Um er að ræða sérstakan tæknibúnað sem kemur sem hluti stjórnkerfis nýrra bíla,“ bætir hann við.

„Búnaðurinn virkar þannig að þegar árekstrarskynjarar bifreiðar eru virkjaðir, eins og gerist til dæmis við árekstur, er opnað fyrir talsamband beint við Neyðarlínu og á sama tíma er sendur gagnapakki sem inniheldur lágmarksupplýsingar til að upplýsa um staðsetningu og grunngerð þeirrar bifreiðar sem á í hlut,“ segir hann.

„Það er ekki alltaf sem bílstjóri eða farþegar eru í standi til að hringja sjálfir í Neyðarlínuna, og jafnvel langt í að nokkur komi á vettvang sem getur hringt í 1 1 2 og beðið um aðstoð.

Búnaðurinn getur veitt ýmsar aðrar upplýsingar eins og um stefnu og hraða bifreiðar í aðdraganda áreksturs eða atburðar. „Í einhverjum bifreiðum munu líka verða skynjarar í sætum og geta þá gefið upp fjölda farþega í bifreið.“

E-Call er nú þegar fáanlegt í nokkrum tegundum bifreiða hjá vel flestum umboðum en samkvæmt reglum frá Evrópusambandinu er þetta skyldubúnaður í öllum nýtegundarskoðuðum bílum, og standa vonir til þess að innan fárra ára verði þetta í öllum nýjum bílum, og þá jafnvel fáanlegt til ísetningar í eldri bíla, að sögn Tómasar.

„Auðvitað vonast allir til þess að þeir þurfi aldrei að nota þennan búnað, en engu að síður er staðreynd að á ári hverju verða bílslys og þá getur svona búnaður skipt miklu máli, ekki síst úti á landi eða á fáförnum slóðum,“ segir hann.

Hægt er að ræsa E-Call handvirkt ef þörf er á eins og til dæmis ef komið er að slysi. Þessi takki er oftast merktur með „SOS“ og er gjarnan í grennd við baksýnisspegilinn. „Við höfum þjálfað okkar fólk hjá 1 1 2 í að fá svona símtöl. Við getum átt von á að fá nokkur símtöl á ári frá þessum búnaði,“ segir Tómas. „Ég hef fylgst með þróun í þessum málum í tæpan áratug og tel þennan búnað tvímælalaust auka umferðaröryggi.“