Ég dvel í New York tvo til fjóra mánuði á ári til að dansa og drekkja mér í menningunni þar sem hiphop-dansinn verður til. Sú tenging er rauði þráðurinn í skólanum okkar því bæði erum við beintengd því sem er að gerast í rót senunnar og til Íslands hafa komið þeir allra bestu; frumkvöðlar dansstílanna, og kennt í skólanum. Allt hefur það sett mark sitt á dansarana okkar sem búa alltaf að því að hafa endalaust rennerí af þessum street dans risum á Íslandi,“ segir dansarinn og danskennarinn Brynja Péturs sem byrjaði að kenna dans árið 2004.

„Ég byrjaði að kenna því mig dauðlangaði í hiphop-tíma hér heima en fann enga,“ segir Brynja sem sló fljótt í gegn hjá hiphop-þyrstum ungmennum íslensku þjóðarinnar.

„Námskeiðin voru vinsæl og árið 2012 stofnaði ég dansskólann Dans Brynju Péturs, bætti við fleiri staðsetningum, kennurum og aldurshópum. Með því fékk dansskólinn markvissari umgjörð og við bættust fastir viðburðir, eins og tvær nemendasýningar á ári og danskeppnin Street Dans Einvígið, sem er eina danskeppni sinnar tegundar á Íslandi og opin öllum street dönsurum á framhaldsstigi. Það fyllir nemendur tilhlökkun og gefur þeim markmið til að stefna að,“ segir Brynja.

Dansarar settir í forgrunn

Dansskóli Brynju Péturs hefur í gegnum árin verið áberandi í menningu landsmanna. Má þar nefna sjónvarpsþáttaröð Lóu Pind, Battlað í borginni, sem sýndi hvernig dansararnir undirbjuggu sig fyrir danskeppnina.

„Við erum í frábæru samstarfi við Reykjavíkurborg og tökum árvisst þátt í opnun Barnamenningarhátíðar í Eldborg,“ segir Brynja. „Á ári hverju setjum við einnig upp stóra sýningu á Menningarnótt ásamt fleiri skemmtilegum viðburðum. Okkar frábæru bakhjarlar, Adidas og Coca-Cola, gera okkur kleift að setja upp viðburði og gefa bæði danshópunum og duglegum nemendum veglegar fatagjafir. Dugnaðarverðlaun Adidas eru gefin þremur einstaklingum eftir hverja önn, þar sem þeir fá 25 þúsund króna inneign á adidas.is. Coca-Cola gerir okkur svo kleift að auglýsa og kemur okkur í miðla sem annars væru mér ekki innan handar. Báðir aðilar hafa staðið þétt við bakið á okkur í gegnum árin og ég er þakklát fyrir það.“

Dans Brynju Péturs hefur undanfarin ár sett upp stóra og glæsilega danssýningu á Menningarnótt. Hér má sjá dansfjölskylduna sem tók þátt í nýafstaðinni Menningarnótt.

Íslenskir street dansarar vekja athygli erlendis

Street dans er regnhlífarhugtak yfir street dansstílana sem margir eru með vinsælustu dansstílum síðustu ára.

„Street dans hefur heltekið poppkúltúr samtímans til fleiri ára,“ segir Brynja sem byggir skólann á áratuga reynslu, mikilli ástríðu og þekkingu á dansmenningunni, sem og metnaði fyrir því að kenna bæði uppbyggjandi danstíma og réttan dansgrunn.

Í dansskólanum eru kenndir street dansstílarnir hiphop, dancehall, waacking, house, top rock og popping. Líka er hægt að sækja tíma í heels performance og urban flow og choreo.

„Við leggjum mikla áherslu á við nemendur okkar að þeir kynni sér dansstílana, menninguna, orðaforðann og tæknina sem þarf að tileinka sér til að framkvæma dansinn rétt. Dansarar sem kafa ofan í fjölbreytta dansstíla græða mikið á því og það sést best á dönsurunum okkar sem vinna til verðlauna og vekja athygli hvert sem þeir fara,“ segir Brynja en sem dæmi rökuðu þau inn verðlaunum á alþjóðlegri danskeppni í Portúgal í sumar þar sem 6.000 dansarar frá 60 löndum tóku þátt.

„Þau komu heim með eitt gull, tvö silfur og tvö brons – allt fyrir dansa sem þau sömdu sjálf,“ upplýsir Brynja stolt.

Með heilan her af hæfileikafólki

Gæði dansnáms skiptir máli, segir Brynja.

„Við erum stolt af því að hafa byggt upp heilu kynslóðirnar af meðvituðum og klárum dönsurum. Sá grunnur gefur danssamfélaginu öllu næringu og með réttri þekkingu er hægt að byggja upp sterka danssenu,“ útskýrir Brynja.

„Í dag stend ég uppi með heilan her af ótrúlegum manneskjum og yfirburða hæfileikaríkum dönsurum sem sanna á hverjum degi hvað baráttan var mikilvæg. Þau elska umhverfið sem dansinn gefur og lyfta fjöllum í danskennslu, utanumhaldi og almennu peppi en brillera einnig sjálf í sinni list, semja og útfæra heilu atriðin og myndbönd af þvílíkri fágun og óumdeildri snilligáfu. Þau hafa líka fengið öll þau tæki og tól sem þarf til að nálgast dansinn af dýpt. Það er efniviðurinn sem gerir þetta allt raunverulegt og gefur okkur eitthvað til að byggja á,“ segir Brynja.

Aðalatriðið sé ekki að komast í sýningarhóp heldur að setja tíma í það sem einstaklingnum þykir skemmtilegt að gera.

„Það að þú finnir gleðina með sjálfum þér skiptir öllu máli. Þetta snýst ekki bara um dans heldur líka samvinnu, félagslegan þroska og eitthvert mesta lykilatriðið sem dansnám okkar snýst um er að styrkja sjálfsmynd hvers og eins sem kemur í tíma,“ segir Brynja.

TheSuperKidsClub XL er yngsti hópurinn úr stórfjölskyldu Dans Brynju Péturs sem sýnir dans á Menningarnótt.

Tækifæri fyrir dansáhugafólk

Markmið Brynju með dansskólanum er að skapa skemmtilegan veruleika fyrir dansara á Íslandi sem þeir geta þrifist í á öllum aldri, með viðburðum sem setja þeim markmið og einnig atvinnumöguleikum í kennslu og sýningum.

„Samheldni og samstaða er mikil. Á nemendasýningum ríkir mikill kærleikur, allir aldurshópar hanga saman og allir eru brosandi og sælir. Gleðin sem starfið veitir þeim sem sækja tíma og taka þátt í sýningum er algjör enda er okkar helsta markmið að búa til umhverfi þar sem nemendur okkar geta hist og gert skemmtilega hluti saman.“

Tækifærin eru líka mörg hjá Dans Brynju Péturs

„Sumir taka þátt í þeim öllum; aðrir að hluta til og öðrum þykir einfaldlega gott að vita af okkur og hafa gaman af því að fylgjast með. Það skiptir máli að við erum að viðhalda danslist á Íslandi, upphefja dansmenningu og búa til eitthvað áþreifanlegt og ógleymanlegt saman. Tilvera okkar væri fátæklegri ef við hefðum ekki þennan street dansheim sem við höfum skapað saman. Nú eru nemendur mínir komnir á allan aldur og ég farin að stara á fólk sem er mér vaxið yfir höfuð og komið yfir tvítugt en ég þrjóskast enn við að kalla þau krútt. Ég má það líka alveg og þau þurfa bara að lifa með því,“ segir Brynja og skellir upp úr.

„Öllum er velkomið að sækja ókeypis prufutíma í næstu viku, 9. til 14. september en haustönnin okkar spannar 12 vikur og við erum aðilar að öllum frístundastyrkjum,“ segir Brynja.

Kennt er hópum frá 5 ára og upp í 25 ára plús á ellefu stöðum:

  • Breiðholt – ÍR-heimilið og Miðberg
  • Laugardalur – Laugardalshöll og Reebok Fitness í Holtagörðum
  • Árbær – Fylkissel
  • Kópavogur – Listdansskóli Plié
  • Garðabær – Sjálandsskóli
  • Hafnarfjörður – Íþróttahúsið við Strandgötu og Reebok Fitness á Tjarnarvöllum
  • Grafarvogur – Íþróttahúsið Dalhúsum
  • Seltjarnarnes – Grótta

Stundaskrá og allar upplýsingar um dansnámið er að finna á brynjapeturs.is. Mælt er með skráningu því einhverjir hópar fyllast fljótt í prufuvikunni. Einnig fá 15 ára og eldri tilboð í Reebok Fitness: 3 mánaða kort kostar 9.900 fyrir þau sem skrá sig á haustönn.