Markmið Svansins eru því í góðu samræmi við markmið hringrásarhagkerfisins og stuðla almennt að bættri auðlindanýtingu. Í gegnum alla viðmiðaflokka Svansins, hvort sem við erum að skoða sjampó eða nýbyggingar, má sjá sömu áherslur sem stuðla að bættri auðlindanýtingu. Hægt er að skipta áherslum Svansins sem beintengjast hringrásarhagkerfinu í sex þætti sem fjallað verður um hér.

Strangar efnakröfur

Í öllum viðmiðum Svansins má finna strangar kröfur um innihaldsefni. Efnakröfurnar lágmarka neikvæð umhverfisáhrif í framleiðsluferlinu sjálfu en eru líka mjög mikilvægur þáttur í að tryggja að varan hafi ekki heilsuskaðleg áhrif á þann sem notar vöruna. Efnakröfur Svansins auka einnig líkurnar á því að hægt sé að endurnota og endurvinna vöruna seinna í lífsferlinum. Þessar kröfur má t.d. sjá þegar við skoðum vottaðar byggingarvörur, textíl og leikföng. Í þessum vöruflokkum styður bann við notkun þalata, bann við halógenuðum eldtefjandi efnum og strangar kröfur um íblöndunarefni í plasti við að hægt sé að endurnota efnin eða endurvinna við lok líftíma.

Kröfur á endurnýjanleg, endurunnin og sjálfbær hráefni

Svanurinn setur kröfu um að notast sé við endurnýjanleg, endurunnin eða sjálfbær hráefni. Kröfurnar eru aðlagaðar því hráefni sem verið er að skoða hverju sinni. Ef við skoðum til dæmis við, þá gerir Svanurinn kröfur um að allar viðarvörur séu framleiddar úr við úr sjálfbærri skógrækt. Þessi krafa nær til dæmis til húsgagna, parkets, glugga, ljósritunarpappírs og pappírsumbúða. Þegar horft er á pappírsvörur samþykkir Svanurinn einnig að notast sé við endurunninn pappír. Ef við horfum á vörur úr áli, þá er krafa Svansins að vörurnar innihaldi lágmarkshlut endurunnins áls.

Gæðakröfur og líftími

Gæðakröfur Svansins eru til þess gerðar að tryggja að varan skili ásættanlegri virkni og að gæði vörunnar séu tryggð. Þar sem við á er líka gerð krafa um endingu vörunnar, en líftími er einmitt eitt lykilhugtak í hringrásarhagkerfinu. Með því að auka líftíma vöru er hægt að fresta því að hún verði að úrgangi á meðan gæðakröfurnar geta aukið líkurnar á að hægt sé að endurnota vöruna eða hluta hennar að líftíma loknum. Ef við skoðum málningu er þar gerð krafa um að hægt sé að loka umbúðunum eftir notkun til að varan skemmist ekki við geymslu og að málningin uppfylli kröfur um efnisþekju til að hægt sé að lágmarka hversu mikið magn þarf að nota á hvern fermetra.

Fyrir textíl er horft til líftímans með tilliti til þess að litur og form haldi sér við þvott.

Kröfur á vöruhönnun, sundurhlutun og viðgerðir

Þar sem það á við gerir Svanurinn kröfu um að tekið sé tillit til möguleika á sundurhlutun og viðgerðum strax á hönnunarstigi. Þetta getur bæði stutt við lengri líftíma en líka aukið líkurnar á möguleika á endurnotkun og endurvinnslu við lok líftíma. Hér má nefna kröfur Svansins fyrir húsgögn þar sem er gerð krafa um að auðvelt sé að taka ólík efni í sundur til að hægt sé að endurnota eða endurvinna hluta vörunnar.

Kröfur um minni auðlinda- og orkunotkun

Kröfur Svansins um minni auðlinda- og orkunotkun má finna víða, en sem dæmi má nefna að í öllum viðmiðum Svansins fyrir þjónustu má finna kröfu um lágmarks orku- og vatnsnotkun. Þetta sjáum við þegar votta á hótel, dagvöruverslanir, bílaþvottastöðvar og prentsmiðjur. Fyrir nýbyggingar er einnig gerð krafa um að hönnun tryggi lága orkunotkun á notkunartíma hússins.

Kröfur um bætta úrgangsmeðhöndlun og nýtingu auðlinda

Þar sem hægt er að hafa áhrif á úrgangsmeðhöndlun setur Svanurinn kröfu á að lágmarka blandaðan úrgang og hámarka endurvinnslu. Á sama tíma ýta áhersluatriðin hér að framan undir það að hægt sé að annað hvort koma í veg fyrir að vörur eða hlutar þeirra verði að úrgangi eða efnin sem notuð eru henti í efnisendurvinnslu í lokaðri hringrás. Áhersla á að lágmarka blandaðan úrgang og auka endurvinnslu má sjá í viðmiðum Svansins fyrir hótel, veitingastaði, dagvöruverslanir og prentsmiðjur. Fyrir nýbyggingar og endurbætur húsnæðis er lögð áhersla á að gert sé ráð fyrir góðri flokkunaraðstöðu.