Hallbjörn V. Rúnarsson þroskaþjálfi segir að það sé engin tilviljun að listastarf hafi verið mikilvægur þáttur í 90 ára sögu Sólheima. Tónlist og leiklist hafi alltaf skipað þar mikilvægan sess. „Sesselja Sigmundsdóttir kynntist hugmyndafræði Rudolfs Steiners en samkvæmt henni skerpir listrænt starf tvo mjög mikilvæga færniþætti, hæfileikann til að móta og greina. Leikrit hafa verið færð upp árlega og síðustu árin með virkri þátttöku allra sem þátt vilja taka,“ segir Hallbjörn.

„Tónlistin var í hávegum höfð og flestum stundum hefur starfað tónlistarmenntað fólk á Sólheimum, sem haldið hefur uppi öflugu tónlistarlífi. Flutt voru inn hljóðfæri og önnur smíðuð á staðnum. Þau voru notuð til tónlistarkennslu áður en farið var að kenna tónlist almennt í skólum hér á landi. Þá hefur verið starfandi kór á Sólheimum frá árinu 1989.

Tilgangurinn með tón- og leiklistarstarfi er ekki bara leikurinn einn. Með því að tjá sig á fjölbreyttan hátt erum við að móta leiðir fyrir okkur sjálf sem eru valdeflandi og geta aukið getu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Með því að sýna öðrum hvað við getum, öðlumst við svo aðdáun, sem er hvatning til að halda áfram og eykur sjálfstraust. Það eru góð rök fyrir því að nota tónlist til að efla einstaklinginn til aukins þroska, færni og lífsgæða.

Þegar ég hóf störf sem þroskaþjálfi á Sólheimum fyrir þremur árum, hafði verið þar öflugt tón- og leiklistarstarf með einstaklingsþjálfun, kórstarfi og útgáfu. Það heillaði mig mikið að halda því starfi áfram, enda alltaf haft sérstakan áhuga á að sýna fram á gildi tónlistar við þjálfun einstaklinga.

Tónlist er ekki frátekin iðja fyrir þá hæfustu, eða þá sem hafa þjálfað með sér færni í hljóðfæraleik. Heilarannsóknir sýna að þegar hlustað er á tónlist verða mörg mismunandi svæði heilans virk. Þannig má færa rök fyrir því að upplýsingar gefnar í tónlist, séu líklegri til að skila sér en þær sem einungis eru gefnar munnlega. Við þekkjum öll hvernig tónlist getur haft áhrif á okkur. Hún getur framkallað tilfinningar sem hríslast um líkamann og fá hárin á handleggjunum til að rísa.

Tónlist getur líka vakið upp nýjar tilfinningar, sem og endurheimt minningar sem tengjast tilfinningum.

Hlutverk tónlistar getur verið, eins og allrar listar, að teikna upp mynd af okkur, að senda boð til annarra um líðan okkar og að tjá tilfinningar okkar. Þannig getur fagmanneskja notað einstaklingsbundnar aðferðir til að þjálfa færni og veita hvatningu.

Áhrifamátt tónlistar má jafnvel nýta á líkamlegt, andlegt og tilfinningalegt ástand einstaklings, áður en gripið er til lyfjameðferðar, samhliða lyfjameðferð og eftir lyfjameðferð.

Þá er hægt að bæta tónlist við margar viðurkenndar aðferðir, sem dæmi má nefna skynörvun með tónlist, félagsfærnisögur með tónlist, að skipta athöfnum upp í þrep þar sem hver athöfn er sungin, og tengslamyndun í einstaklingsþjálfun og hóp.

Á Sólheimum hefst hver einasti vinnudagur á morgunsöng sem er sálmur. Boðskap sálmsins getur hver túlkað á sinn hátt. Tónlistin hefur mátt til að skynja og greina. Það finnst mér segja sína sögu.“

Morgunfundur er haldinn er í upphafi hvers vinnudags. Fundinum lýkur með morgunsöng.
Hallbjörn Rúnarsson þroskaþjálfi.