Ingibjörg Ásta Bjarnadóttir fjáröflunarfulltrúi UNICEF á Íslandi segir vonir bundnar við að peningarnir sem safnast í Reykjavíkurmaraþoninu styðji við heilbrigðisstarfsfólk í Jemen, létti undir í löskuðu heilbrigðiskerfi og gefi bágstöddum börnum von um betra líf.

UNICEF býður einnig upp svokallaðar Sannar gjafir sem hægt er að kaupa í vefverslun þeirra. Þær eru keyptar í nafni þess sem á að gleðja og með þeim fylgir gjafabréf með ljósmynd og lýsingu á gjöfinni. Gjafirnar eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn.

Núna eru í boði tvenns konar COVID-tengdar Sannar gjafir hjá UNICEF. Önnur gjöfin kallast Vernd fyrir heilbrigðisstarfsfólk, hún inniheldur 20 andlitsgrímur, 30 hanska og sóttvarnarklæðnað fyrir eina manneskju. Þessi gjöf hjálpar heilbrigðisstarfsfólki að sinna störfum sínum núna þegar kórónavírusinn dreifist hratt út í mörgum löndum. Hin gjöfin eru 100 handsápur en eins og flestir vita er handþvottur með sápu og vatni ein áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu mannskæðra sjúkdóma. Gjöfunum er dreift þangað sem þörfin er mest. Núna er sjónum sérstaklega beint að Jemen.

„UNICEF metur þörf fyrir aðstoð eftir ströngum verkferlum og áfangastaðir eru birtir í ársskýrslum. Neyðin í Jemen er metin sem sú alvarlegasta sem fyrirfinnst í dag. Samkvæmt nýjum skýrslum UNICEF reiða 80 prósent Jemena sig á mannúðaraðstoð til að komast af og nánast hvert einasta barn í landinu þarf á heilbrigðisaðstoð að halda. Á tíu mínútna fresti deyr barn í Jemen af orsökum sem hægt væri að fyrirbyggja. Ástandið er nógu slæmt fyrir en nú breiðist COVID-19 hratt út í landinu og tilfellum hefur fjölgað mjög sem og fjölda látinna,“ útskýrir Ingibjörg.

„Frá því að fyrsta staðfesta tilfelli COVID-19 greindist í Jemen þann 10. apríl síðastliðinn hefur UNICEF flutt rúmlega 33 þúsund öndunargrímur, 33 þúsund andlitsgrímur og 18 þúsund sloppa til landsins. Þessi hjálpargögn hafa nýst 400 framlínustarfsmönnum síðastliðna þrjá mánuði. En þörfin er mikil og ofangreint aðeins um fimm prósent af hjálpargögnum tengdum COVID-19 sem UNICEF þarf á að halda í Jemen.“

Flugvél sem lenti með neyðarbirgðir frá UNICEF á Sana flugvellinum í Jemen þann 30. maí síðastliðinn.

Gjafirnar gegna lykilhlutverki

Ingibjörg segir fyrirtæki og einstaklinga á Íslandi hafa fjármagnað 196 stykki af verndarpökkum fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem samsvarar tæplega 4 þúsund öndunargrímum, 1 þúsund hönskum og sóttvarnaklæðnaði sem nýtist 196 heilbrigðisstarfsmönnum. Sömuleiðis hefur fólk hérlendis fjármagnað tæplega 35 þúsund handsápur.

„Þessar gjafir gegna lykilhlutverki í framkvæmd aðgerða sem verja börn og samfélög gegn heimsfaraldrinum. Útbreiðslu kórónaveirufaraldursins er lýst sem neyðarástandi í neyðarástandi, það er útbreiðsla faraldursins í miðri borgarastyrjöld. Heilbrigðiskerfið er að hruni komið og aðeins helmingur heilbrigðisstofnana er starfhæfur. Aðeins 10 prósent hefur safnast af þeim 50 milljónum dala sem áætlað er að þurfi vegna COVID-19 aðgerða í landinu,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg útskýrir að UNICEF hafi notast við leiguflugvélar til þess að flytja varning inn í Jemen. Birgðakeðja traustra aðila sér um að dreifa neyðarbirgðum til barna og fjölskyldna þeirra. UNICEF er skylt að opinbera upplýsingar um áætlanir og aðgerðir, og sýnir Aid Transparency Index fram á mikinn áreiðanleika og gagnsæi samtakanna þegar kemur að afhendingu neyðarbirgða að sögn hennar.

Hægt er að kaupa Sannar gjafir á vefsíðunni sannargjafir.is, með því að hringja á skrifstofu UNICEF í síma 5526300 eða með því að koma á skrifstofuna á Laugavegi 77.