Guðmundur Steinsson, forstöðumaður Ölurs, segir að skógræktarstöðin hafi verið enduropnuð í fyrrasumar, eftir að hafa verið lokuð um nokkurt skeið. Ölur er eina lífrænt vottaða skógræktarstöðin á Íslandi.

„Við framleiðum tré fyrir Skógrækt ríkisins, en við erum líka með gróðurhús sem við köllum Litla Eden. Gróðurhúsið er 660 fermetrar og við erum að fylla það af ávaxtatrjám,“ segir Guðmundur.

Ávaxtaræktunin er tilraun sem er styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Á næstu tveimur til þremur árum er markmiðið að fylla gróðurhúsið af ávaxtatrjám og framleiða tvö til þrjú tonn af lífrænt ræktuðum ávöxtum árlega. Í dag eru ræktuð epli, plómur, apríkósur, ferskjur, kirsuber, perur og vínber í gróðurhúsinu.

Allt grænmeti sem ræktað er á Sólheimum er lífrænt vottað. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ávextir í áskrift

„Draumurinn hjá mér er að selja ávextina í áskrift. Fólk kaupir þá ákveðið magn á mánuði og getur sótt ávextina sína í einhverja verslun í Reykjavík. En við ætlum líka að selja eplin á Sólheimum og búa til besta eplapæ í heimi. Það verður selt á kaffihúsinu hérna á Sólheimum. Þetta eru gæða ávextir og takmörkuð auðlind og þeir verða ekki seldir í stórmörkuðum. Ávaxtatrén eru lífrænt ræktuð, en þau fá túnstimpil næsta sumar þegar við förum að selja eitthvað að ráði. Ávextirnir eru ræktaðir eftir öllum aðferðum lífrænnar ræktunar og við notum ekkert eitur,“ útskýrir Guðmundur.

Auk gróðurhússins er Garðyrkjustöðin Ölur með 170 hektara lands, sem notað er í skógrækt.

„Við fáum plöntur frá Skógrækt ríkisins sem við gróðursetjum, og stækkum þannig skóginn okkar. Núna í sumar erum við að planta 16.000 trjám í landi Sólheima. Það er ákveðin kolefnisjöfnun í því. Við erum með samninga við Alvogen og félags- og barnamálaráðuneytið um að gróðursetja tré í okkar landi til að kolefnisjafna allar þeirra ferðir. Til framtíðar erum við einnig að rækta skóg til nytja,“ segir Guðmundur.

„Hjá Ölri hafa skapast störf fyrir fatlaða íbúa Sólheima sem koma hingað og hjálpa til við að reyta arfa og fleira. Það er góð tilfinning að koma inn í gróðurhúsið. Fólk talar um að það sé algjör himnaríkisslökun. Alveg frá því í mars, þegar trén byrja að blómstra og svo þegar ávextirnir byrja að myndast og það kemur góður ilmur frá þeim. Það er dásamlegt að fylgjast með þessu. Það er ákveðinn heilunarmáttur í því fyrir alla.“

Piotr ræktar lífrænt grænmeti á Garðyrkjustöðinni Sunnu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Fjölbreytt, lífrænt grænmeti

Í Garðyrkjustöðinni Sunnu hefur frá upphafi verið ræktað lífrænt grænmeti. Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir var frumkvöðull í lífrænni ræktun, en almennt er talið að upphaf lífrænnar ræktunar, ekki bara á Íslandi heldur einnig á Norðurlöndunum, hafi verið á Sólheimum. Sólheimar voru valdir undir starfsemina meðal annars vegna jarðhitans. Í Sunnu eru ræktaðar gúrkur, tómatar, paprikur og ýmiss konar salat.

„Við notum engin eiturefni í framleiðslunni. Áburðurinn sem við notum er allur lífrænn, til dæmis hrossatað, kjúklingaskítur og þari,“ segir Piotr Dera, forstöðumaður Sunnu.

„Hér vinna að jafnaði 6-8 manns og við framleiðum árlega um það bil 30 tonn af grænmeti. Það koma líka reglulega starfsnemar að vinna hjá okkur sem eru til dæmis að læra um sjálfbærni og lífræna ræktun.“

Grænmetið frá Sólheimum er selt í stórmörkuðum, en Sólheimar eru um þessar mundir að opna markað með grænmeti á Hvolsvelli.

„Í framtíðinni langar okkur að opna fleiri litla markaði og selja fleiri tegundir af grænmeti,“ segir Piotr.