem fæst frá stærð 44.

„Fyrirburalínan er undurfalleg með smágerðu mynstri og úr mjúkri bómull. Okkur þykir afar mikilvægt að bjóða upp á þessar stærðir fyrir þá sem þurfa og finnum fyrir miklu þakklæti þeirra sem koma og kaupa þessar allra minnstu stærðir. Þá er fólk oft búið að fara árangurslaust búð úr búð í leit að passlegum fatnaði fyrir fyrirburann sinn,“ segir Ester.

Þegar verðandi foreldrar koma í Englabörnin til að kaupa fyrstu föt ungbarna mælir Ester alltaf með því að taka föt í minnstu stærðunum, frá 50 til 56.

„Þetta er nokkuð sem við höfum rekið okkur á, verandi mæður og eins í gegnum viðskiptavini. Oft þarf að hlaupa til eftir að barnið er fætt og kaupa föt sem passa, þar sem fyrirhyggjan er oft mikil og fötin eiga að duga sem lengst. Við leggjum því áherslu á að eiga að minnsta kosti eitt sett sem smellpassar við fæðingu,“ segir Ester.

Klæðnaður og fylgihlutir frá Petit by Sofie Schnoor er líka afar vinsælt í sængurgjafir.

„Úrvalið er fallegt og endalaust hægt að leika sér með samsetningar. Við getum sagt með vissu að sængurgjöf frá danska merkinu Petit by Sofie Schnoor gleður nýbakaða foreldra. Hjá okkur er öruggt að finna má fulla búð af fallegum vörum.“

Verið hjartanlega velkomin í nýja verslun Englabarnanna í Kringlunni og í vefverslun Englabarnanna, englabornin.is.

Englabörnin hafa nú flutt sig um set í Kringlunni og opnað enn stærri og glæsilegri búð á 2. hæðinni þar sem draumur er að finna svo ótal margt fallegt á börnin. FRÉTTABLAÐIÐ/8ANTON BRINK
Dúnmjúkar samfellur í æðislegum mynstrum fást í Englabörnunum.
Ungbarnarúmföt og teppi í fallegum mynstrum eru vinsæl sængurgjöf
Sætir stuðkantar í rúm og vöggur fást í úrvali frá Petit by Sofie
Geymslubox í stíl við stuðkanta og aðra fylgihluti eru falleg ásýndar.
Draumfögur stígvél fyrir kaldari og blautari haust- og vetrarveður.
Síðerma kjóll og leggings í stíl.
Það er enginn vandi að punta lítil börn með sætum ennisböndum.
Flottar húfur og allskyns fylgihlutir fást í Englabörnum fyrir smáfólkið.