Singles’ Day fór fyrst fram hér á landi árið 2014. „Mín hugmynd gekk út á að upphefja og gera netverslun hærra undir höfði hér á landi en ég varð vör við að Íslendingar væru margir smeykir við netverslun,“ segir Brynja.

Blómstrandi vettvangur

Fræið sem Brynja sáði fyrir sex árum hefur nú heldur betur vaxið og dafnað. „Þetta byrjaði á lítilli bloggsíðu þegar vinkona mín bloggaði um þetta. Þetta er í raun algjört „baby“-verkefni hjá mér sem hefur stækkað og stækkað og nú er ég komin með heila heimasíðu og „concept“ ásamt stórum og öflugum bakhjörlum,“ segir hún brosandi.

„Það eru ótalmörg fyrirtæki, um tvö hundruð, að taka þátt og sem dæmi má nefna Netgíró sem er minn helsti bakhjarl og við erum með aðgang að fullt af fyrirtækjum. Það er ótrúlega dýrmætt að hafa þetta bakland og það bætist alltaf í hópinn.“

Það eru þó ákveðnar áskoranir sem Brynja stendur frammi fyrir í ár. „Ég er komin með samkeppni sem er auðvitað alltaf af hinu góða en þarna liggur að baki þrotlaus vinna sem ég hef eytt í að byggja þetta verkefni upp. Vissulega á enginn þetta heimsþekkta „concept“ en af hverju ekki að nýta þann pall sem þegar er til staðar? Mér finnst óneitanlega eins og það sé verið að njóta góðs af allri vinnunni sem ég hef lagt á mig við að gera þetta að veruleika og það hefði klárlega verið sniðugt og flott að reyna að finna aðra leið í stað þess að kópera það sem hefur verið gert.“

Þetta bitni ekki síst á neytendum. „Markmiðið hjá mér var að búa til einn vettvang sem myndi halda utan um alla þá aðila sem koma að þessu og gera netverslun þannig einfaldari en ekki flóknari. Margir halda að þeir séu að skrá sig hjá mér þar sem að ég hef verið andlit þessa dags í nokkur ár en vegna þessarar þróunar er það ekki alveg nægilega skýrt.“

Brynja leitaði eftir samstarfi við samkeppnisaðilann en ljóst var að það myndi ekki ganga eftir. „Ég reyndi að koma til móts við viðkomandi en það gekk því miður ekki eftir, ávinningurinn var eingöngu hjá hinum aðilanum og þetta er dýrt batterí. Ég myndi auðvitað frekar kjósa samstarf, konur eru jú konum bestar, en þarna var það einfaldlega ekki í boði, sem er miður.“

Brynja Dan ráðleggur fólki að undirbúa sig áður en herlegheitin byrja á miðnætti í kvöld en það er til dæmis hægt að nýta innkaupalistann sem fylgir Fréttablaðinu í dag til að skipuleggja. MYND/ALDÍS PÁLS

Auðvelt og aðgengilegt

Brynja lætur þetta þó ekki á sig fá. „Þetta er alveg gríðarlega stór og mikill stökkpallur sem við höfum skapað á þessu flotta léni, 1111.is. Núna er hægt að leita að og velja vörur eftir flokkum sem gerir þetta enn þá aðgengilegra og auðveldara í notkun. Fólk getur þá nýtt tímann betur en tilboðin vara einungis í sólarhring svo það er um að gera að vera skipulagður.“

Þetta sé fullkomið tækifærið til þess að klára jólagjafakaupin. „Við viljum alveg hiklaust hvetja fólk til að klára jólin á netinu og á það sérstaklega við núna þegar við erum hvött til að halda okkur heima fyrir. Það hefur náttúrulega sjaldan verið jafn viðeigandi eins og núna að versla á netinu og fá sent heim.“

Þá eiga gestir heimasíðunnar möguleika á vinningum í formi endurgreiðslu og inneignar. „Netgíró ætlar að endurgreiða 50 færslur ásamt því að gefa 50 þúsund króna inneign sem vonandi auðvelda einhverjum jólin. Svo er sending.is komin inn í þetta með mér en þau eru með geggjuð tilboð á sendingarkostnaði. Þannig að við erum alltaf að bæta á okkur blómum og með þessu samstarfi getum við gert þetta enn þá öflugra og skemmtilegra.“

Gott að undirbúa sig

Brynja vonast til að fólk geti nýtt sér þennan viðburð til þess að taka upplýstari kaupákvarðanir. „Ég á Extraloppuna þar sem við leitumst eftir að draga úr óþarfa bruðli og sóun. Ég er á því að við sem neytendur eigum að leggja okkur fram við að velja vel og vandað og með þessu framtaki erum við að gefa fólki tækifæri til að gera góð og hagkvæm kaup.“

Brynja á von á að það verði mikill hasar. „Ég býst við því að þetta verði nett klikkun,“ segir hún og hlær. „Svo er síðan líka uppi fyrir Cyber Monday og Black Friday og við erum með yfir 200 fyrirtæki skráð þannig að þetta er orðinn heljarinnar vettvangur til að leita uppi góð tilboð.“

Hún lumar á ýmsum ráðum til að einfalda kaupin. „Ég mæli með að nýta listann sem fylgir í Fréttablaðinu og vera búinn að skrifa niður það sem maður er að leita að. Þá er hægt að fara í flokkana og finna þær vörur. Þetta er bara sólarhringur og getur orðið yfirþyrmandi svo að það er mjög sniðugt að undirbúa sig áður en þetta skellur á.“