Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur:

Hver er stefna RÚV í kynhlutlausu máli?

RÚV hefur ekki beint tekið afstöðu með eða á móti þeirri málnotkun sem er kölluð kynhlutlaust mál. RÚV er með málstefnu þar sem er að finna ákvæði um jafnrétti og þar kemur fram að starfsfólk eigi að gæta jafnréttis í orðavali. Það felur meðal annars í sér að huga að því hvaða orð er við hæfi að nota um tiltekna þjóðfélagshópa. Það er vel hægt að túlka þau tilmæli þannig að hvatt sé til þess að nota kynhlutlaust mál til að útiloka ekki konur og kynsegin fólk, en það er ekki kveðið skýrt upp úr með það.

Það hafa því ekki verið gefnar út neinar tilskipanir um að frétta- og dagskrárgerðarfólki, eða öðru fólki sé skylt að nota kynhlutlaust mál.

Fylgir RÚV þá þeirri stefnu að málfræðilegt karlkyn sé hlutlaust og ekki ástæða til að taka hvorugkynið upp í þeim tilgangi að gefa til kynna hlutleysi gagnvart kynjunum?

Það er ekki alveg svo einfalt. Við þurfum að hugsa um bæði starfsfólkið okkar og hlustendur. Í máli flestra er karlkyn, og hefur verið, svona hlutlaust málfræðikyn. Það er gripið til þess þegar talað er um eða við ótilgreindan hóp fólks. Það er þess vegna mjög ríkur partur af máltilfinningu stórs hluta Íslendinga. Það á líka við um margt af starfsfólki RÚV. Aftur á móti finnst vaxandi hópi fólks að „hlutleysiskarlkyn“ sé útilokandi. Þetta á einkum við um konur og kynsegin fólk. Því finnst það aftur á móti fá að vera með þegar hvorugkyn er notað í þessari hlutleysismerkingu. Og þetta á líka við um margt af starfsfólki RÚV. Auk þess kýs hluti af starfsfólkinu, fólk af öllum kynjum, að nota heldur hvorugkyn en karlkyn í hlutleysismerkingunni af því að það vill ekki útiloka heilu þjóðfélagshópana. Sjónarmiðin eru þess vegna ýmisleg. Í sjálfu sér er þetta ekkert flókið. Hvert og eitt af starfsfólkinu gerir það upp við sig sjálft hvort það velur að fylgja hefðinni og nota karlkynið, eða brjóta hefðina og tileinka sér nýju málvenjuna, að nota hvorugkynið. Engum er bannað að gera það.

Af hverju stígur RÚV þá ekki skrefið til fulls og tekur upp hvorugkynshlutleysi?

Vegna þess að það er alls ekki einfalt að breyta máltilfinningu sinni. Ef öllu frétta- og dagskrárgerðarfólki yrði gert að breyta talmáli sínu er hætt við að illa færi, fólk myndi ruglast í ríminu og eiginlega væri það bara tómt vesen. Og það er alls ekki hægt að þvinga fólk til að breyta máli sínu með þessum hætti á stuttum tíma, sérstaklega ekki talmálinu. En ef fólk vill breyta máli sínu getur verið gott að byrja á ritmálinu, það er tiltölulega auðvelt. Og starfsfólk RÚV býr svo vel að geta fengið aðstoð málfarsráðgjafa við það.

Sumt af starfsfólki RÚV notar hvorugkynið markvisst, gera hlustendur athugasemdir við það?

Já, hlustendur og áhorfendur hafa skoðun á flestu sem viðkemur málnotkun í Ríkisútvarpinu. Kynhlutleysi er sannarlega eitt af því. Við fáum oft athugasemdir við hvorugkynsnotkunina, fullyrðingar um að það sé verið að spilla málinu með því að banna karlkyn í hlutleysismerkingu og jafnvel að orð eins og maður og samsetningar með því hafi verið bönnuð. Þessar fullyrðingar eru að sjálfsögðu úr lausu lofti gripnar, orðið maður hefur alls ekki verið bannað og ekki heldur karlkynshlutleysið. Það er hægt að taka stikkprufur úr færslum á rúv.is til að sannfærast um það.

En við fáum stundum líka þakkir fyrir að hvorugkynshlutleysið sé notað, jafnvel þótt hvorugkynið sé ekkert sérstaklega mikið notað. Við fáum samt aldrei þakkir fyrir að nota karlkynið, sem er kómískt.

Stendur til að hætta að nota karlkyn í hlutleysismerkingu hjá RÚV?

Ég held að ég geti sagt með vissu að við stefnum í þá átt, af því að þessi málvenja er farin að breiðast út. En ég sé ekki fyrir mér að karlkyn í hlutleysi verði nokkurn tímann bannað, einfaldlega af því að það er ekkert óeðlilegt við að tvær málvenjur lifi hlið við hlið. En kannski rennur þó upp sá dagur, einhvern tímann í framtíðinni, að það þyki almennt óviðeigandi að nota karlkyn í hlutleysismerkingu. Og í raun erum við lögð af stað í þá áttina. Það er mjög auðvelt að gera alls kyns ritaða texta hlutlausari með því að umorða þá þannig að karlkynið sé ekki ráðandi í þeim. Það er til dæmis hægt að gera í stefnu RÚV, ársskýrslu, alls kyns kynningartextum, tölvupósti og víðar. Stundum er notað hvorugkynshlutleysi í veffærslum, þáttahandritum og fréttum. Mér finnst ekkert ólíklegt að það eigi eftir að aukast, því að það er orðið eðlilegur þáttur í máli stórs hluta ungs fólks.

Birta Björnsdóttir, varafréttastjóri:

„Ég hef í síauknum mæli tileinkað mér kynhlutlaust mál. Það var ekki þannig að ég settist niður einn daginn og tók ákvörðun um það, heldur er þetta eitthvað sem hefur breyst smám saman,“ segir Birta Björnsdóttir, varafréttastjóri á fréttastofu RÚV.

„Það er fyrst og fremst vegna þess að mér finnst sjálfri eðlilegra að tala þannig. Að segja fréttir af því að þrjú séu slösuð, en ekki að þrír séu slasaðir.

Það eru fleiri kyn en karlkyn og fréttirnar okkar eru um og fyrir fólk af öllum kynjum. Í starfi mínu sem fréttamaður í sjónvarpi og útvarpi finnst mér skipta máli að flytja texta sem er manni eðlislægur. Texta sem samræmist máltilfinningu manns. En ég geri þetta reyndar ekki bara í vinnunni. Svo er ég heldur ekki á því að tala aldrei um fólk í karlkyni. Það er heldur alls engin regla.“

Birta hefur fengið alls konar viðbrögð við því að segja að fjögur séu látin, en ekki fjórir látnir í fréttum RÚV.

„Mörg hafa lýst yfir ánægju með orðanotkunina en önnur eru ekki eins ánægð. Ég hef fengið langa tölvupósta og símtöl frá fólki sem er verulega ósátt við þessa breytingu. Mín tilfinning er hins vegar að fleiri séu ánægð með fjölbreyttari orðanotkun, þó hún hugnist sem fyrr segir ekki öllum. Ólíkt því sem sum virðast halda eru engar reglur um þetta hér innanhúss hjá okkur. Á meðan við fallbeygjum rétt og vöndum málfar í hvívetna, er okkur frjálst að tala og skrifa eftir okkar máltilfinningu í þessum efnum.

Við gerum þetta ekki öll eins, sem ég held að sé af hinu góða. Blæbrigði og fjölbreytileiki er líka af hinu góða að mínu mati, svo þó að ég segi að fjögur séu látin er öðrum fréttamönnum það eðlilslægara að segja að fjórir séu látnir. Bæði er rétt.

Það er það fallega við tungumálið okkar, það tekur breytingum, sem betur fer. Við erum líka búin að gera hitt svo ógurlega lengi, það er að segja alltaf frá ókyngreindu fólki ósjálfrátt í karlkyni. Er ekki allt í lagi að prófa okkur aðeins áfram með aðrar leiðir til að segja frá fólki?"

Um kynjaskráningu í miðlum RÚV

Haldið er utan um kynjaskráningu í miðlum RÚV, sem felur í sér skráningu kyns viðmælenda í fréttum og öðrum dagskrárliðum í útvarpi og sjónvarpi.

„Við höfum fram að þessu aðeins greint viðmælendur eftir tveimur kynjum en nú er það að taka breytingum og við bætum við hlutlausri kynskráningu. Upplýsingar úr kynjaskráningu í fréttatímum í útvarpi og sjónvarpi notum við til að veita okkur sjálfum aðhald í því að ekki halli á kyn í fréttum okkar. Kynjahlutföll fréttafólks eru um það bil jöfn á fréttastofunni en enn þá hallar á konur sem viðmælendur, þær eru um 40 prósent viðmælenda í fréttatímum RÚV, sem skýrist meðal annars af því að stjórnendur fyrirtækja og stofnana eru að meirihluta karlar. Með því að hafa jafnræði að leiðarljósi getum við kallað til viðmælenda af fleiri kynjum, sem mörg búa yfir góðri sérþekkingu á þeim sviðum sem eru til umfjöllunar," segir Birta.

Þessi grein birtist fyrst í sérblaðinu Kvenréttindadagurinn sem fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 18. júní 2022.