Hugmyndin að myndinni er sótt í raunverulega atburði sem áttu sér stað árið 1985 þegar svartbjörn komst í kókaín sem var varpað út úr flugvél eiturlyfjasmyglara og át stóran strigapoka fullan af eiturlyfinu og dó.

Pokanum hafði verið kastað út úr vélinni vegna þess að hún var of þung. Flugmaðurinn var Andrew C. Thornton II, fyrrverandi eiturlyfjalögga og dæmdur eiturlyfjasmyglari. Thornton stökk síðan út úr vélinni en fallhlífin hans opnaðist ekki og beið hann bana.

Björninn, sem var um 80 kíló, fannst þremur mánuðum síðar og hjá honum 40 opin plasthylki með kókaíni. Björninn var uppstoppaður og er til sýnis í Kentucky for Kentucky Fun Mall í Lexington í Kentuckyríki.

Björninn í þessari mynd er hins vegar 240 kíló að þyngd og í stað þess að geispa golunni við kókaínátið tryllist hann og verður morðóður.

Safnast þá saman furðulegur hópur sem samanstendur af lögreglumönnum, glæpamönnum, ferðamönnum og táningum og stefnir inn í skóg í Georgíuríki á höttunum eftir birninum morðóða.

Kómedían er nokkuð dökk, en þó hæfilega villt, og eltingaleikurinn við uppkókaða skepnuna er bæði spennandi og spaugilegur og greinilegt að svartbjörninn vill ólmur meira blóð og meira kók.

Þetta er síðasta myndin sem Ray Liotta lék í, en hann lést óvænt 26. maí í fyrra.

Laugarásbíó, Sambíóin Álfabakka og Smárabíó

Frumsýnd 24. febrúar 2023

Aðalhlutverk:

Ray Liotta, Margot Martindale, Keri Russel, Alden Ehrenreich, Matthew Rhys og Kristofer Hivju

Handrit:

Jimmy Warden

Leikstjórn:

Elizabeth Banks

Bönnuð innan 16