Ósnortin náttúra, tignarleg fjöll, himinblátt vatn, fagur fuglasöngur, austfirsk veðurblíða og stökkvandi bleikjur upp úr vatninu eru umgjörð þessarar baðparadísar.

„Við opnuðum í júlí 2019 og síðan hefur bara verið gaman og viðtökurnar dásamlegar,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths. „Hönnun staðarins er í takti við umhverfið og upprunann, með tveimur fljótandi laugum sem eru í laginu eins og hitavakirnar sem mynduðust á vatninu. Fljótandi laugar eru nýnæmi á Íslandi en í þeim upplifa gestir einstaka tengingu við náttúruna með útsýni í allar áttir, og þegar legið er í þeim er eins og maður sé ofan í köldu og íðilfögru vatninu, þótt legið sé í makindum í heitum uppsprettum Urriðavatns.“ Úr laugunum er svo beint aðgengi úr stiga ofan í vatnið og margir sem nýta sér að fara út í. Urriðavatn er þörungaríkt og hefur heilsusamleg og frískandi áhrif á húðina, sannkallað heilsubað, að sögn Aðalheiðar.

Auk fljótandi lauganna ofan í vatninu eru tvær heitar laugar við strönd vatnsins, köld úðagöng og gufubað. Öll aðstaða er einstaklega glæsileg.

Munaðurinn og dekrið einskorðast þó ekki við laugarnar eingöngu. Á Vök Bistro er hægt að velja úr handtíndum jurtum frá Móður Jörð í Vallanesi, til dæmis myntu, sítrónumelissu og fleira góðgæti í jurtatebollann. Hægt er að skrúfa frá krana og heitt vatn beint úr borholu streymir í bollann. Svo er boðið upp á snilldarrétti á hóflegu verði.

Á laugarbarnum er mikið úrval áfengra og óáfengra drykkja. Aperol Spritz er sívinsæll drykkur og nýir sumardrykkir í sumar eru Mojito og Strawberry Daquiri. Ekki má gleyma bjórtegundunum Vökva og Vöku sem voru þróaðir í samstarfi við Austra brugghús, en þeir eru komnir í fjórar vínbúðir ásamt fjölda veitingastaða á Austurlandi.

Laugarbarinn er við stóra laug sem hægt er að fara í beint úr búningsklefa. Þar er líka hægt að fá freyðivín og kampavín og skála í fallegum glösum, enda býður umhverfið í Vök Baths upp á einstaka rómantík.

Vök Baths eru opin frá kl. 10-22 alla daga í sumar. „Við erum síðan búin að fá leyfi fyrir sólarhringsopnun 25.-26. júní, í tilefni af sumarsólstöðum, World Bathing Day og Jónsmessunnar,“ segir Aðalheiður. Þá opnar kl. 10 að morgni laugardagsins 25. júní og lokar ekki aftur fyrir en kl. 22 að kvöldi sunnudagsins 26. júní.

Aðalheiður segir að upphaflega hafi verið ætlunin að hafa opið til miðnættis af þessu tilefni, en hugmyndin hafi undið upp á sig og á endanum hafi verið ákveðið að hafa bara opið alla nóttina.

„Það verður eitthvað fyrir alla í sumarnæturopnuninni,“ segir Aðalheiður. „Trúbadorinn Øystein Gjerde treður upp og laugarbarinn verður opinn til kl. 3. Óáfengi drykkurinn Lárus sundöl verður á 2 fyrir 1 tilboði milli 2 og 3 um nóttina.

Svo er alveg tilvalið að nota flothetturnar sem við erum með til að njóta í fljótandi laugunum, það er alveg einstök tilfinning.

Gestir á sumarnæturopnuninni fá einstakt tækifæri til að upplifa bjarta, íslenska sumarnótt.

Við leggjum áherslu á að koma gestum okkar ánægjulega á óvart og tryggja ljúfa og skemmtilega upplifun. Stutt er í allar náttúruperlur á svæðinu bæði á vetri og sumri og gott að koma í Vök Baths eftir alls kyns útivist í perlunum okkar, Hengifossi, Stuðlagili og Seyðisfirði. Það er tilvalið að koma í laugarnar til okkar á eftir, dekra við sig í yndislegu umhverfi og borða góðan mat,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths á Austurlandi.

Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Vök Baths.
Vakirnar og náttúran renna saman í eitt í Vök Baths.