Raquelita Aguilar tók við starfi forstöðumanns stafrænnar þróunar hjá Isavia í byrjun maí síðastliðinn. Hún segist vera spennt fyrir komandi tímum enda ætli fyrirtækið sér stóra hluti þegar kemur að tækni í rekstri flugvallarins og farþegaupplifun.

Raquelita byrjaði að vinna sem prófari hjá Stokki Software árið 2015 og þróaðist þar í starfi sem gæða- og verkefnastjóri. „Í byrjun árs 2018 tók ég svo við sem rekstrarstjóri. Í júlí sama ár útskrifaðist ég sem tölvunarfræðingur og mánuði eftir útskrift var mér boðin staða framkvæmdastjóra Stokks sem ég sat í þar til ég kom til Isavia. Hjá Stokki öðlaðist ég dýrmæta reynslu sem hefur og mun nýtast mér mjög í starfi mínu hjá Isavia,“ segir Raquelita.

Fyrri kynni flugvallarins

Raquelita segist hafa kynnst starfsemi flugvallarins þegar hún starfaði í sumarafleysingum hjá lögreglunni 2012–2015. „Ég var meðal annars í landamæraeftirlitinu uppi á flugvelli. Ég er því kunnug þeim hluta flugvallarins þar sem ég lærði meðal annars hverjir mega koma inn á Schengen-svæðið og hverjir ekki, ásamt því að þekkja fölsuð skilríki og skilríki sem verið er að misnota.“

En hvernig kom til að þú sóttir um starfið hjá Isavia?

„Ég var í raun ekki að leita mér að starfi enda ánægð hjá Stokki. Svo var mér bent á starfsauglýsinguna frá Isavia og fannst hún hljóma spennandi. Ég ákvað því að senda inn umsókn. Mig langaði líka til að sjá hvar ég stæði þegar kæmi að því að sækja um svipaða stöðu hjá fyrirtæki eins og Isavia. Eftir að hafa komist í fyrsta starfsviðtalið opnaðist nýr tækniheimur fyrir mér sem mig langaði að fá að kynnast betur,“ segir Raquelita.

Stafrænar lausnir

Hlutverk einingarinnar sem Raquelita leiðir hjá Isavia er að styðja við þarfir annarra rekstrareininga Isavia þegar kemur að upplýsingatækni og stafrænum lausnum. „Eitt af okkar hlutverkum er að þarfagreina, velja tæknilausnir og innleiða þær með hagsmunaaðilum, í samræmi við stefnu og kröfur Isavia. Við erum einnig að byggja upp vöruhús gagna og erum að leggja enn meiri áherslu á viðskiptagreind og styðja þannig við gagnadrifnari hugsun og upplýstari ákvarðanatöku innan Isavia.“

Það er mikil uppbygging í gangi hjá allri Isavia-samstæðunni, sérstaklega þegar kemur að stafrænni þróun, viðskiptagreind og upplýsingatækni.

Ný deild

Það fyrsta sem Raquelita gerði þegar hún tók við starfinu var að ráða inn nýja starfsmenn í teymið enda var af nægum verkefnum að taka. „Starfið mitt og deildin mín, sem heitir Stafræn þróun, er alveg ný eining hjá Isavia og þar fæ ég tækifæri til að taka þátt í að móta mjög mikilvæga stoðeiningu hjá fyrirtæki sem hefur sérstöðu í okkar samfélagi og hagkerfi. Það er mikil uppbygging í gangi hjá allri Isavia-samstæðunni, sérstaklega þegar kemur að stafrænni þróun, viðskiptagreind og upplýsingatækni. En það er einungis rúmt ár síðan sviðið sem ég er undir, Stafræn þróun & upplýsingatækni, var stofnað. Þar á undan var ekki mikil áhersla á upplýsingatækni eða stafræna uppbyggingu.

Tæknileg uppbygging félagsins sem snertir innviðina, flugvöllinn og farþegaupplifun, er risastórt og margra ára verkefni sem mér finnst alveg hrikalega spennandi og það eru forréttindi að fá að taka þátt í að byggja það upp og þróa. Ég fann strax fyrir mikilli jákvæðni hjá Isavia og allir eru tilbúnir til að fara í breytingar og gera nýja og spennandi hluti.“

Spennt fyrir næstu verkefnum

Raquelita segist vera full eftirvæntingar að taka við og þróa verkefni næstu ára. „Ég hlakka mikið til að fara að hlaupa almennilega af stað en eðlilega gengur allt aðeins hægar en maður ætlar sér þegar maður er að komast inn í nýtt starf. Næstu verkefni eru helst að stækka teymið enn frekar, innleiða lausnir og ferla þvert á samstæðuna og byggja upp vöruhúsið okkar og viðskiptagreind. Allt þetta mun styðja við framtíðarplön flugvallarins til næstu ára. Við ætlum okkur nefnilega stóra hluti þegar kemur að tækni í rekstri flugvallarins og farþegaupplifun.“