Systrasamlagið var stofnað í júní 2013 í litlum kofa á Seltjarnarnesi en hugmyndin varð til í búddísku klaustri í Skotlandi snemma sama árs.

„Við tókum þá stefnu strax í upphafi að bjóða ekki eingöngu upp á holla og góða fæðu, lífrænt kaffi og lífræna mjólk, vönduðustu bætiefnin og aðrar þekktar heilsuvörur, heldur teljumst við brautryðjendur í sölu á fallegum lífrænum jógafatnaði, jógavörum, eiturefnalausum snyrtivörum, við komum flothettunni á framfæri sem nú flýgur hátt og svona mætti áfram telja,“ segir Guðrún.

Systurnar fluttu sig um set fyrir tveimur árum, en þær hafa komið sér vel fyrir á Óðinsgötu 1 þar sem einn besta leynigarð í 101 er að finna. „Á Óðinsgötu höfum við frábært sköpunarrými, þar getur fólk setið og haft það gott og við getum haldið námskeið um allt milli himins og jarðar, svo framarlega sem andinn er í efninu. Við erum til dæmis með vikulega hugleiðslu fyrir alla, regluleg sveita-samflot, það næsta á sumarsólstöðum 21. júní, tarotnámskeið, bætiefnanámskeið og alls konar skemmtilegheit.“

Sterk hugsjón

Systurnar eru með mjög sterka hugsjón sem heldur áfram að skerpast. „Við vitum að andinn þarf að vera í efninu. Við höfum báðar alltaf verið skotnar í gæðum og heiðarleika, og við teljum lífrænt vera langbesta grunninn,“ segir Guðrún. Þær eru ávallt með hugann við velferð dýra og náttúruna almennt, eins og sannir jógar. „Í upphafi 2013 völdum við að vera með plöntuumbúðir og notum hreinsiefni sem valda sem minnstum skaða fyrir lífríkið. Við höfum lengi vitað að það sama gildir um mann og náttúru, það er að segja ef hafið er súrt er maðurinn líka súr.“

Heilnæmar vörur

Mikil áhersla er lögð á hreinar gæða vörur. „Þegar við völdum ilmvötn inn í búðina okkar þurftu þau ekki að vera frönsk og elegant heldur frekar lífræn með blómadropum. Naglalökkin eru vegan og laus við skaðleg efni, við tókum inn magnaðar vatnsflöskur með kristöllum sem hafa sín góðu áhrif á vatnið, jógavörurnar eru allar af bestu gæðum, bolir og skart með fallegum skilaboðum, jógasamfestingurinn okkar eru orðinn einstaklega vinsæll, að ógleymdu Virdian vítamín- og bætiefnalínunni sem er framúrskarandi vönduð og nær öll vegan en líka fyrsta pálmaolíufría línan í veröldinni,“ segir Jóhanna.

Kaffið hjá Systrasamlaginu er lífrænt og þær leggja mikið upp úr því að allir drykkir sem þær hafa hannað og mótað sjálfar séu innihaldsríkir og hollir. „Við horfum mikið til lækningajurta og þegar við erum að móta drykk verður hann að vera hollur, bragðgóður og gefandi.“ Systurnar horfa mikið til Ayurveda, sem eru indversk lífvísindi jóganna, en þær eru báðar jógakennarar og telja að næsta heilsubylgja verði byggð á þeim grunni.

Sameiginlegur áhugi

Jóhanna hefur verið viðloðandi heilsubransann í mörg ár en hún starfaði hjá Heilsuhúsinu í 25 ár. Guðrún er stjórnmálafræðingur og starfaði lengi sem blaðamaður og ritstjóri. Það má segja að hún hafi læðst bakdyramegin inn í heilsubransann, enda búin að fylgjast með þessari heilsuþróun úr hæfilegri fjarlægð í mörg ár, yfir öxlina á systur sinni.

„Það sem við áttum sameiginlegt í upphafi var hjartans áhugi á heilsu, jóga og hugleiðslu. Við vissum báðar að það væri heldur betur eitthvað sem við vildum leggja inn í fantasíuverslunina sem við töluðum alltaf um að opna. Eiga ekki margir fantasíuhugmynd um að opna búð eða kaffihús?“ spyr Jóhanna.

Systurnar eru sammála um að Systrasamlagið hafi farið fram úr þeirra villtustu draumum.

Þann 15. júní verður Systrasamlagið sex ára og af því tilefni verða ýmsir skemmtilegir afslættir og uppákomur út júní.