Hildur Rós Guðbjargardóttir er 30 ára þriggja barna móðir í 4. sæti á lista, sem er baráttusæti Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands í Gaflarabænum. Hún starfar á Hrafnistu í Hafnarfirði, auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna, þar sem hún situr í framkvæmdastjórn, er formaður fræðsluráðs og varaformaður Bersans, ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

„Við jafnaðarmenn erum í blússandi sókn í Hafnarfirði, það finnum við á þessum síðustu dögum kosningabaráttunnar,“ segir Hildur Rós. Hún segist vera afar bjartsýn á það að hún nái kjöri til bæjarstjórnar. Gangi það eftir verður hún yngsti bæjarfulltrúinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Vill hlúa að öllum bæjarbúum

Hildur hefur búið í Hafnarfirði í tæp átta ár og segir að þar sé gott að búa.

„Ég flutti í Hafnarfjörð stuttu eftir að ég eignaðist mitt annað barn, en þá keypti ég mína fyrstu eign en þekkti í raun ekkert til. Ég áttaði mig fljótt á því að Hafnarfjörður væri bærinn minn, en ég hef búið á mörgum stöðum og get sagt með góðri samvisku að hér sé best að búa og ég ætla mér að vera hér það sem eftir er,“ segir hún. „Það eru einhverjir ólýsanlegir kraftar í Hafnarfirði. Fólkið hér er einstakt og það tók mig ekki nokkra stund að eignast hér vini og kunningja. Félagsandinn er sterkur, samfélagið stendur saman og ég finn til öryggis fyrir börnin mín. Allt í kring eru útivistarperlur, stutt í flesta þjónustu og góð tækifæri fyrir börn til þess að stunda íþróttir og tómstundir.“

Sigrún Sverrisdóttir skipar annað sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Kolbrún Magnúsdóttir skipar sjötta sæti, Auður Brynjólfsdóttir skipar sjöunda sæti og Hildur Rós Guðbjargardóttir það fjórða. MYND/AÐSEND

Hildur hefur starfað innan Samfylkingarinnar síðan 2016.

„Ég byrjaði í pólitík þegar ég fann kjarkinn og trúna á því að ég hefði margt til málanna að leggja. Við tölum um ójöfn tækifæri fólks, en ég hef á minni stuttu ævi upplifað það á eigin skinni og veit að í samfélaginu eru stórir hópar sem eru í þeirri stöðu. Foreldrar í tekjulægstu hópunum, einstæðir foreldrar, fólk með fötlun, öryrkjar, aldraðir og börn eru fólkið sem við eigum öll að standa með,“ segir hún. „Mitt hjartans mál er að tryggja jöfn tækifæri og draga úr ójöfnuði þeirra hópa sem vegið er að. Enginn á að þurfa að sitja eftir og stuðningur við þá sem hann þurfa er að mínu mati grundvallaratriði þess að samfélag blómstri.“

Víða verk að vinna

„Það er okkar markmið að hafa jafnaðarmenn í forystu bæjarins næstu fjögur árin og fella sitjandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar,“ segir Hildur festulega. Hún bætir við að það sé víða verk að vinna í bænum.

„Til að mynda leikskólamálin en þar þarf að skerpa á og lagfæra ýmislegt gagnvart starfsfólkinu, börnunum og foreldrum þeirra. Auk þess hafa íbúðamálin verið í bakkgírnum síðustu fjögur ár, sem birtist í því að það varð íbúafækkun í bænum. Slíkt mun ekki gerast á okkar vakt. Við ætlum að láta verkin tala og hefja markvissa uppbyggingu fjölbreyttra íbúðaforma og stórfjölga óhagnaðardrifnum byggingaraðilum sem bjóða upp á ódýrari valkosti en hafa verið í boði hingað til,“ segir Hildur og er greinilega mikið niðri fyrir.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Hafnarfirði eru spenntir fyrir því að gera breytingar og ráðast í ný verkefni.

Hildur Rós segir verkefnin blasa við um allan bæ. „Stór verkefni bíða okkar til dæmis á íþróttasviðinu og við munum reisa knatthús á Haukasvæðinu og reiðhöll hestamanna,“ segir Hildur. Hún er sannfærð um gildi íþrótta- og tómstundastarfs og segir það vera í anda jafnaðarmanna að gæta að því.

Fólkið vill breytingar

„Hafnfirðingar þurfa framsýna bæjarstjórn og breytingu á starfsháttum og slíkt er öruggt með Samfylkinguna í stjórn. Umfram allt viljum við öll sjá Hafnarfjörð blómstra fyrir alla bæjarbúa,“ segir Hildur sem er baráttukona og vill sjá réttlæti í raun, þar sem ungt fólk og eldra fólk vinnur saman að því að allir eigi sömu möguleika í lífinu. „Ég er einfaldlega jafnaðarkona, þoli ekki svindl og spillingu eins og hefur birst okkur síðustu vikurnar í Íslandsbankaendaleysu ríkisstjórnarflokkanna.“

Hún bætir við að þetta séu sömu flokkar og hafa verið við stjórn í Hafnarfirði og skilur eftir þá spurningu fyrir kjósendur hvort það sé ekki kominn tími til þess að breyta til og hvíla kerfisflokkana.

Hildur Rós er bersýnilega kona með bein í nefinu og veit hvert hún stefnir í samstarfi við félaga sína í Samfylkingunni í Hafnarfirði. Þegar hún er spurð hvort hún sjái sig sem yngsta bæjarfulltrúann í Hafnarfirði eftir kosningarnar 14. maí næstkomandi situr ekki á svarinu, sem er stutt og laggott: „Já, ég er viss um það og ég veit að Hafnfirðingar verða í liði með okkur jafnaðarmönnum á laugardaginn. Fólk vill breytingar og ný vinnubrögð. Við erum með afar sterkan lista og stöndum við gefin loforð. Við erum tilbúin í verkin. XS, að sjálfsögðu,“ segir baráttukonan unga. ■