Þegar líða fer á ágúst fara margir að huga að haustinu. Starfsfólki Pennans Eymundsson þykir þessi tími alltaf jafn skemmtilegur. Stór hópur barna bíður spenntur eftir að hefja sína fyrstu skólagöngu: aðrir hlakka til að byrja aftur í skólanum og hitta félaga, vini og kennara eftir sumarfrí,“ segir Selma Rut Magnúsdóttir, vörustjóri hjá Pennanum Eymundsson.

Hún segir landslagið þó hafa breyst mikið síðastliðin þrjú ár, því nú kaupi sveitarfélög og skólar öll helstu ritföng og stílabækur fyrir nemendur grunnskólanna. Í ár vinni Penninn Eymundsson með flestum sveitarfélögum landsins sem kaupa námsgögn fyrir nemendur í rúmlega 85 grunnskólum.

„Það breytir því ekki að börn sem eru að hefja skólagöngu sína eru alltaf jafn spennt að kaupa fyrstu skólatöskuna og þau koma tímanlega til okkar til að velja skólatösku sem hentar. Aðrir þurfa að endurnýja sína tösku og því höfum við lagt áherslu á að bjóða vandaðar skólatöskur í úrvali,“ upplýsir Selma, en þar má nefna töskur frá danska framleiðandanum Jeva og norska fyrirtækinu Beckmann.

„Þessi tvö fyrirtæki eiga það sameiginlegt að bjóða sérlega vandaðar skólatöskur og hafa þær verið okkar vinsælustu töskur um árabil,“ segir Selma.

Úrval skólataska er ríkulegt í Pennanum Eymundsson sem selur vandaðar töskur frá Jeva og Backmann. Starfsfólkið veitir liðsinni við að velja réttu töskuna fyrir hvern og einn. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Margar spennandi nýjungar

Þegar kemur að vali á skólatösku þarf að huga að nokkrum atriðum.

„Taskan þarf að vera með góðum stuðningi við bakið, ólar þurfa að vera bólstraðar og auðvelt að stilla þær að þörfum og stærð barnsins. Gott er ef taskan hefur þveról yfir bringuna. Það tryggir að taskan sitji rétt á barninu. Einnig þarf að taka mið af stærð barnsins, því of stór skólataska getur hamlað hreyfingum þess,“ útskýrir Selma og bætir við: „Starfsmenn okkar eru alltaf tilbúnir að aðstoða og leiðbeina við valið.“

Selma segir sífellt vinsælla að bæta við vöru sem styður við og eykur skilning barna á ýmsum þáttum.

„Þetta eru til dæmis vörur sem aðstoða við skilning og styðja við lestur og reikning. Því eru léttlestrarbækur og ýmsar þrautabækur vinsæl viðbót við skólatöskukaupin og greinilegt að foreldrum er annt um að bæta við vöru sem bætt getur færni barna þeirra. Yngri systkini njóta líka oft góðs af og fá bækur sem hjálpa til við að læra stafina,“ segir Selma.

Einnig er vinsælt að bæta við ýmsu smálegu sem kryddar skólagönguna eins og nestisboxi, drykkjarbrúsa, teygjumöppu og fleiru, gjarnan með uppáhaldsteiknimyndapersónunni hverju sinni.

„En svo má segja að gulur Pluto-blýantur, UHU-límstiftin, Crayola-vaxlitirnir og bláa, klassíska stílabókin „Mennt er máttur“ hafi verið vinsælustu skólavörurnar okkar í áraraðir og þær eru táknrænar fyrir skóla í hugum margra. Við reynum alltaf að passa upp á að eiga vöru sem hentar flestum og því bjóðum við upp á skólavöru sem er sérstaklega hönnuð fyrir örvhenta. Þar má nefna yddara, reglustikur, skæri og stílabækur,“ segir Selma.

Allir þekkja Crayola-litina sem Penninn Eymundsson hefur selt í áratugi.

„Nú hafa nokkrar nýjungar bæst við hjá Crayola, eins og vaxlitir með glimmeri, tússlitir og vaxlitir með ilmi. Þessi nýja vara er vinsæl hjá litaglöðum krökkum og á örugglega eftir að krydda fallegar teikningar í vetur.“

Stílabækur og pennaveski eru ómissandi í skólatöskuna fyrir veturinn.

Vinsæll skiptibókamarkaður

Skiptibókamarkaður Pennans Eymundsson trekkir alltaf að í aðdraganda nýs skólaárs.

„Framhaldsskólanemar eru duglegir að nýta sér skiptibókamarkaðinn og þar er alltaf líf og fjör þó svo að margir kjósi að kaupa sér nýjar bækur. Við leggjum áherslu á að eiga þær bækur sem eru á listum framhaldsskólanna og bjóðum upp á gott úrval árið um kring,“ segir Þórunn Inga Sigurðardóttir, vörustjóri.

Sitthvað nýtt er ávallt í boði fyrir nemendur framhaldsskólanna í Pennanum Eymundsson.

„Til dæmis stílabækur frá Oxford þar sem notast er við Scribzee-appið. Með þeim er hægt að skanna, geyma, skipuleggja og deila glósum með til dæmis samnemendum. Fagbækur njóta líka mikilla vinsælda og ekki má gleyma gæða Staedtler-filtpennunum sem hafa verið geysivinsælir við glósugerðina. Litaúrvalið gerir glósurnar svo miklu skemmtilegri og alls 48 litir í boði og í ár bjóðum við upp á pastelliti í áherslupennum, því ritföng eins og önnur vara fylgir tískustraumum,“ upplýsir Þórunn.

„Við leggjum áherslu á gott og vandað vöruúrval og hefur undirbúningurinn staðið yfir frá áramótum. Því er gaman þegar loksins kemur að skólasetningu og nemendur og foreldrar þeirra heimsækja verslanir okkar. Þetta er alltaf jafn skemmtilegur árstími.“

Skoðið úrvalið fyrir skólann og staðsetningu verslana Pennans Eymundsson á penninn.is