Vélin er af gerðinni Komatsu 350 NLCD-8 og er í dag önnur tveggja sambærilegra véla á landinu. „Þetta er einstök vél með gífurlega afkastagetu. Armurinn með kjaftinum nær upp í yfir 30 metra hæð og húsið lyftist einnig. Þá er vélin um 48 tonn og með stöðugleikastýringu. Armurinn er svo útbúinn myndavél sem sýnir vel yfir það sem á að brjóta.

Kjafturinn á arminum er sérstaklega hannaður til þess að brjóta niður steinsteypu í allt að metersþykkt en þrýstingurinn sem hún myndar getur farið upp í 296 tonn, sem brýtur niður veggi eins og eggjaskurn. Þá klippir hún niður steypustyrktarjárnið eins og ekkert sé.

Ekki nóg með það þá dælir hún vatni á fleti sem á að brjóta og rífa niður og kemur þannig í veg fyrir óhóflega rykmyndun. Þessi vél er notuð en hún er ekki gömul og er í mjög góðu ásigkomulagi,“ segir Erlingur hjá E.J. vélum.

Kjafturinn á arminum á Komatsu niðurrifsvélinni er sérstaklega hannaður til þess að brjóta niður allt að metersþykka steinsteypu.
Sigtryggur Ari

Þurfti að setja drauminn í dvala

„Þetta byrjaði allt í fyrrasumar þegar ég var í viðræðum við fyrrum eiganda vélarinnar sem búsettur er í Bretlandi. Á sínum tíma lét ég skoða vélina af Komatsu umboðinu í Bretlandi. Þegar allar upplýsingar lágu fyrir og ég var tilbúinn að kaupa þá fór krónan á flug. Hún féll og Evrópugjaldmiðlar hækkuðu upp úr öllu valdi og ég þurfti að salta drauminn, allavega um stund. Svo líður og bíður og ég sé þessa sömu vél auglýsta á netinu fyrir tveimur og hálfum mánuði síðan og ástandiðá henni var óbreytt. Eigandinn sjálfur hafði ekki mætt til vinnu í tvo mánuði, allt var lokað og ekkert mátti gera vegna faraldursins. Við ræddum aftur saman og svo varð úr að ég keypti vélina af honum. Vélina flutti ég inn í samstarfi við BP skip sem ferjaði vélina og Kraftvélar sem er með umboð á Íslandi fyrir Komatsu vélar,“ segir Erlingur.

Reynslubolti í faginu

Erlingur starfar sem verktaki undir nafninu E.J. vélar og hefur starfað lengi sem verktaki. „Ég hef unnið í yfir tuttugu ár hjá Reginn og bý yfir gífurlegri reynslu af verktakastarfsemi á byggingum af öllum stærðum og gerðum. Helstu viðskiptavinir mínir eru stærri fyrirtæki en ég tek að mér verkefni af öllum stærðargráðum. Þá sá ég til dæmis um breytingar á Krókshúsnæðinu fyrir Reginn sem Vegagerðin mun síðan leigja af þeim. Ég braut innan úr því um 1700 fermetra af steinsteypu. Þetta verk innti ég af hendi með öðrum vélum sem ég á. Þessi nýja vél er í allt öðrum stærðarflokki en það sem ég á fyrir og færi létt með stórar byggingar, eins og til dæmis Íslandsbankahúsið á Kirkjusandi.“