„Í Alpana koma jafnt byrjendur í útivist og lengra komnir. Þegar byrjaði að gjósa í Geldingadal kom til okkar mikið af ungu fólki sem hafði aldrei keypt sér gönguskó áður og maður sá hvað það var spennt fyrir því að búa sig vel. Fljótlega kom það svo aftur og keypti sér jakka, til að vera sem best búið. Það er enda jafngóð tilfinning að vera vel útbúinn og það er vont að vera illa útbúinn í náttúrunni. Í nýliðaþjálfun björgunarsveitanna fer fólk bara einu sinni í blauta ferð og þaðan beint í að kaupa sér réttan útbúnað því hitt er hreinlega ekki skemmtilegt. Og það er magnað að til eru alvöru græjur sem gera útivist fólks ánægjulega, jafnvel þótt það standi úti í 10 stiga frosti eða grenjandi rigningu. Í rétta útbúnaðinum líður því frábærlega vel og það er valdeflandi tilfinning að vera vel búinn andspænis náttúruöflunum.“

Þetta segir Brynjar Hafþórsson, björgunarsveitarmaður og framkvæmdastjóri útivistarverslunarinnar Alpanna.

Útivistarfatnaður frá heimfrægum framleiðendum fæst í Ölpunum. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Brynjar tók við búðinni í mars 2020, um það leyti sem heimsfaraldur Covid-19 skall á. Verslunin hét áður Íslensku alparnir en með Brynjar í brúnni var skipt um nafn, lógó og áherslur.

„Við bjóðum lykilvörumerki í útivist og fjallamennsku af öllu tagi, með franska merkið Salomon og austurríska skíðarisann Atomic, í fararbroddi. Við seljum líka Mountain Equipment sem nýtur fádæma vinsælda hér á landi og hefur verið aðalfatnaður Íslenskra fjallaleiðsögumanna í áraraðir. Ekki síst standa Alparnir fyrir afbragðs þjónustu, þar sem viðskiptavinir geta fengið trausta ráðgjöf sem byggir á raunverulegri reynslu fagfólks í hverri útivistargrein fyrir sig.“

Brynjar Hafþórsson er framkvæmdastjóri Alpanna. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
Franska merkið Salomon framleiðir hágæða fatnað og skó sem henta jafnt í borgarlandslagi og grófri náttúrunni. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Úr borg á fjöll

Í kjölfar samkomubanns heimsfaraldursins varð sprenging í hreyfingu og útivist landsmanna.

„Þá var ákaflega gaman að fá í búðina fólk sem hafði litla þekkingu á útivistarbúnaði og hjálpa því að búa sig rétt og vera við öllu búið,“ segir Brynjar, sem síðan hefur selt þúsundir skópara til útivistar í Ölpunum.

„Langvinsælasti skórinn okkar er Speed Cross frá Salomon sem stendur fremst í þróun á öllu sem viðkemur gripi á sólum og notar efni í sérhannaða takka til að ná traustu og góðu gripi. Speed Cross er með einstaklega öflugt grip og veitir mikið öryggi og stöðugleika. Hann er hugsaður sem utanvegahlaupaskór en er engu að síður mikið notaður sem alhliða skór fyrir útivist, göngur, útileguna og hvað sem er. Ég nota mína í vinnuna og úti að leika við börnin; þetta eru þægilegir skór sem líta ekki út sem útivistarskór heldur eru bara mjög töff skótau sem er búið öllum þessum eftirsóknarverðu eiginleikum,“ greinir Brynjar frá.

Hann segir hugmyndafræði Salomon vera „úr borg á fjöll“.

„Með Salomon geturðu klæðst sömu flík og skóm í vinnunni og þarft ekki endilega að skipta þótt þér detti í hug að skjótast í útivist eða fjallgöngu eftir vinnu. Útivistarlínan er sportleg og samanstendur af flottum fatnaði með mikið notagildi.“

Skíðadeildin státar af fremstu skíðamerkjum heims. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
Heillandi skíðadeild er nýjasta viðbótin í Ölpunum. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Reynsluboltar á öllum sviðum

Nýverið bættist glæsilegt skíðasýningarrými við Alpana.

„Þangað réðum við til okkar skíðakennarann Snorra Pál Guðbjörnsson, fráfarandi formann alpagreinanefndar Skíðasambands Íslands. Með því veitum við allra bestu þjónustu í svig- og fjallaskíðum á Íslandi og geta viðskiptavinir komið til Snorra sem mælir fætur þeirra, spyr út í skíðamennsku hvers og eins, og finnur réttu skíðaskóna og skíðin. Við erum líka með græjur til að hita upp skóna og móta enn betur að fætinum, sé þess þörf, og getum undirbúið skíðin áður en þau fara í notkun. Það er dýrmætt að geta leitað til skíðakennara sem skilur skíðaíþróttina frá A til Ö, því það er vandasamt að velja réttan skíðaútbúnað. Það er mikill akkur í því að fá Snorra til liðs við okkur,“ segir Brynjar.

Alparnir búa yfir verkstæði þar sem skíði eru yfirfarin. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Í skíðadeild Alpanna fást sterkustu vörumerki heims fyrir skíðamennskuna: Atomic og Salomon.

„Bæði Atomic og Salomon þróa sínar vörur við bestu aðstæður heims í Alpafjöllunum. Atomic er á heimsmælikvarða og jafnan með langflest verðlaun á heimsbikarmótinu í skíðum. Það stendur mjög framarlega í þróun svig- og fjallaskíða og búnaðurinn er léttur. Skíðaskórnir eru rosalega vinsælir því þeir henta íslenskum fótum vel, eru breiðir og halda vel utan um fæturna, bæði mjúkir og góðir að vera í,“ upplýsir Brynjar.

Hann segir skíði sívinsæla jólagjöf, enda sé skíðamennska frábært fjölskyldusport.

„Skíði leynast oft í jólapökkum barna og unglinga, og í fyrra kom talsvert af hjónum sem gáfu hvort öðru fjallaskíði til að stunda saman. Þar er Snorri Páll svo sannarlega á heimavelli sem skíðaþjálfari barna og veit upp á hár hvað krakkar þurfa, svo það sé skemmtilegt fyrir þá að fara í skíðabrekkurnar með réttu græjurnar.“

Í Ölpunum fæst allt sem þarf í örugga og ánægjulega útivist af öllu tagi. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Alparnir líka í miðbænum

Í Ölpunum starfar valinn maður í hverju rúmi til að mæta þörfum viðskiptavina, hvort sem það er í skíðamennsku, utanvegahlaupum, útivist eða öðru.

„Fólk kemur í Alpana til að sinna áhugamáli sínu og kaupa sitthvað skemmtilegt fyrir sjálft sig og til gjafa. Því ríkir létt og skemmtileg stemning í búðinni og hefur sýnt sig að kunnugleg andlit koma aftur og aftur. Margir hafa fundið sína útivistarbúð í Ölpunum og við gerum vel við alla með góðu og sanngjörnu verði. Þegar vörurnar eru vandaðar og ráðgjöfin góð verður upplifun viðskiptavina jákvæð, þeir koma aftur og treysta okkur. Þannig verslun er Alparnir og þannig viljum við vera,“ segir Brynjar.

Hann stundar sjálfur fjallamennsku, utanvegahlaup og hjólreiðar.

„Það er eitt að setjast á hjól í líkamsræktarstöð eða hreyfa sig í náttúrunni með ferskt loft í lungum og endorfínið sem því fylgir. Því verður útivist gjarnan að fíkn hjá fólki sem vill geta meira og farið lengra. Alparnir eru styrktaraðili Salomon Hengill Ultra, stærsta utanvegahlaups ársins. Fyrstu árin hlupu örfáar hræður lengri vegalengdirnar, en í fyrra hlupu þrjátíu manns 160 kílómetra vegalengd og ég hef ekki tölu á hversu margir fóru 100 kílómetrana. Svona vindur þetta upp á sig og eins er með skíðamennskuna; fólk fer úr barnabrekku skíðasvæðanna yfir í þyrlu upp á Tröllaskaga þar sem engar skíðalyftur eru eða mannvirki, bara stórkostleg fjallasýn og ósnortinn snjór. Allt eru þetta heilbrigð áhugamál sem vaxa, og auðvitað einstakt á heimsvísu að búa í borg eins og Reykjavík með paradís útivistarfólks innan seilingar, hvort sem það eru skíði, hlaup, hjólreiðar, fjallgöngur eða annað. Það er svo margt hægt að gera og fólk fær mikla ánægju út úr því, ekki síst þegar það er rétt búið fyrir átökin,“ segir Brynjar.

Um miðjan október opnuðu Alparnir nýja verslun á Skólavörðustíg 10.

„Við vildum gera okkur sýnilegri og koma til fólksins í miðbænum. Viðtökurnar hafa verið meiriháttar, fólk er kátt með að fá útivistarverslun í miðbæinn og við erum spennt að taka virkan þátt í að efla miðborgina og bjóða þar frábært vöruúrval og gott verð.“ ■

Alparnir eru í Faxafeni 12 og á Skólavörðustíg 10. Sími 534 2727. Sjá meira á alparnir.is