Að halda heilsu eru lífsgæði og sá sem heldur á heilsu er þakklátur fyrir þá lífsgjöf. Aðrir eru ekki jafn gæfusamir og þurfa að horfast í augu við þann veruleika að heilsan brestur án nokkurs fyrirvara. Þá er dýrmætt að geta leitað til Reykjalundar, stærstu endurhæfingarmiðstöðvar landsins.“

Þetta segir Sveinn Guðmundsson, hæstaréttarlögmaður og formaður SÍBS, en SÍBS stofnaði Reykjalund árið 1945.

Hann segir ætíð mikilvægt að huga að ritun sögu.

„Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Með söguritun samtaka okkar er leitast við að skoða stiklur liðins tíma í máli og myndum. Horfa á samhengið á milli tímabila og tengslin út á við. Með því móti getum við mögulega miðlað þekkingu og fróðleik frá heimildum sem aflað hefur verið af natni og umhyggju.“

SÍBS var upphaflega stofnað sem Samtök íslenskra berklasjúklinga á Vífilsstöðum 24. október 1938.

„Lagt var stað með takmarkið að útrýma berklaveikinni, enda jafngilti berklasmit í flestum tilvikum dauðadómi,“ útskýrir Sveinn og heldur áfram:

„Það var ekki eldra fólkið sem var útsett fyrir berklum, þvert á móti lagðist veikin harðast á fólk sem var í blóma lífsins og átti ævistarfið fram undan. Fátt var til varnar. Berklar voru bráðsmitandi og gerðu engan greinarmun á kotkörlum og höfðingjum. Því var reynt að koma sjúklingum í sem mesta einangrun og koma í veg fyrir að þeir smituðu aðra.“

Berklarnir hopuðu

Innan SÍBS starfa nú ýmis sjúklingafélög og eru verkefnin af öðrum toga en í upphafi. Berklarnir hopuðu og urðu ekki sú mikla vá sem hefði getað leitt fjölmarga til ótímabærs dauða.

„Í dag horfum til framtíðar í þeim tilgangi að fræða almenning um forvarnir og koma í veg fyrir ótímabæran dauðdaga,“ upplýsir Sveinn. „Á tæpum áttatíu árum hefur orðið til gnótt upplýsinga um endurhæfingu á Reykjalundi, og sameinaður kraftur í því mikla starfi sem unnið hefur verið á vegum SÍBS og aðildarfélaga, Reykjalundar, og þeirri skjaldborg sem til staðar er í starfsemi Múlalundar. Sá mannauður og þekking varð ekki til á einni nóttu, það er þrotlaust starf sjálfboðaliða, starfsfólks og sjúklinga sem hefur skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag. Við höfum verið heppin að hafa fengið í okkar raðir virka þátttakendur sem hafa mótað umhverfi sitt og samfélagið okkar. Það ber að þakka.“

Fram undan eru stór verkefni í starfi SÍBS.

„Við verðum að tryggja og treysta allar undirstöður. Samstarf við opinbera aðila er mikilvægt og gagnkvæmur skilningur verður að ríkja svo hægt verði að halda áfram því góða starfi sem byggt hefur verið upp í áratugi,“ segir Sveinn.

Samúð og samkennd

Þegar horft er yfir farinn veg segir Sveinn ljóst að Reykjalundur geymi mikla sögu.

„Líf okkar mannanna er ofið úr sögum. Á hverju andartaki bætist nýr þráður við þær sögur og smám saman dragast þræðirnir í ákveðna mynd. Þegar við horfum á þá tvinnast saman, og þekkjum svip okkar sem þar er íofinn, koma í ljós myndir liðins tíma. Já, jafnvel ógrynni mynda, sem segja sögur af gleðilegum atvikum en líka sögur um sorg og sem rifja upp daprar stundir í lífi okkar. Flestar geyma sögurnar atvik úr litskrúðugu hversdagslífinu sem er vettvangur okkar. Það er líðandi stund í önnum hvunndagsins sem er hin mikla sögusmiðja og þar verða til sögur sem fela í sér markmið okkar, vonir og þrár. Sögur sem fleyta áfram metnaði okkar, samúð og samkennd með þeim sem minna mega sín.“

Þakklæti og árnaðaróskir

SÍBS hefur allt frá stofnun Reykjalundar beitt sér fyrir að tryggja sem bestan aðbúnað fyrir sjúklinga og starfsfólk, sem og að viðhalda öllum fasteignum á staðnum, með stuðningi happdrættis SÍBS.

„Á tímamótum sem þessum eigum við að horfa til framtíðar, nestuð af reynslu fortíðar og með það að leiðarljósi að læra af reynslunni. Það er mikilvægt að sýna þakklæti í mannlegum samskiptum og það felur í sér jákvæðan hug til þeirra sem þakklætið beinist að. Almennt þarf ekki mikið til. Nóg er að segja orðin „takk fyrir“. Það er að minnsta kosti ágæt byrjun.“

Í því samhengi nefnir Sveinn að þakklæti felist í innri upplifun og ytri tjáningu.

„Innra þakklæti lýtur að því sem við erum, eigum, höfum og verðum ekki fyrir, svo sem áföllum og því að mega halda heilsu. Þakklæti felst í því að kunna að bera kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra að meta það mikils.“

Hann vill fyrir hönd SÍBS nota tækifærið og þakka fyrir.

„Ég þakka öllum þeim einstaklingum sem hafa lagt fram sinn skerf í að móta sögu okkar frá liðnum tíma og gert allt það sem við höfum framkvæmt mögulegt. Stjórn SÍBS sendir auk þess öllum landsmönnum árnaðaróskir á þessum tímamótum, með þakklæti fyrir samfylgdina í 75 ár á Reykjalundi. Til sigurs, fyrir lífið sjálft!“