Verslunin Tískan var í Skipholti áður en hún flutti í Ármúlann í síðustu viku, en verslunin hefur verið starfandi frá árinu 1963.

„Áður en við fluttum í Skipholtið hét verslunin Parísartízkan, við ákváðum að uppfæra nafnið og ímynd okkar í flutningunum því sumir töldu okkur vera eingöngu franska verslun fyrir eldri kynslóðina en verslunin er frá þeim tíma þegar öll helsta tískan kom frá París. Í dag eru tímarnir aðrir og við bjóðum upp á vörur meðal annars frá Ítalíu og Þýskalandi þar sem gæði og gott verð er í fyrirrúmi,“ segir eigandi Tískunnar, Hjördís Sif Bjarnadóttir. Hjördís hefur verið viðloðandi verslunina frá því hún var lítil stelpa, en móðir hennar rak hana í aldarfjórðung. Í dag rekur Hjördís báðar verslanirnar, Tískuna og Commu ásamt eiginmanni sínum Hilmari Þórarni Hilmarssyni.

Tískan og Comma eru fluttar í stórt og gott húsnæði í Ármúla.

Hafa afgreitt þrjá ættliði

„Tískan leggur áherslu á fatnað fyrir konur 20 ára og eldri. Við seljum mikið fyrir útskriftir úr háskólum og menntaskólum og líka fyrir brúðkaupin. Við höfum alveg verið að afgreiða þrjá ættliði í einu, sem er ekki eitthvað sem ég held að margar verslanir geti sagt,“ segir Hjördís hlæjandi.

Hjá Tískunni fást þýskar og ítalskar vörur frá merkjum eins og Max Mara, Marina Rinaldi, Weekend, Penny Black, Person by Marina Rinaldi, Brax og Basler, svo þau helstu séu nefnd.

„Við erum með fjölbreyttan fatnað. Kjóla, dragtir, kápur, boli og buxur á breiðu stærðarbili. En við erum með stærðir frá 34 til 48,“ segir Hjördís.

Hilmar Þórarinn og Hjördís Sif eru ánægð með nýja húsnæðið.

Fágað og töff

Verslunin Comma var áður í Smáralind, en hún var opnuð þar haustið 2014. Comma er alþjóðleg kvenfataverslun með búðir í yfir 20 löndum. Comma hefur verið eitt stærsta tískuvörumerki í Evrópu undanfarin ár. Í versluninni er lögð áhersla á að bjóða upp á hágæða vörur á viðráðanlegu verði.

„Við erum með tvær línur í versluninni. Önnur heitir einfaldlega Comma, einkunnarorð þeirrar línu eru fallegt, fágað og töff. Svo erum við með Comma Casual Identity. Í þeirri línu er boðið upp á þægilegri hversdagsföt sem eru þó falleg og klæðileg. Það var til dæmis vinsælt þegar Covid var að byrja að kaupa „fancy“ jogging buxur og fína skyrtu við,“ segir Hjördís.

Fjölbreytt opnunartilboð eru í verslunum Tískunnar og Comma í Ármúlanum.

Bílastæði beint fyrir utan

Tískan og Comma hafa nú flutt saman í 500 fermetra verslunarhúsnæði í Ármúla 5. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og segir Hjördís að það fari mjög vel um þau á nýjum stað.

„Það er gott að vera með verslun í sérhúsnæði. Í nýja húsnæðinu er gott loftræstikerfi og nóg pláss til að skoða. Það eru líka 27 bílastæði beint fyrir utan verslunina, en fólki finnst æðislegt að geta lagt beint fyrir utan,“ segir Hjördís.

Í Tískunni og Comma fást vandaðar flíkur við allra hæfi.

Verslanirnar voru opnaðar á nýjum stað á föstudaginn fyrir viku og Hjördís segir kúnnana ánægða með breytinguna.

„Við erum með mikið af fastakúnnum, bæði hjá Tískunni og Comma. Án þeirra værum við ekki á þessum stað í dag,“ segir hún.

Fjölbreytt opnunartilboð eru í verslununum þessa dagana og býður Hjördís bæði gamla og nýja viðskiptavini velkomna að koma og kíkja á úrvalið.

Hægt er að fylgja verslununum á Facebook undir nöfnunum Tískan og Comma Iceland.

Falleg og vönduð taska frá Basler.
Fötin í Tískunni henta konum á öllum aldri í ólíkum stærðum frá stærð 34 upp í stærð 48.