Þessi samvinna hefur sett gott fordæmi fyrir aðrar þjóðir sem búa við ólík kerfi, ólíka sögu og menningu um hvernig megi þróa vinsamleg samskipti ólíkra þjóða.

Á síðustu 50 árum hafa pólitísk samskipti milli Kína og Íslands aukist töluvert. Þó að Kína og Ísland liggi landfræðilega fjarri hvort öðru, er ekki hægt að skera á þau sterku bönd sem liggja á milli þjóðanna beggja og hafa leiðtogar landanna skipst á vinsamlegum og árangursríkum heimsóknum.

Fyrrverandi forseti Kína, Jiang Zemin, og fyrrverandi forsætisráðherra, Wen Jiabao, heimsóttu Ísland og fyrrverandi forsetar Íslands, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson, og fyrrverandi forsætisráðherrar Íslands, Davíð Oddsson og Jóhanna Sigurðardóttir, sóttu Kína heim.

Á undanförnum árum hafa þjóðirnar tvær bæði fagnað saman á góðum stundum og einnig sigrast á erfiðleikum saman. Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, sendi kínversku þjóðinni nýárskveðjur vegna kínversku áramótanna árið 2021 og leiðtogar beggja ríkjanna hafa sýnt hvort öðru samstöðu og sameiginlegan baráttuvilja í baráttunni við alheimsfaraldurinn vegna Covid-19.

Yang Wen, sendifulltrúi hjá Kínverska sendiráðinu á Íslandi.

Merk tímamót

Í dag á þessum merku tímamótum hafa forsetar landanna, Xi Jinping og Guðni Th. Jóhannesson, og þau Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Wang Yi, fulltrúi í Ríkisráðinu og utanríkisráðherra Kína, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, skipst á heillaóskum vegna tímamótanna með ósk um dýpra samstarf inn í framtíðina.

Á síðustu 50 árum hefur samstarf Kína og Íslands borið ríkulegan ávöxt. Ísland var fyrsta Evrópuríkið sem viðurkenndi stöðu markaðshagkerfis Kína, fyrsta Evrópuríkið sem undirritaði gjaldeyrisviðskiptasamkomulag við Kína og fyrsta Evrópuríkið til að undirrita tvíhliða fríverslunarsamning við Kína. Síðan stjórnmálasambandi milli ríkjanna tveggja var komið á, og sérstaklega eftir undirritun fríverslunarsamningsins, hafa viðskipti milli landanna vaxið og dafnað.

Góð samvinna

Löndin tvö hafa unnið saman á sviði efnahags og vöruviðskipta, og hafa einnig tekið höndum saman í orkuöflun, fiskveiðum og heilbrigðismálum. Íslenskur lax hefur notið síaukinna vinsælda á kínverskum heimilum. Mikil aukning hefur einnig orðið á Íslandi í notkun rafknúinna farartækja frá Kína. Samkvæmt opinberum tölum frá Íslandi var heildarvirði viðskipta milli Kína og Íslands um 238,6 þúsund Bandaríkjadalir árið 1971, en árið 2020 var heildarvirði viðskiptanna um 562,52 milljónir Bandaríkjadala og er aukningin frá 1971 því 2.358-föld. Samvinnan milli Kína og Íslands á sviði jarðvarma, orkumála og við þróun tæknilegra aðferða við bindingu kolefnis hefur einnig skilað undraverðum árangri. Síðan Sinopec Star Co. Ltd var stofnað árið 2006, en það er samstarfsverkefni milli Arctic Green Energy Corporation og Sinopec Group, hefur umfang starfseminnar aukist ár frá ári og nær nú til 60 mismunandi héraða innan Kína og hefur þar að auki haft mikil áhrif á jarðvarmaiðnað Kína. Samningur milli Jiangsu Sierbang Petrochemical Company og Carbon Cycling International (CRI) sem var undirritaður í september síðastliðnum markar einnig þáttaskil í tvíhliða samvinnu ríkjanna á sviði tæknilausna við bindingu kolefnis og er ætlað að stuðla að dýpri samvinnu ríkjanna á sviði sjálfbærrar þróunar og náttúruverndar.

Samvinna ríkjanna á sviði efnahags og viðskipta er einnig sífellt að verða dýpri og víðtækari.

Sigurður Bjarnason og Yiteh Siang eftir undirskriftina, 8. desember 1971. Löndin hafa átt gott samstarf allar götur síðan.

Áhugi á Íslandi

Á síðustu 50 árum hafa samskipti almennings beggja landa einnig orðið meiri og dýpri. Ísland, land „íss og elda“ hefur alltaf verið sveipað dulúð og fegurð í huga Kínverja. Á síðustu árum hefur fjöldi kínverskra ferðamanna á Íslandi aukist hratt. Árið 2019 fór fjöldi kínverskra ferðamanna yfir 100 þúsund, og voru Kínverjar því fjölmennastir í hópi ferðamanna frá Asíu og eru Kínverjar einnig fjórða stærsta upprunaland ferðalanga á heimsvísu.

Kínverska flugfélagið Juneyao Airlines er með beint flug á milli Kína og Íslands á áætlun í náinni framtíð, og mun það enn fremur auka áhuga á ferðalögum milli landanna tveggja og styrkja böndin milli þeirra. Samvinnan milli landanna beggja á sviði vísinda, menntunar og menningar hefur einnig vaxið og dafnað. Háskólar bæði í Kína og á Íslandi bjóða upp á möguleika á að læra tungumál, og kynnast menningu hvort annars. Nemendur beggja landanna hafa sýnt þessum námsmöguleika mikinn áhuga.

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós á Íslandi hefur verið óþreytandi við að kynna kínverska menningu fyrir Íslendingum, ásamt því að styðja við vandað þriggja ára nám í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands, auk þess að kynna möguleika á að Íslendingar geti lært kínverskar bardagalistir í samvinnu við Heilsudrekann. Bæði löndin hafa einnig þýtt ýmis bókmenntaverk yfir á tungumál hvort annars. Árið 2018 hlaut kínversk þýðing á bókinni Hundadagar, eftir Einar Má Guðmundsson, verðlaun sem besta erlenda skáldsagan í Kína.

Margvíslegir viðburðir

Kínverska sendiráðið á Íslandi hefur einnig, í samvinnu við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós, staðið fyrir og skipulagt fjölmarga menningartengda viðburði á borð við „Kínversku nýárshátíðina“ og kynnt þannig hina litskrúðugu og fjölbreyttu menningu Kína fyrir Íslendingum, sem hefur aukið vináttu og hlýhug þjóðanna í garð hvorrar annarrar.

Samvinna Íslands og Kína hefur einnig dýpkað á sviði til dæmis málefna norðurslóða, í baráttunni við loftslagsbreytingar og umhverfisvernd. Þökk sé dyggum stuðningi Íslands varð Kína áheyrnarfulltrúi hjá Norðurskautsráðinu árið 2013. Stofnun rannsóknaseturs Kína og Íslands (CIAO) á Kárhóli árið 2018 skapaði einnig grundvöll fyrir alþjóðlega samvinnu og samskipti varðandi vísindarannsóknir í málefnum norðurslóða.

Alþjóðlegt samstarf

Kína og Ísland deila einnig svipuðum hugmyndum um alþjóðlegt samstarf, svo sem um fjölhliða samstarf, baráttu við loftslagsbreytingar og umhverfisvernd. Ísland stefnir að því að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, og hefur einsett sér að hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis í kringum 2050.

Kína hefur einnig einsett sér að ná að draga úr heildarlosun kolefnis fyrir árið 2030 og að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2060. Bæði löndin eiga góða möguleika á að auka samstarf sitt á sviði loftslagsbreytinga, umhverfisverndar og nýtingar grænna orkugjafa og þar með leggja sitt af mörkum til að vernda okkar sameiginlegu jörð.

Um þessar mundir eru samskipti Íslands og Kína á sögulegum þröskuldi nýrra tækifæra. Á tímamótum sem þessum er nauðsynlegt að líta til fortíðar þegar framtíðin er mótuð. Þegar horft er til framtíðar eru gríðarlega miklir möguleikar fólgnir í samvinnu á sviði viðskipta, ferðaiðnaðar, endurnýjanlegra orkugjafa, líftækniiðnaðar, frumkvæðis og sköpunar, byggingar gagnavera og vefverslunar. Ísland og Kína ættu að leitast við að styrkja þau bönd sem eru á milli landanna á sviði efnahags og viðskipta, stuðla að auknum menningarsamskiptum og samvinnu og samþættingu í málefnum alþjóðasamfélagsins, sem byggir á gagnkvæmri virðingu, sameiginlegum ávinningi og eru til hagsbóta fyrir alla.

Á fundi með forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, árið 2013, sagði Xi Jinping forseti Kína að þrautseigja og frumkvæði einkenndi þjóðarsál íbúa beggja landanna. Það er okkar trú að Kína og Ísland muni koma til með að njóta víðtæks árangurs af sameiginlegri þróun öllum til hagsbóta.

Á þessum sögulegu tímamótum er Kína viljugt til að taka höndum saman við Ísland til að auka pólitískt traust, styrkja raunhæfa samvinnu, auðvelda menningarsamskipti og í sameiningu byggja upp glæsta framtíð tvíhliða samskipta á næstu 50 árum!