Gró Einarsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, segir að þessum nýju reglum fylgi sú krafa að rukka þarf fyrir einnota matar- og drykkjarílát úr plasti. Hún segir reglurnar kjörið tækifæri til að endurhugsa ílátin sem við veljum.

„Í stuttu máli eru nýju reglurnar þær að frá 3. júlí síðastliðnum mega sölustaðir ekki lengur gefa einnota matarílát og glös úr plasti. Þeir þurfa að taka gjald fyrir það. Þetta gildir ekki um allt plast heldur fyrst og fremst fyrir útrétti (e. take-away) og mat sem borðaður er á ferðinni. Þetta er svipað og endurgjaldskrafan á pokum, en núna gildir hún líka fyrir plastílát og plastglös,“ útskýrir Gró.

„Lögin taka á plastvörum sem líklegt er að endi úti í náttúrunni. Umbúðir af skyndibita og öðrum mat sem borðaður er á ferðinni eru líklegastar til að verða að rusli í náttúrunni. Plastið er þar til mestra vandræða af því það brotnar ekki niður og endar þá í lífríkinu á landi eða sjó. Þaðan kemur það svo aftur til mannfólksins og getur valdið alls kyns hormónaraskandi áhrifum.“

Gró segir að krafan um gjald fyrir einnota plastumbúðir sé víðtækara en margir gera sér grein fyrir. Nokkur dæmi um þær einnota umbúðir sem eru gjaldskyldar eru:

  • PLA-plastlok fyrir pappamál, til dæmis eins og fyrir kaffi.
  • Lok úr plasti af sósum eins og kokteilsósu.
  • Bréfpokar með plastglugga, eins og fást oft í bakaríum.
  • Plasthúðuð pappamál, eins og fást oft í ísbúðum.
  • Plasthúðaðir bréfpokar sem oft eru notaðir undir franskar kartöflur.

Gjald fyrir plastumbúðir þarf að koma fram á kvittun. „Ef þú ert að sækja mat fyrir fjölskylduna þá getur þetta orðið ansi mikið af umbúðum, hamborgarinn er kannski í plasthúðuðum pappír, franskarnar í plasthúðuðum pappírspoka og gosið í máli með plastloki og kokteilsósan í plastboxi. Þetta eru fjórar mismunandi einnota umbúðir. Ef þetta er fjögurra manna fjölskylda þá eru þetta 16 umbúðir sem þarf að rukka fyrir,“ útskýrir Gró.

Framboðið endurskoðað

Gró segir að hægt sé að líta á þessar nýju reglur sem tækifæri fyrir sölustaði til að endurskoða framboð sitt.

„Margir neytendur vilja ekki borga þetta gjald og sölustöðum er mjög í mun að vera með ánægða kúnna. Þá eru nokkrar lausnir í boði. Söluaðilar geta nýtt tækifæri sem fylgir breyttri löggjöf og endurhugsað umbúðirnar sínar,“ segir hún.

„Það er hægt að fara yfir framboðið og hugsa: Hvar er ég að nota einnota plastlok, matarílát og glös, og hvar er það óþarfi? Í sumum tilfellum er hægt að setja kokteilsósu við hliðina á frönskunum, eða sleppa plastlokinu á ílátum. Stundum er hægt að skipta yfir í margnota ílát. Það er hægt að leyfa viðskiptavinum að koma með eigin ílát og sleppa þannig við gjaldið. Ef engin af þessum aðferðum virkar er svo hægt að skipta plastinu yfir í pappír.“

Gró segir að hægt sé að skipta þessum lausnum niður í græna, gula og rauða lausn. Græna er best fyrir umhverfið, gula næstbest en rauða er sú versta. Grænu lausnirnar eru hringrásarlausnir.

„Hérlendis eru Háskóli Íslands og Landspítalinn dæmi um fyrirmyndir, en þau fóru í gegnum sín mötuneyti fyrir nokkrum árum og bjóða bara upp á fjölnota plastmál og matarílát fyrir útrétti. Úti í heimi eru fyrirtæki sem gera þetta á stærri skala, til dæmis Cub Club, sem er þjónustuaðili fyrir skyndibita- og matsölustaði sem bjóða upp á deiliþjónustu fyrir fjölnota mál. Þú leigir málin með appi og skilar þeim svo á skilastöðvar með appinu í stað þess að henda þeim í ruslið. Þessi lausn er ekki komin til Íslands enn þá en þetta væri alveg möguleiki. Það gæti til dæmis einn aðili þjónustað öll kaffihús á Laugavegi og annar í Kringlunni eða Smáralind. Það er kannski framtíðin. Gula lausnin er að hafa einnota vörur minna aðgengilegar, svo þú takir ekki einnota plastlok og ílát að óþörfu.“

Gró segir að rauða lausnin sé lögleg lausn, en ekki endilega sú besta fyrir um hverfið. „Vandamálið við að fara úr plasti yfir í pappír er að það er stærra kolefnisspor á pappírsumbúðum og pappírinn getur komið úr ósjálfbærri skógrækt, en kosturinn er að þær valda ekki skaða á lífríkinu. Það er ekki sjálfbært að fara úr einu einnota yfir í annað einnota,“ segir Gró.Hægt er að lesa meira á samangegnsoun.is/einnota-plastvorur