„Ég á margar góðar minningar frá Hveragerði. Þær fyrstu eru frá æskuárunum þegar fjölskyldan fór í sunnudagsbíltúra yfir heiðina og niður Kambana í Hveragerði til að skoða apann hjá Michelsen og sleikja ís í gamla Eden, sem var sveipað ævintýraljóma. Ég á líka mjög skemmtilegar minningar frá árinu 1995 þegar HM í handbolta var haldið á Íslandi og íslenska handboltalandsliðið var með þriggja vikna aðsetur á Hótel Örk í Hveragerði, en keyrði yfir heiðina til að keppa í Reykjavík. Þá kynntumst við strákarnir bænum vel og þótt okkur hafi gengið illa á mótinu á ég ekkert nema ljúfar minningar frá Hveragerði og hef alla tíð síðan borið taugar til bæjarins.“

Þetta segir Geir Sveinsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta, og nú nýr bæjarstjóri í Hveragerði.

„Það gerðist allt mjög hratt. Ég rakst á frétt sem vakti athygli mína í vor: um að auglýst væri eftir bæjar- og sveitarstjórum um allt land, þar á meðal í Hveragerði. Það vakti áhuga minn og ég ákvað að sækja um í Hveragerði, fyrst og síðast vegna þess að ég hef haft tengingu við bæinn í gegnum árin, tækifærin þar eru gríðarmörg og Hveragerði er einfaldlega skemmtilegur og góður bær sem hægt er að gera enn betri,“ útskýrir Geir.

Ekki svo ólíkt handboltanum

Það vó þungt í ráðningu Geirs að hann er metnaðarfullur leiðtogi sem er góður í að vinna með fólki, markmiðadrifinn og með sterka sýn.

„Já, ég hef komið víða við og unnið í ólíkum geirum, en eftir að hafa verið bæði leikmaður og síðar þjálfari í handbolta, lít ég svo á að það sé ekki svo frábrugðið því að vera bæjarstjóri. Ekki síst þegar ég starfaði sem þjálfari Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni. Þar vandist ég ákveðinni stjórnsýslu og samstarfi með fólki þar sem allir þurftu að hafa sama markmið. Í bæjarstjórn Hveragerðis á það sama við, rétt eins og í íþróttunum, að við höfum öll sama markmið, sem er að þjónusta bæjarbúa sem best og ná árangri í því sem við gerum. Til þess þarf að virkja alla og allir að stefna að því sama,“ segir Geir.

Nýlega fór íbúafjöldi Hveragerðis yfir 3.000 manns og hefur ekkert sveitarfélag vaxið jafn mikið á einu ári.

„Til Hveragerðis flyst nú mikið af ungu fólki og barnafólki. Það sér sömu tækifæri og ég hér í Hveragerði, þar sem það hefur allt til alls, og áttar sig á gæðunum sem felst í því að búa í smærra samfélagi, utan við skarkala borgarinnar og þaðan sem stutt er í náttúruna. Það skiptir máli og það þekki ég sjálfur eftir að hafa búið í þýskum bæ sem er álíka stór og Hveragerði og nálægt miklu skóglendi. Það varð einmitt til þess að ég freistaði þess að sækja um bæjarstjórastöðuna hér því mér þótti spennandi tilhugsun að lifa og starfa í Hveragerði.“

Hann segir áskoranir nýrrar bæjarstjórnar margar.

„Það felst auðvitað mikil áskorun í því að gera bæjarbúa sátta og ekkert einfalt þegar vöxturinn er svona mikill, því allir vilja hafa aðgang að leikskólum, skólum og þjónustu. Ég veit fyrir víst að það er allt í góðum málum en við ætlum að gera enn betur og okkar leiðarljós að þjóna bæjarbúum og gera allt fyrir bæinn okkar,“ segir Geir.

Geir segir mikil gæði felast í því að búa utan við borgarysinn og í námunda við fallega náttúru. Þess vegna sóttist hann eftir því að starfa í Hveragerði, en ekkert bæjarfélag hefur stækkað jafn hratt á undanförnu ári. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Vill gefa sonum sínum íslenskar rætur

Geir hefur búið í samtals tuttugu ár í útlöndum þar sem hann hefur átt farsælan feril sem handboltamaður og þjálfari, en nú stefnir hann á flutninga til Hveragerðis.

„Við höfum undanfarin tíu ár búið í Austurríki og Þýskalandi en það var komið á dagskrána að flytja heim þar sem þrjú af fimm börnum okkar búa nú heima á Íslandi. Við erum líka með tvo unga drengi á skólaaldri og þurftum að gera upp við okkur hvort við ætluðum að gefa þeim tækifæri á að eignast íslenskar rætur. Það átti þátt í því að við fórum að líta meira heim og færa radarinn aðeins til, og þannig kom þetta til, þótt við séum örlítið fyrr á ferðinni heim en við ætluðum okkur,“ greinir Geir frá.

Hann segir langa búsetu í útlöndum hafa gefið sér dýrmæta reynslu sem nýtist líka vel í bæjarstjórastólnum.

„Við höfum átt afar góðan tíma úti og þar leið okkur einstaklega vel, enda allt umhverfi til fyrirmyndar, allt til alls og drengjunum gekk mjög vel í skóla. Veðurfarið getur maður eðlilega ekki borið saman við það íslenska sem þó er ekki alslæmt og hefur upp á margt annað að bjóða. Heimþráin var því ekki farin að láta á sér kræla en okkur fannst tími til kominn að sameina fjölskylduna endanlega heima á Íslandi.“

Vill viðhalda heilsustimplinum

Geir viðurkennir að hafa verið meira inni við en úti síðan hann settist fyrst í bæjarstjórastólinn eftir verslunarmannahelgina. Hann hefur því ekki enn fundið sinn eftirlætis stað í Hveragerði.

„En nú fer ég meira á stúfana til að skoða mig betur um. Hér er mikið líf og uppbygging, bæjarstæðið einstakt með töfrandi náttúru allt um kring og heillandi útivistarsvæði þar sem veiðiperlan Varmá rennur í gegnum bæinn og hægt er að ganga upp með Reykjadalnum og baða sig í náttúrulaugunum. Ég er háður því að hreyfa mig mikið og sé fyrir mér að hjóla, hlaupa, synda og fara í ræktina hér í Hveragerði. Ég fékk mikinn áhuga á hjólreiðum þegar allt var lokað úti í heimsfaraldrinum og fór þá iðulega út að hjóla í skóglendinu, og það er akkúrat það sem ég á eftir að skoða betur hér og njóta.“

Í Hveragerði er öflugt íþróttastarf og segir Geir ekki á stefnuskránni að koma á fót handboltaliði í bænum.

„Nei, mér finnst þessu ágætlega skipt í nágrannabæjunum, þar sem Selfoss er með frábært handboltalið og Þorlákshöfn með verðlaunað körfuboltalið. Blaklið Hamars hér í Hveragerði er besta blaklið landsins og við afar vel stödd hvað það varðar og aðrar deildir sömuleiðis að gera góða hluti. Við urðum reyndar fyrir áfalli þegar Hamarshöllin hvarf í fárviðri en góð lending verður í því máli fljótlega. Mér finnst því miklu nær að sinna betur því sem vel er gert hér, enda frábært starf í gangi,“ segir Geir í heilsubænum Hveragerði.

„Heilsuefling hefur alltaf verið viðloðandi Hveragerði og þeim heilsustimpli viljum við halda. Hér hefur útivist og heilsurækt verið í öndvegi og hér hefur Náttúrulækningafélagið verið með sína aðstöðu í áratugi. Mjög góð vinkona okkar hjóna, Jónína Ben, sem féll því miður allt of snemma frá, er ein þeirra sem gerðu frábæra hluti og var í mjög góðu samstarfi við bæinn um hreyfingu eldra fólks. Þetta eru greinar sem við viljum skerpa á enn betur og bíður okkar að skapa þá áferð og framtíðarsýn og fara ofan í gildi og ímynd bæjarins. Það gerist auðvitað ekki á einni nóttu en við erum komin með góðan grunn og í farvatninu eru mjög spennandi verkefni.“

Vill láta verkin tala

Geir segir bæjarbraginn í Hveragerði hlýlegan og heillandi.

„Það felst mikill sjarmi í því að hér þekkja allir alla og heilsast. Bæjarbúar hafa tekið einstaklega vel á móti mér og fólk sem ég hitti á förnum vegi eða í Bónus heilsar mér og gefur sig á tal við mig. Það er líka dýrmætt að vinna með fólki sem hefur lifað og starfað í sínum heimabæ alla tíð.“

Hann hlakkar til að láta til sín taka sem bæjarstjóri.

„Ég verð kannski svolítið öðruvísi bæjarstjóri, sem mótast kannski helst af því að það er munur á því að vera pólitískt ráðinn eða af götunni, eins og ég. Ég vil láta verkin tala, en vitaskuld framfylgi ég stefnu og loforðum meirihlutans sem kosinn var. Þetta er öflugur meirihluti sem samanstendur af fólki sem vill láta gott af sér leiða, hefur sterka framtíðarsýn og margar mjög spennandi og góðar hugmyndir. Mér líst vel á markmiðin sem hann hefur sett sér og reyni samsíða því að koma með mín áhrif,“ segir Geir.

Fram undan er bæjarhátíðin Blómstrandi dagar í Hveragerði, með öfluga og metnaðarfulla dagskrá út vikuna.

„Ég hlakka mikið til og þetta er skemmtilegur tími til að taka við sem bæjarstjóri. Tjaldsvæðið er þegar orðið fullt og við erum að stækka það enn frekar því á Blómstrandi dögum tvöfaldast til þrefaldast íbúafjöldinn á einni helgi. Ég mun að sjálfsögðu spássera um bæinn og taka þátt í viðburðum, hitta fólk og upplifa fegurðina í mannlífinu og bænum. Í Hveragerði er endalaust hægt að gera sér glaða og góða daga, taka daginn snemma, ganga um og gera svo ótal margt. Hér eru frábærir veitingastaðir, fjölbreytt gisting á hótelum og gistihúsum og dásamleg sundlaug sem er landsfræg fyrir sitt fallega stæði og góðu gæði.“

Hveragerði er líka þekkt fyrir ís og blóm.

„Já, Kjörís er okkar stærsta fyrirtæki, selur gómsætan ís um allt land og er stór þátttakandi í Blómstrandi dögum. Ís og blóm höfða alltaf til mín; ísinn ekki síst í sumarblíðu og litrík blóm eru einmitt meðal þess sem setur svo fallegan svip á bæinn.“

Hveragerði skartar sínu fegursta á Blómstrandi dögum. MYND/AÐSEND
Í blómabænum Hveragerði springa blómin út um allt, jafnvel upp úr kommóðuskúffum. MYND/AÐSEND

Blómstrandi dagar, líf og fjör

Á morgun, fimmtudaginn 11. ágúst, hefjast Blómstrandi dagar í Hveragerði, árleg bæjarhátíð sem stendur fram á sunnudag.

„Hátíðin er sannkölluð menningarveisla og henni fylgir blómlegt líf og skemmtileg stemning í bænum. Dagskráin í ár er metnaðarfull og fjölbreytt fyrir alla fjölskylduna. Þar má nefna listsýningar, sögugöngur- og ferðir, markaðstorg, opnar vinnustofur og gallerí hjá fjölmörgum listamönnum og bæjarbúum,“ upplýsir bæjarstjórinn, fullur tilhlökkunar.

Á laugardag verður fjölskyldudagskrá í Lystigarðinum þar sem fram koma meðal annars Friðrik Dór og Lína Langsokkur, félagar í Hljómlistarfélaginu, Diskótekið Dísa og fleiri.

Á sunnudagsmorguninn verður útimessa í Lystigarðinum með séra Ninnu Sif og Lay Low sér um tónlistina. Þar sýnir líka Leikhópurinn Lotta og BMX Brós leika listir sínar. Íþróttafélagið Hamar fagnar 30 ára afmæli sínu og býður hressum krökkum í ljósabolta, þrautabraut, froðubolta, DJ í sundi, leiki og fjör.

Þá bjóða fjölmörg þjónustufyrirtæki í Hveragerði upp á fjölbreytta dagskrá, þar á meðal þrautabraut Hjalta Úrsus í boði Kjöríss, gleðitónleika við Matkrána, listsýningar í garðyrkjustöðvunum Flóru og Ficus, harmonikkufestival í Blómaborg, markaðsstemningu og grínistakvöld í Rósakaffi, Jibbí torfærubílinn við Hofland Eatery, djass í Reykjadal Skála og fleira.

Vönduð tónlistardagskrá verður alla dagana á Blómstrandi dögum, þar sem landsfrægir tónlistarmenn koma fram. Sóli Hólm skemmtir á Hótel Örk annað kvöld, Djassband Ómars Einars kemur fram á föstudag í Listasafninu og Heimir Eyvindar og hljómsveit verður með 90’s nostalgíu. Á laugardag verður glæsileg kvöldvaka á útisviðinu í Lystigarðinum þar sem koma meðal annars fram Jónas Sig og Ómar Guðjóns, Sycamore Tree, Dagný Halla og Værð.

Síðast en ekki síst sér Gunni Óla um brekkusönginn og að lokum verður stórglæsileg flugeldasýning, en Gunni Óla og hljómsveit leika á Blómadansleiknum sem verður á Hótel Örk.

„Við bjóðum alla velkomna til okkar á Blómstrandi daga sem er frábært tilefni til að heimsækja bæinn og njóta alls þess sem hann hefur upp á að bjóða,“ segir bæjarstjórinn Geir.

Dagskrá Blómstrandi daga má sjá á hveragerdi.is og á Blómstrandi dagar í Hveragerði á Facebook.

Börn fá mikið fyrir sinn snúð á Blómstrandi dögum og dagskráin sniðin að fólki á öllum aldri. MYND/AÐSEND
Á bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum er meðal annars boðið upp á ýmis konar heilsurækt. MYND/AÐSEND
Bæjarbúar eru duglegir að skreyta götur Hveragerðis á Blómstrandi dögum. MYND/AÐSEND