Hjónin Jón Örn Stefánsson og Hildur Sigrún Guðmundsdóttir eru eigendur Kjötkompanís. Fagmennskan hefur verið þeim hugleikin og engin nautasteik fer frá þeim nema hún hafi hangið í 25-30 daga. Hjá Kjötkompaníi starfa átta kjötiðnaðarmeistarar og þrír matreiðslumenn auk annarra. Jón Örn hafði lengi gengið með þá hugmynd að opna sælkerakjötverslun á Íslandi. Hann segist hafa verið óþolandi á ferðalögum erlendis þar sem hann þurfti að koma við í öllum matvöruverslunum sem á vegi hans urðu. „Kjötkompaní varð að veruleika stuttu eftir bankahrun og þótt margir hafi talið þetta brjálæði hefur reksturinn vaxið og blómstrað,“ segir hann. „Þetta hefur verið skemmtilegur stígandi hjá okkur.“

Við erum með nokkrar góðar kryddblöndur, þar á meðal er trufflusveppakryddlögur sem er vinsæll á nautasteik og við köllum nautalund deluxe.

Jón Örn reynir sífellt að koma með nýjungar fyrir sælkeragrillmeistara landsins. „Við erum með alls konar frábærar lausnir fyrir grilláhugafólk. Yfirleitt vill fólk kaupa kryddað kjöt en við erum með nokkrar mjög góðar kryddblöndur, þar á meðal er trufflusveppa-kryddlögur sem hefur verið mjög vinsæll á nautasteik og við köllum nautalund deluxe. Það nýjasta hjá okkur er nauta ribeyecap en það er steik sem ekki hefur mikið verið í boði hér á landi. Sú steik hefur slegið í gegn en við bjóðum hana ókryddaða eða í pipar og svörtum hvítlauk. Þetta er vöðvi sem er ákaflega góður á grillið. Það vantar ekkert upp á að fólk vilji prófa eitthvað nýtt,“ útskýrir hann. „Síðan erum við með T-bone steikur sem eru búnar að fara í gegnum 30 daga dry age meðferð og hafa komið mjög vel út. Við leggjum metnað okkar í að bjóða eingöngu gæðakjöt,“ segir Jón Örn.

Þótt nautasteikur séu alltaf eftirsóttar á grillið segir Jón Örn að lambið sé ekkert síður vinsælt hjá Íslendingum. „Við erum með mikið úrval af lambakjöti og það er látið hanga í tvær vikur hjá okkur fyrir sölu,“ segir hann. Eins og viðskiptavinir Kjötkompanísins vita er mikið úrval af alls kyns meðlæti en Jón Örn segir að lögð sé áhersla á að bjóða allt fyrir veisluna, hvort sem það er forréttur, aðalréttur eða eftirréttur. „Það er hægt að fá allt meðlæti hjá okkur, salöt eða grænmeti. Síðan erum við með margvíslegar kaldar sósur. Fagmenn okkar geta leiðbeint fólki um hvaða sósur eru bestar með hvers kyns kjöti,“ segir hann. „Þá má ekki gleyma hamborgurunum sem hafa verið vinsælir á grillið.“

Sælkerar landsins þurfa ekki að fara annað þegar halda skal góða veislu. „Hjá okkur er aðaláherslan á gæðavöru og fagmennsku,“ segir hann. Þegar Jón Örn er spurður hvort hann hyggist opna þriðju verslunina undir merkjum Kjötkompanís, svarar hann: „Það getur allt komið til greina í þeim efnum en ekkert ákveðið.“

Kjötkompaní er í Dalshrauni 13 í Hafnarfirði og Grandagarði 29, Reykjavík. Hægt er að skoða nánar á heimasíðunni kjotkompani.is.