Pink Iceland var stofnað árið 2011 af þeim Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange og eiginkonu hennar Birnu Hrönn Björnsdóttur. Stuttu seinna bættist Hannes Pálsson, vinur þeirra, í hópinn og reka þau þrjú fyrirtækið saman.

„Upphafið að stofnun fyrirtækisins var að mig hafði lengi langað að gera eitthvað fyrir hinsegin ferðamenn á Íslandi. Þegar ég var í námi í ferðamálafræði í HÍ áttum við að gera viðskiptaáætlun fyrir ímyndað fyrirtæki. Þá bjó ég til Pink Iceland á pappír og fékk svo jákvæð viðbrögð að ég ákvað að stofna fyrirtækið,“ útskýrir Eva María.

Það varð fljótt nóg að gera í fyrirtækinu en í dag eru brúðkaup stærsti hlutinn af starfseminni.

„Ég áttaði mig ekki á umfanginu í upphafi. Ég hélt að við yrðum kannski með tvö til þrjú brúðkaup á ári. En í ár erum við með 170 brúðkaup, þau eru næstum annan hvern dag,“ segir Eva María og hlær.

„En árið í ár er algjör sprengja, það hefur verið svo mikið um frestanir síðustu tvö ár. En venjulega skipuleggjum við 120-150 brúðkaup á ári.“

Eva María segir að Pink Iceland þjóni aðallega erlendum gestum. Þau taka á móti gestunum þegar þeir lenda og eru með þeim þar til þeir fara aftur heim.

„Við erum ferðaskrifstofa í grunninn þannig að við sjáum um allt sem viðkemur upplifun gestanna á Íslandi, hvort sem það er að skipuleggja förðun fyrir brúðkaupsdaginn, finna blóm eða hótelgistingu, allt fer í gegnum okkur. Þessi þjónusta þekkist vel erlendis en hefur verið lítið nýtt hér heima. Hér á Íslandi þekkjum við öll hvert annað og erum mikið í því að redda bara hlutunum sjálf þegar við skipuleggjum brúðkaup.“

Brúðkaup skapa störf

Hjá fyrirtækinu starfa níu brúðkaupsskipuleggjendur, en auk þess starfar þar starfsfólk í ferðaskipulagningu, leiðsögumenn og fleiri því tengd.

„Eitt brúðkaup getur skapað tekjur fyrir mjög margt fólk. Til dæmis vorum við með lítið brúðkaup um daginn. Gestirnir voru ekki nema átta en það voru tólf manns að vinna í brúðkaupinu. Brúðkaup eru þjónustufrekt fyrirbæri og þar af leiðandi verður mikill peningur eftir í landinu þegar fólk heldur brúðkaup hér,“ segir Eva María.

Pink Iceland einblínir aðallega á að þjónusta hinsegin fólk og Eva María segir að þau séu mjög opinská með það.

„Við vinnum eftir ákveðnum grunngildum sem hægt er að sjá ef fólk skoðar heimasíðuna okkar. Við viljum enga fordóma, við stöndum vörð um mannréttindi og við viljum vernda náttúruna, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Eva María. Hún bætir við að þrátt fyrir að aðalmarkhópur Pink Iceland sé hinsegin fólk sé meirihluti brúðkaupanna sem þau skipuleggja fyrir gagnkynhneigð pör.

„Það er svolítið krúttlegt að þau biðja næstum um leyfi til að vinna með okkur. Þau segja í afsökunartón: Við erum sko ekki hinsegin. En ástæða þess að þau velja okkur eru að þau eru sammála okkar gildum og lifa lífi sínu samkvæmt þeim.“

Sérstök tenging

Þeir viðskiptavinir sem kaupa ferðir hjá Pink Iceland eru aftur á móti flestir hinsegin. Eva María segir það alltaf gefa gott í hjartað að geta hjálpað fólki sem hefur kannski aldrei fengið að ferðast frjálst.

„Ferðirnar okkar eru allar einkaferðir. Við bjóðum upp á alls kyns ferðir, bæði klassískar ferðir eins og gullna hringinn og aðrar óvenjulegri ferðir. En það sem er aðallega frábrugðið hjá okkur er þessi tilfinning sem viðskiptavinir okkar fá fyrir að tilheyra einhvers staðar. Við erum með hinsegin leiðsögufólk í ferðunum og það líða oft ekki meira en 5-6 mínútur frá því gesturinn kemur til okkar og þar til við erum búin að deila sögu, kannski um hvernig við komum út úr skápnum. Þá myndast sérstök tenging. Við reynum að hampa hinsegin menningu í ferðunum og leggja áherslu á allt sem er hinsegin hvort sem það er tónlist eða eitthvað annað. En það er aðallega þetta óáþreifanlega, sem þú getur ekki sett í verð, sem gefur okkur sérstöðu,“ útskýrir Eva María.

„Þegar við ráðum starfsfólk í vinnu þá leggjum við mikla áherslu á að það hafi næmni fyrir að taka á móti fólki opnum örmum. Tilfinninganæmni er kannski það mikilvægasta sem þú hefur sem starfsmaður hjá Pink Iceland. Við erum oft að fást við viðkvæmar aðstæður. Til dæmis nýlega vorum við með brúðkaup fyrir samkynhneigt par þar sem önnur fjölskyldan er búin að afneita viðkomandi. Þannig að það bætast oft við miklar og djúpar tilfinningar við vinnudaginn. Þú þarf að hafa bein í nefinu til að geta tekið þetta að þér, en líka næmni til að gera hlutina rétt og láta öllum líða vel.“

Þetta viðtal birtist í sérblaði Samtaka atvinnulífsins sem fylgdi Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. september 2022.