Mér hefur gengið vel að sættast við orðinn hlut enda ekki undan því skorist að halda áfram. Maður má ekki gleyma að lifa lífinu, það er svo dýrmætt,“ segir Hákon Atli Bjarkason, sem sofnaði undir stýri á leið úr sumarbústað árið 2009 og velti bílnum, með þeim afleiðingum að þrír hryggjarliðir brotnuðu og hann lamaðist fyrir neðan mitti.

„Þetta var um sjöleytið á sunnudagskvöldi og ég átti stutta leið eftir heim þegar mikil syfja sótti að mér. Ég lagði því bílnum við Skálafellsafleggjara og lagði mig í korter, eins og talað var um að gera á þeim tíma, en fór svo aftur af stað hálfsofandi og út af veginum. Þetta var auðvitað mikið áfall en það er ekki annað í boði en að takast á við það. Annars eyðileggur maður bara meira fyrir sjálfum sér.“

Gott að læra af reynslunni

Hákon Atli er rekstrarstjóri Pizzunnar, íþróttamaður og kennari í hjólastólafærni.

„Þegar ég slasaðist var mér kennd hjólastólafærni af fullfrískum sjúkraþjálfurum á Grensási, en það er allt annað að læra þessa færni af kennara sem hefur reynt allar hindranirnar á eigin skinni. Þá er líka auðveldara að útskýra og sýna nemendum hvernig farið er að, og sá sem þarf að reyna sig við færnina trúir því betur að það sé hægt,“ segir Hákon Atli, sem hélt sitt fyrsta námskeið í hjólastólafærni við Háskóla Íslands á dögunum, en hefur áður haldið námskeið hér heima og í útlöndum.

„Þeir sem sækja námskeið í hjólastólafærni eru nýlega slasað fólk með mænuskaða og þeir sem nota hjólastól en vilja læra að verða meira sjálfbjarga í sínu lífi. Það sem reynist erfiðast eru kantar á gangstéttum og tröppur, ekki síst þar sem ekkert handrið er til að halda í. Þetta lærist samt allt saman og maður getur orðið 100 prósent sjálfbjarga á flestum stöðum. Það er alltaf hægt að læra grunninn, fara auðveldlega upp og niður kanta og takast á við langflestar hindranir. Þá er ekkert mál að fara niður brattar brekkur í hjólastól við venjulegar aðstæður en erfiðara í rigningu og hálku, en þá reynir meira á þol en tækni.“

Fékk borðtennisbakteríuna

Hákon Atli smitaðist af borðtennisbakteríunni þegar hann var í endurhæfingu á Grensási.

„Þar er borðtennisborð og ég byrjaði að spila með fjölskyldunni til að leika mér. Svo kynntist ég Jóhanni Rúnari Kristjánssyni, margföldum Íslandsmeistara og Ólympíufara í borðtennis fatlaðra, og hann dró mig á æfingar. Þaðan í frá byrjaði ég að æfa á fullu og á meðan ég var enn á Grensási fór ég á borðtennisæfingar hjá ÍFR (Íþróttafélagi fatlaðra),“ upplýsir Hákon Atli, sem hefur síðan keppt innanlands og á alþjóðlegum vettvangi þar sem hann hefur unnið til fjölda verðlauna og hann hefur nú unnið Íslandsmótið tvö ár í röð.

„Já, það er mjög mikið að gera, enda er um að gera að nýta dagana sína vel. Ég starfa sem rekstrarstjóri hjá Pizzunni og rek sjö staði. Þá er ég kominn í stjórn Borðtennissambands Íslands, fyrir fatlaða og ófatlaða, og æfi aðallega með ófötluðum. Ég held í við flesta nema þá allra bestu, en í dag æfi ég aðallega með ófötluðum, þar sem ég er kominn á það stig að ég græði mun meira á því. Hér heima keppi ég á flestum mótum sem eru haldin hjá ófötluðum, síðustu tvö ár hef ég keppt með liði ÍFR í 2. deild Borðtennissambands Íslands en í vetur mun ég svo keppa með liði HK í 2. deildinni, sem er alveg ótengt fötluðum,“ segir Hákon Atli, um líf sitt og yndi eftir vinnu.

„Ég er mikill íþróttaáhugamaður og elska fótbolta og körfubolta. Ég stofnaði lið í hjólastólakörfu árið 2013 og spilaði með því þar til í ár að ég þurfti að hætta vegna meiðsla. Ég fer svo á alla heimaleiki FH í fótbolta enda gallharður FH-ingur og held með Þór í Þorlákshöfn í körfunni, því ég er fæddur og uppalinn í Þorlákshöfn.“

Í góðu formi gengur betur

Hákon Atli kveðst hafa verið óvenjufljótur að aðlagast því að vera orðinn lamaður.

„Það gjörbreytir auðvitað lífi manns að fara í hjólastól. Ég var strax staðráðinn í að ganga á ný, en í endurhæfingunni aðlagaðist ég ástandinu fljótt og sá að það var ekki jafnmikið mál og ég hélt,“ segir Hákon, sem notar hefðbundinn, handstýrðan hjólastól enda hefur hann mátt í höndum og skrokknum ofan mittis.

„Ég nota hjólastól til daglegs lífs og er með annan keppnisstól frá Wolturnus, sem sérhanna stóla eftir þörfum hvers og eins og hentar mér betur í borðtennisinn. Þann hjólastól fékk ég hjá Stoð. Stólarnir veita mér allt það frelsi sem ég þarfnast til að lifa lífinu. Það er lykilatriði að hjólastóllinn sé léttur og meðfærilegur svo auðvelt sé að taka hann inn og út úr bíl og auðvelt sé að fara upp og niður kanta og stiga,“ segir Hákon Atli, sem er einkar ánægður með þjónustu Stoðar við hjólastólinn sinn.

„Samskiptin eru alltaf jafn gefandi og góð og þar er alltaf tekið vel á móti manni, með alúð og fagmennsku.“

Að vera lamaður hefur engin áhrif á úthald og kraft Hákonar Atla, sem er öflugur og athafnasamur í meira lagi.

„Ég held mér í líkamlega góðu standi til að geta tekist á við lömunina. Ég finn svo vel að þegar ég er í góðri æfingu er heilsan betri og orkan meiri og þá gengur allt betur.“