Þær Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar hjá Reykjavíkurborg, og Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri viðburða hjá borginni, hafa veg og vanda af skipulagningu Barnamenningarhátíðarinnar í ár. Dagskráin er mjög fjölbreytt og skemmtileg venju samkvæmt.

„Í ár leggjum við áherslu á gleði, núna er tími til að hoppa af kæti þar sem síðustu ár hafa ekki boðið upp á mikla mannfögnuði. Núna veitum við börnunum stóra sviðið í menningunni í borginni,“ segir Harpa.

„Þetta er þátttökuhátíð sem þýðir að viðburðirnir eru skipulagðir af okkur en líka öðrum. Börnin fá mikið pláss í menningarhúsum og söfnum um alla borg þar sem þau sýna eigin sköpunarverk sem þau hafa sum verið að vinna að í allan vetur.“

Á meðal sýninga í menningarhúsunum má meðal annars nefna stóra sýningu í Sjóminjasafninu þar sem börnin hafa skapað listaverk eftir að hafa lært um umhverfismál. Í Safnahúsinu á Hverfisgötu sýna grunnskólabörn listaverk sem eru innblásin af náttúrunni. Í Norræna húsinu verða tónleikar, leikhús og krakkabar, í Gerðubergi segja aldraðir börnunum sögur sem krakkarnir vinna svo listaverk út frá í listasmiðju og margt, margt fleira. Einnig verður fjölbreytt dagskrá í félagsmiðstöðvum þar sem krakkarnir frá útrás fyrir listræna tjáningu.

„Unglingarnir eru margir með ákveðin verkefni í sínu nærumhverfi. Hæfileikakeppnir, smiðjur og verkefni sem þau hafa tekið þátt í að hanna. Félagsmiðstöðvar í Breiðholti hafa til dæmis verið að mála hjá sér í hinsegin litum til að leggja áherslu á gleði og fjölbreytileika og unglingarnir í Vesturbænum halda karnival,“ segir Harpa.

Björg útskýrir að Reykjavíkurborg veiti styrki til verkefna á barnamenningarhátíð. Þannig koma inn á hátíðina fjölbreytt verkefni, sem börnin hafa oft unnið að í samstarfi við listafólk.

„Þetta eru viðburðir af mismunandi stærðargráðu, sem er mjög skemmtilegt. Allt frá risastórum viðburðum í Hörpu niður í lítinn viðburð á leikskóla þar sem börnin sýna fyrir foreldrana,“ segir hún.

„Inni á Barnamenningarhátíð er svo önnur minni hátíð sem heitir Ungi, sviðslistahátíð fyrir unga áhorfendur. Þar verður fullt af leiksýningum fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Þær verða fyrst og fremst í Tjarnabíói og Norræna húsinu.“

Eva, Björg og Harpa segja margt spennandi í boði fyrir börn úti um alla borg. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Fjórða bekk boðið í Hörpu

Hátíðinni var þjófstartað í ár með tveimur viðburðum í gær en formleg opnun er í dag þar sem öllum fjórðu bekkingum í Reykjavík er boðið í Hörpu.

„Við erum búin að skipuleggja dagskrá sem er sérstaklega hönnuð fyrir þau. Þar verður frumflutningur á lagi Barnamenningarhátíðar, sem krakkarnir hafa tekið þátt í að skapa. Þau lærðu lagið heima fyrir viðburðinn,“ segir Harpa.

„Krakkarnir áttu að hugsa um hvað veitir þeim gleði. Hvernig þau verða glöð og geta glatt aðra. Þau sendu okkur svo hugmyndir sem við komum áfram til JóaPé og Króla. Þeir tóku hugmyndirnar og bjuggu til alveg geggjaðan texta við lag sem þeir sömdu. Þeir ætla að frumflytja lagið með krökkunum. Þetta verður alveg rosalega skemmtilegt.“

„Þetta er árgangur sem við tökum á móti á hverju ári og bjóðum í Hörpu,“ skýtur Björg inn í.

„Okkur finnst mjög dýrmætt að geta alltaf boðið þessum eina árgangi til okkar. Það tryggir að öll börnin í borginni fara einhvern tímann í Eldborgarsal Hörpu,“ bætir Harpa við.

Opnunarviðburðurinn hefst á klassísku verki sem fiðluleikarinn Sigrún Eðvaldsdóttir flytur og endar á á brjáluðu poppi og dansi að sögn þeirra Hörpu og Bjargar.

Skemmtilegt er að segja frá því að opnunarviðburðurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV 2. Þær benda á að allir viðburðir Barnamenningarhátíðar eru ókeypis en dagskrána má finna á barnamenningarhatid.is.

Skjáskot úr myndbandi JóaPé og Króla við lag Barnamenningarhátíðar í ár. MYND/AÐSEND

Þriggja tíma brúðkaup

Kristinn Óli Haraldsson, eða Króli, segir að þeir Jói hafi ekki getað afþakkað það góða boð að semja lagið fyrir Barnamenningarhátíð í ár.

„Reykjavíkurborg velur höfunda hvert ár og við fengum kallið núna. Eftir skemmtileg lög frá Daða og Jóni og svo Bríet í fyrra og fleirum þá gátum við ekki slegið hendinni á móti þessu. Það er mjög gaman að geta gert svona skemmtilega hluti með honum Jóa. Við fengum Snorra Beck með okkur, sem samdi með okkur Eurovision-lagið sem Katla Njálsdóttir söng. Úr varð þessi skemmtilega gleðisprengja,“ segir Króli.

„Það er alltaf ákveðið þema hvert ár og í ár var það gleði. Hvernig dreifum við gleði og hvað gleður okkur. Textinn er bara svör krakkanna við þessum spurningum. Allt sem við segjum í laginu er eitthvað sem einhverjum fjórða bekkingi í Reykjavík finnst annað hvort dreifa gleði eða veita þeim gleði,“ útskýrir hann.

„Það er margt sem veitir þeim gleði. Í byrjuninni á laginu er talað um að koma mömmu og pabba á óvart með því að ganga frá í húsinu, þau tala líka um að spila tölvuleiki en uppáhaldið mitt er að einhverjum fannst gleðja sig að fara í þriggja tíma brúðkaup. Það er heitið á laginu.“

Eins og áður segir munu þeir JóiPé og Króli syngja lagið með krökkunum í Hörpu í dag og eru spenntir fyrir því.

„Þetta verður mega skemmtilegt,“ segir Króli sem hlakkar til að hitta alla fjórðu bekkinga Reykjavíkur.

Ævintýrahöll í Úlfarsárdal

Í ár verður sérstök áhersla lögð á Úlfarsárdal sem er nýjasta hverfið í borginni.

„Það verður Ævintýrahöll um helgina, 9. og 10. apríl. Börnum og fjölskyldum er boðið þangað í fjölbreytta dagskrá. Hún byrjar með fjölskyldujóga að morgni og svo verður stígandi í stuðinu. Það verður sundballett og Abba-singalong í sundi. Alls konar upplestrar á bókum og svo endar þetta í krakkakaríókí og krakkareif-danspartíi,“ segir Harpa.

„Það verða líka margar smiðjur þar sem fjölskyldur geta tekið þátt og það verður matur þarna svo fólk getur varið öllum deginum í Ævintýrahöllinni,“ segir Björg.

Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal er gestgjafi Ævintýrahallarinnar í ár en þar er Unnar Geir Unnarsson deildarstjóri.

„Það verður dagskrá hjá okkur um allt hús. Bæði inni á bókasafninu og frammi á gangi. Það verður föndursmiðja og dragdrottningin Starína mun koma og lesa fyrir börnin. Klassíski listdansskólinn verður með sýningu, blaðrarinn mætir á svæðið, það verður sirkus og bara nefndu það,“ segir Unnar Geir.

„Svo margt verður í boði hjá okkur um helgina að Barnamenningarhátíð fékk matarvagna til að vera fyrir utan bókasafnið þannig að fólk þurfi ekki að fara heim í mat. Það getur bara fengið sér að borða með okkur. Svo verður frítt í Dalslaug fyrir fullorðna sem verða í fylgd með börnum. En sundlaugin og bókasafnið deila húsnæði.“

Unnar Geir segir að þetta sé kjörið tækifæri til að koma í heimsókn í Úlfarsárdalinn og heimsækja nýja bókasafnið og nýju laugina en hvort tveggja var opnað í desember. Leið 18 stoppar beint fyrir framan bókasafnið og tekur ferðalagið 20 mínútur frá Hlemmi.

„Það er frábært að merkja sig inn í menninguna með því að taka á móti þessari æðislegu hátíð sem Barnamenningarhátíð er. Þetta er algjör gleðisprengja inn í hverfið,“ segir Unnar Geir.

„Við erum að læra á húsið og hvernig er hægt að nýta rýmin fyrir sýningar og viðburði. Núna fáum við alla flóruna til okkar og getum prófað allt og séð hvernig húsið virkar. Við erum mjög spennt fyrir þessari hátíð.“

Unnar Geir Unnarsson og Agnes Ársælsdóttir eru spennt fyrir dagskránni í Úlfarsárdal. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Leikskólasýning til gleði

Það verður fleira á dagskrá í Úlfarsárdal en Ævintýrahöllin. Í anddyri sundlaugarinnar og bókasafnsins verður samsýning á verkum leikskólabarna í Úlfarsárdal og Grafarholti. Agnes Ársælsdóttir er sýningarstjóri.

„Þetta eru krakkar af leikskólunum Maríuborg, Reynisholti, Dalskóla og Geislabaugi. Þetta er túlkun barnanna í sínu nærumhverfi en sýningin heitir Ævintýri í hverju skrefi. Krakkarnir fóru í ferðir um hverfið sitt og tóku fyrir viðfangsefni sem þar var að finna. Sum verkin fjalla um krumma, önnur um strætó, eitt verk er um nýju sundlaugina, svo eru sumir krakkarnir líka að fjalla um heimili sitt. Það er af mjög mörgu að taka,“ segir Agnes.

„Þetta er aðallega myndlistarsýning, en krakkarnir hafa búið til skúlptúra og málverk. Það er líka lítið leikrit á sýningunni sem verður sýnt á skjá. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað leikskólarnir eru metnaðarfullir og með flott listrænt starf.“

Sýningin verður opnuð í dag klukkan 14.30 en krakkarnir syngja við opnunina og Jón Jónsson kemur og tekur lagið. Sýningin verður opin á meðan Barnamenningarhátíð stendur yfir.

Alla dagskránna má finna áwww.barnamenningarhatid.is