Svo margt fallegt hefur algjöra sérstöðu á íslenskum markaði en um er að ræða litla einyrkjaverslun með efni, verkfæri og fleira til þess að gera gömul og þreytt húsgögn að listilegum dýrgripum.

Eigandi verslunarinnar er Kristín Sæmundsdóttir, eða Stína Sæm. Um er að ræða vefverslun sem nýlega flutti inn í húsnæði í Kópavogi með tveimur öðrum netverslunum, Kimiko og Regnboganum. „Við deilum húsnæðinu saman og styðjum hver aðra. Í mínu plássi er ég með allt það helsta sem þarf til að breyta, endurgera og endurnýta húsgögn. Þá er ég með málninguna, verkfærin og sífellt fjölbreyttara úrval af vörum til að skreyta og skapa húsgagnalist,“ segir Kristín.

Fusion málningarlínan kemur frá fjölskyldufyrirtæki í Kanada.
Anton Brink

Kristín býður upp á persónulega ráðgjöf í versluninni og heldur þar fjölbreytt námskeið fyrir þá sem langar að koma sér af stað í að gera upp húsgögn. „Fusion málningarlínan kemur frá fjölskyldufyrirtæki í Kanada, en hana flyt ég inn frá Belgíu sem og flestar aðrar vörur. Sjálf fór ég þangað til að fá þjálfun og til að læra á vörurnar svo ég gæti kennt og haldið námskeiðin á Íslandi.“

Anton Brink

Ævintýrið byrjaði í bílskúrnum

Þetta byrjaði allt með aðstöðu í bílskúrnum hjá Kristínu í Keflavík. „Þá byggði ég aðallega á námskeiðunum og netversluninni. Með því að flytja í Bæjarlindina, þar sem ég er með opna verslun, hef ég mun betri aðstöðu til að taka á móti fólki og halda námskeiðin. Nú leggja mun fleiri leið sína hingað til mín og því get ég gefið betri og persónulegri aðstoð sem er einmitt það sem fyrirtækið mitt byggir að mestu á. Ég reyni einnig að vera með kennslu og fróðleik á samfélagsmiðlunum, bæði í Instagram Story og sérstaklega í Facebook-hópnum Málum svo margt fallegt bæði til að kenna og til að veita fólki innblástur.“

Í búðinni fást ýmis verkfæri eins og penslar, stenslar og fleira til þess að gera upp húsgögn.
Anton Brink

Vinsælt að breyta húsgögnum

Kristín segist hafa flutt fyrirtækið í Bæjarlind á sama tíma og COVID kom til landsins. „Ég sé það í búðinni að fólk er mun meira heima að að mála húsgögn en áður. Námskeiðin hafa hins vegar meira og minna þurft að sitja á hakanum og þau sem ég hef haldið hafa verið fámenn síðasta ár vegna sóttvarnareglna.

Það er mjög vinsælt í dag að breyta gömlu húsgögnunum til að þau passi betur við stíl heimilisins og gefa þeim þannig nýtt líf í stað þess að henda og kaupa nýtt. Svartur litur og hreinn stíll hefur verið langvinsælast, en litir eru að aukast mikið, sérstaklega djúpir litir eins og grænir og bláir. Þá er alltaf að verða vinsælla hjá fólki að bæta mynstri við litina,“ segir Kristín að lokum.

Verslunin Svo margt fallegt er staðsett að Bæjarlind 14-16. Sími: 893-8963. svomargtfallegt.is