„Hönnunarsafn Íslands safnar allri tegund af hönnun og leggjum við höfuðáherslu á að safna íslenskri hönnun og hlutum sem tengjast íslenskri hönnunarsögu. Safnið var stofnað árið 1998 en við höfum verið staðsett hér á Garðatorgi síðustu tíu ár,“ segir Þóra Sigurbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Hönnunarsafni Íslands.

„Við erum með reglulegar sýningar, um tvær á ári, en þær standa í mislangan tíma. Núna stendur yfir stór yfirlitssýning á verkum Kristínar Þorkelsdóttur, grafísks hönnuðar, sem á einmitt afmæli í dag. Sú sýning var opnuð í maí og stendur fram að áramótum,“ segir Þóra. „Við erum líka með lítið sýningarrými inn af versluninni okkar þar sem við setjum upp styttri sýningar og þar erum við nú með sýningu á vegum Félags íslenskra teiknara sem heitir Fallegustu bækur í heimi 2020 og 2021.“

Sýning um sundmenningu eftir áramót

„Næsta stóra sýning í aðal sýningarsalnum okkar fjallar um sundmenningu Íslendinga. Hún opnar í lok janúar og mun standa fram á haust,“ segir Þóra. „Þetta er mjög spennandi sýning sem við erum að vinna í samstarfi við þjóðfræðideildina í Háskóla Íslands, en sýningin byggir á rannsókn sem Valdimar Tr. Hafstein prófessor hefur staðið fyrir í mörg ár.

Stólajóladagatalið er komið í gang og það er bæði hægt að skoða stólana í versluninni og á Facebook-síðu safnsins.

Safnið bætir hönnunarsjónarhorninu við. Fjallað er um ákveðnar sundlaugar og ýmsa hönnun sem tengist sundinu. Við segjum frá til dæmis Sundhöll Reykjavíkur sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni og þræðum okkur í gegnum söguna alveg að Bláa Lóninu. Það er fjallað um alla söguna,“ útskýrir Þóra. „Það verður spennandi að setja þessa sýningu upp eftir áramótin.“

Stólajóladagatal í desember

„Núna erum við að undirbúa jóladagatalið sem við höfum haft árlega síðan 2014. Við Inga Óðinsdóttir, sem stýrir versluninni, veljum ákveðið þema fyrir hvert ár,“ segir Þóra. „Eitt árið voru það til dæmis bara gripir eftir konur og annað ár vorum við bara með hluti frá Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt. Þá vorum við nýbúin að fá stóra gjöf frá honum og höfðum verið að vinna í gegnum hana, svo það hentaði vel að nota hans hluti. Við reynum bara að hafa þetta fjölbreytt frá ári til árs.

Í ár verður stólaþema, en mjög stór hluti af safneigninni eru stólar og það er mjög gaman að sýna þá. Frá 1. desember og fram að jólum verður einn stóll á dag settur út í glugga í búðinni, en það verður líka hægt að fylgjast með dagatalinu á Facebook-síðunni okkar,“ segir Þóra. „Fyrsti stóllinn í dagatalinu er eftir hann Hjalta Geir Kristjánsson (1926-2020), húsgagnahönnuð og framleiðanda. Við reynum að hafa fjölbreytni í stólunum sem valdir eru. Einhverjir taka eflaust eftir því að það eru ekki margir stólar eftir konur, en þannig er það nú bara, þar sem mun fleiri karlkyns húsgagnahönnuðir hafa starfað á Íslandi í gegnum tíðina og safneign safnsins endurspeglar það.

Sunna Örlygsdóttir segir að það sé yndislegt að vinna á safninu og það vakni oft nýjar hugmyndir út frá spjalli við gesti.

Við skiptum út stólunum á hverjum degi þegar safnið opnar kl. 12 og stillum upp stuttum texta með sem við erum ekkert að taka of hátíðlega, textarnir við stólana eiga bara að vera skemmtilegir,“ útskýrir Þóra. „Það er alltaf gaman að sýna þessa stóla, húsgögnin okkar eru mjög vinsælt sýningarefni og það hefur nú verið smá hlé á sýningum á þeim.“

Rannsóknarými sem býður gesti velkomna

„Fyrir innan aðalsýningarsalinn okkar er rými sem við köllum Safnið á röngunni og er rannsóknarými. Þar fara fram ýmsar rannsóknir. Stundum fá utanaðkomandi aðstöðu hjá okkur og nýta þá plássið fyrir sínar rannsóknir, eða þá að við tökum fyrir stóra hluta af safneigninni til að fá betri yfirsýn yfir hana,“ segir Þóra. „Það er afar gott að hafa aðgang að svona stóru rými til að geta dreift úr hlutum, þannig áttar maður sig oft frekar á tengingum sem erfitt er að sjá þegar lítið pláss er til að skoða stórar safnheildir. Það þarf nefnilega rými til að rannsaka á söfnum, sérstaklega þegar um stærri gripi er að ræða.

Safneign Hönnunarsafnsins telur ríflega 4.000 gripi og í henni er að finna nokkrar stórar gjafir sem þarf tíma og rými til að fara í gegnum og skrá. Í desember og fram í febrúar er Safnið á röngunni helgað arkitektúr. Það stendur yfir skráning á verkum Högnu Sigurðardóttur arkitekts, sem bárust safninu árið 2019 og var gjöf frá fjölskyldu hennar,“ segir Þóra. „Gestir eru mjög velkomnir þarna inn og við viljum gjarnan að þeir skoði og segi okkur frá ef þeir hafa upplýsingar um það sem við erum að skoða, því við græðum á þannig upplýsingum.

Allir gestir sem koma á safnið, hvort sem þeir ætla á sýningar eða bara skoða í safnbúðinni, fá líka góða kynningu á þeim vörum sem eru þar til sölu, það má segja að þar sé enn eitt sýningarrými safnsins og Inga gefur öllum sem vilja leiðsögn um hana,“ segir Þóra.

Fjölskylduskemmtun og fræðsla á sunnudag

„Það hefur verið líf og fjör á safninu undanfarna mánuði þar sem við höfum tekið á móti skólahópum í leiðsögn og smiðjur í kjölfarið. Það hefur verið í samstarfi við Prent og vini og verið mjög gefandi verkefni þar sem krakkarnir hafa fengið að prófa einfalt prent,“ útskýrir Þóra. „Við höfum haft möguleika á að vera með smiðjur fyrir alla skólahópa því að við erum með mjög gott rými sem er kallað Smiðjan. Hún er ætluð fyrir allar tegundir af fræðslu.“

„Á sunnudaginn, 5. desember, verðum við með ókeypis fjölskyldusmiðju í tengslum við verkefnið Við langeldinn/Við eldhúsborðið, sem er skemmtilegt verkefni sem við fengum styrk fyrir hjá Barnamenningarsjóði. Þessi smiðja tengist Minjagarðinum að Hofsstöðum, sem er annar stærsti landnámsskáli á Íslandi, en við erum að vinna að stóru verkefni með Gagarín til að gera skálann og það sem er hægt að læra af honum aðgengilegra,“ segir Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar.

Það verður líf og fjör í fjölskyldusmiðjunni á sunnudaginn.

„Í tengslum við þetta ætla Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og Ásgerður Heimisdóttir, hönnuður og handverkskona, að vera með tvenns konar fræðslu í Smiðjunni. Dagrún ætlar að fræða fólk um jólahald og jólagjafir og hvernig þetta hefur breyst frá tímum landnámsmanna, hvenær það fór að tíðkast að gefa gjafir og hvenær byrjað var að pakka inn og svona, en hefðir og siðir í kringum jólin hafa tekið miklum breytingum,“ segir Ólöf. „Svo tekur Ásgerður við og hjálpar fólki að gera eigin jólapappír með kartöflustimplum og þá getur fólk gert allan jólapappírinn sinn á einu bretti. Þetta byrjar klukkan 13 og að sjálfsögðu fylgjum við grímuskyldu og öllum öðrum sóttvarnareglum.

Eitt af því sem er skemmtilegt við þessa smiðju er að hún kallast á við sýninguna hennar Kristínar, því hún notaði kartöflustimpla einmitt mikið í verkum sínum, til dæmis fyrir framhliðina á ljóðabókum,“ segir Ólöf. „Það er gaman að geta notað eitthvað sem er til á heimilinu og er líka notað af hönnuðum.

Svona smiðjur tengdar Minjagarðinum að Hofsstöðum fara fram einu sinni í mánuði í Hönnunarsafninu og við vonumst til þess að fjölskyldurnar og krakkarnir sem koma velti fyrir sér hvað er líkt og hvað er ólíkt með lífinu þá og nú. Þetta kemur mikið inn á handverk, hönnun og ýmislegt fleira,“ segir Ólöf. „Einu sinni í mánuði förum við líka á Bókasafn Garðabæjar og tengjum menningarstarfið þar við þennan landnámsskála og það heldur áfram næsta ár.“

Vinnurými fyrir hönnuði í versluninni

„Í safnbúðinni okkar er svo líka vinnurými fyrir hönnuði og um þessar mundir er hönnuðurinn Sunna Örlygsdóttir þar. Hver hönnuður fær rýmið í 3-4 mánuði og vinnur þar að verkum sínum fyrir opnum tjöldum, svo það er hægt að koma og sjá verk þeirra, kynnast þeim og fá upplýsingar,“ segir Þóra. „Sunna er að gera rosalega flotta hluti og við fáum skemmtilega innspýtingu af því að kynnast vinnu þeirra hönnuða sem koma og um leið fá þeir kannski aukna kynningu.“

„Safnstjórinn bað mig um að koma og sýna það sem ég hafði gert fyrir HönnunarMars í fyrra og bauð mér svo í kjölfarið að vera í vinnustofudvöl á safninu. Ég er menntaður fatahönnuður en ég hef unnið mikið með útsaum og er að vinna að nýrri seríu af flíkum sem eru frekar mikið útsaumaðar,“ segir Sunna. „Þetta er ekki beint tískulína og ég vil ekki kalla þetta safn, heldur seríu, því eitt leiðir af öðru. Ég vinn þannig að ég tek eitt snið í einu og geri eins mikið og ég mögulega get með það snið og klára þannig seríu. Ég er að vinna með ermalausa boli núna.

Allt sem ég framleiði í vinnustofudvölinni fer í sölu í verslun safnsins, þannig að allir sem hafa áhuga geta komið og skoðað. Ég geri bara kvenfatnað og þetta eru ekki beint hversdagsflíkur, en það er bara til eitt stykki af hverri flík, svo þær eru einstakar. Ég vona að fólk sjái að ég legg mikinn tíma í hverja flík,“ segir Sunna.

„Það er yndislegt að vinna á safninu. Maður þarf smá að venjast því að vinna alveg fyrir opnum tjöldum, en það er líka mjög gaman þegar fólk er áhugasamt og spjallar og oft koma nýjar hugmyndir út frá því,“ segir Sunna. „Ég er á safninu milli 12 og 17 alla virka daga nema mánudaga og fólki er velkomið að koma og spjalla við mig á meðan ég er að vinna. Það er gaman að hitta fólk og ef fólk er áhugasamt um útsaum er ég alltaf til í að spjalla. Flíkurnar mínar hanga alltaf á safninu, þannig að það er líka hægt að koma og skoða þegar ég er ekki á staðnum.

Svo er ég líka búin að vera kenna námskeið í útsaumi og það er mjög gaman að sjá hvað fólk er áhugasamt. Námskeið númer tvö var að fara af stað, en það heitir Fríhendis flóra og þar erum við að sauma út mótíf úr flóru Íslands fríhendis. Þar kenni ég fólki að minnsta kosti átta grunnspor í frjálsum útsaum sem koma fólki mjög langt,“ segir Sunna. „Við höfum gert prufuklút og ég hef lagt fyrir lítið verkefni. Ef fólk hefur áhuga á að sækja svona námskeið er um að gera að hafa bara samband við mig og þá getur verið að fleiri námskeið verði skipulögð.“ ■