Tækniþróunarsjóður veitir styrki til nýsköpunarverkefna. Hann er opinn öllum atvinnuvegum, leggur áherslu á fjölbreytt nýsköpunarverkefni og að ýta undir alþjóðlegt samstarf í nýsköpun. Fréttablaðið tók starfsmenn Tækniþróunarsjóðs tali og ræddi við þá um stöðu og stefnu sjóðsins, auk nokkurra fulltrúa á meðal núverandi og fyrri styrkþega.

„Í dag er mikil gróska í nýsköpunarumhverfinu. Það endurspeglast í fjölda góðra umsókna til sjóðsins, en umsóknafjöldinn hefur margfaldast á undanförnum árum,“ segir Lýður Skúli Erlendsson, sérfræðingur hjá Rannís, og heldur áfram: „Fjölmörg sprotafyrirtæki, sem á sínum fyrstu skrefum hlutu styrk frá Tækniþróunarsjóði, hafa náð eftirtektarverðum árangri. Þar má nefna Kerecis, Valka, Nox medical, GRID, Meniga og Orf líftækni.“

Sigurður Björnsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs hjá Rannís, hefur orðið:

„Fjölmörg efnileg sprotafyrirtæki sem nú eru styrkþegar sjóðsins, gætu fylgt í kjölfar þessara fyrirtækja og náð góðum árangri á markaði. Samkvæmt áhrifamati á Tækniþróunarsjóði er ljóst að sum þessara verkefna hefðu ekki farið af stað, eða væru mun smærri í sniðum, og gætu þar með jafnvel hafa misst af „tækifærinu“, ef ekki hefði komið til opinber stuðningur frá Tækniþróunarsjóði,“ segir Sigurður.

Hratt brugðist við

Í maí var bætt í hefðbundna vorúthlutun Rannís.

„Það gerðum við til að ná því markmiði að koma fjármunum sjóðsins í vinnu fyrir sumarlok og eins var haustúthlutun ársins flýtt, til að bregðast hratt við nýjum forsendum í nýsköpunarsamfélaginu, enda er nýsköpun nauðsynleg til að takast á við samfélagslegar áskoranir,“ upplýsir Svandís Unnur Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá Rannís.

Á árinu er ný Markáætlun Rannís meðal annars helguð rannsóknum og nýsköpun í tæknibreytingum og sjálfbærni.

„Samfélagslegar áskoranir eru því mikilvægar í umræðu um nýsköpun þessi misserin – og þar munu stóru samkeppnissjóðirnir, Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður, spila stóra rullu,“ segir Kolbrún Bjargmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís, og heldur áfram:

„Önnur ekki síður mikilvæg aðgerð stjórnvalda er réttindi til skattendurgreiðslu til fyrirtækja vegna rannsókna og nýsköpunarverkefna. Þar verður bætt verulega í skattalegan hvata fyrirtækja á þessu ári til að auka nýsköpun. Lítil og meðalstór fyrirtæki geta fengið allt að 35 prósenta endurgreiðslu af kostnaði við verkefni og stór fyrirtæki 25 prósent.“

Hjálmar Gíslason er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins Grid.

Fjölbreyttara atvinnulíf

Það er viðurkennd staðreynd að nýsköpun er lykill að styrkari stoðum efnahagslífsins.

Hjálmar Gíslason er forstjóri fyrirtækisins Grid, sem er styrkþegi hjá Tækniþróunarsjóði:

„Í einhverjum skilningi er hlutverk nýsköpunar að láta reyna á hluti sem hingað til hafa ekki verið gerðir og jafnvel þótt ómögulegir. Flestar þessara tilrauna mistakast, en þær sem takast færa út mörk hins mögulega og stækka þar með kökuna margfrægu. Í íslensku samhengi er nýsköpun einfaldlega nauðsynleg til að auka fjölbreytni atvinnu- og efnahagslífsins. Samsetning íslenska hagkerfisins er fábreytt og við höfum þess vegna ítrekað lent í að áföll í einstökum greinum hafa því sem næst sett samfélagið á hliðina. Fjölbreyttara atvinnulíf stendur betur af sér slík áföll og minnkar þannig áhrif slíkra áfalla á samfélagið í heild.“

Hjálmar er stofnandi fyrirtækjanna Grid og Datamarket.

„Datamarket náði góðum árangri og var selt árið 2014, með góðri útgöngu fyrir alla sem að því komu. Tækniþróunarsjóður hefur verið mjög mikilvægur stuðningsaðili í íslenskri nýsköpun síðan ég hóf minn feril og sennilega sá allra mikilvægasti þegar kemur að fjármögnun fyrstu stiga nýsköpunar.“

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir er stjórnarformaður Laka Power, sem frá árinu 2015 hefur þróað einstaka lausn, PowerGRAB, sem vinnur raforku úr rafsegulsviði sem umlykur háspennulínur.

Hún tekur undir orð Hjálmars.

„Það verður ekki hjá því komist að heimurinn er síkvikur. Eina vitið er að líta á breytingar sem tækifæri og bregðast við þeim með nýsköpun. Hvernig okkur tekst til með innlenda nýsköpun, mun skilja milli þess hvort lífsgæði hér munu visna eða blómstra á næstu árum og áratugum,“ segir Ásta Sóllilja.

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir er stjórnarformaður Laka Power.

Kerecis fékk Vaxtarsprotann

Kerecis er í dag eitt áhugaverðasta nýsköpunarfyrirtæki landsins. Það hlaut á dögunum Vaxtarsprotann sem er viðurkenning fyrir það nýsköpunarfyrirtæki sem er í mestum vexti innanlands, ásamt því að vera handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands sem voru veitt í fyrrahaust.

„Það er engum blöðum um það að fletta að eitt það mikilvægasta, ef ekki það mikilvægasta, fyrir blómstrandi efnahagslíf og fyrir uppbyggingu nútíma þjóðfélags, er öflugt nýsköpunarstarf,“ segir Klara Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri framleiðslu- og gæðasviðs hjá Kerecis.

Hún segir afar mikilvægt að skapa umhverfi sem hvetur og styður við nýsköpun.

„Í því samhengi er gaman að tala um að við erum náttúrulega fiskveiðiþjóð sem hefur lifað af fiskveiðum árum saman. Nú í dag erum við virkilega farin að huga að því að nýta allar þær afurðir sem við fáum frá sjónum og erum farin að nýta þessar aukaafurðir mun betur. Rekstur okkar byggir á því að nýta fiskafurðir sem ekki hafa verið nýttar og koma þeim í verð með íslensku hugviti,“ segir Klara.

Afurðir Kerecis eru affrumað þorskroð, sem er notað til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum, einkum hjá fólki með sykursýki um allan heim.

„Það er okkur afar mikilvægt að taka þátt í uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á Íslandi. Styrkur Tækniþróunarsjóðs var lykilatriði þess að hægt var að þróa fyrstu skref vinnslunnar á Ísafirði, og í kjölfar styrksins vaknaði áhugi fjárfesta og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í fyrirtækinu, vegna gæðastimpils Tækniþróunarsjóðs. Fjárfesting Nýsköpunarsjóðs varð svo til þess að tvö öflug fiskverkunarfyrirtæki á Vestfjörðum fjárfestu í fyrirtækinu og svo hefur umfang rekstursins aukist ár frá ári og nýjasti fjárfestir fyrirtækisins er leiðandi tæknifjárfestir í Sílikondalnum í Bandaríkjunum. Nú starfa vel yfir 100 manns hjá fyrirtækinu á Ísafirði, í Reykjavík, Sviss og Bandaríkjunum og við eigum yfir 50 útgefin einkaleyfi og markaðsleyfi í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu.“

Klara Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri framleiðslu -og gæðasviðs Kerecis.

Nýsköpun efst í huga

Frá árinu 1999 hefur fyrirtækið Primex framleitt kítósan úr rækjuskel og hlaut árið 2012 Nýsköpunarverðlaun fyrir að breyta úrgangi í verðmæti. Í vísindaheiminum er talað um kítósan sem undraefni, því það hefur margvíslega eiginleika og þar með óteljandi notkunarmöguleika.

Nýsköpun hefur alla tíð verið efst í huga stjórnenda og starfsmanna fyrirtækisins og hefur Primex fest sig í sessi sem leiðandi framleiðandi á heimsvísu og einblínt á þróun og tækni til að framleiða hágæða kítósan.

„Okkar hráefnismarkaðir eru aðallega sárameðferðir, fæðubótarefni og snyrtivörur,“ upplýsir Hélène Liette Lauzon, framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunar hjá Primex.

„Til að ná árangri höfum við tekið þátt í nýsköpunarumhverfinu hér heima og sótt um styrki til Átaks til atvinnusköpunar og Tækniþróunarsjóð, en einnig í öðrum innlendum og ESB-sjóðum, ráðið til okkar sumarnema, auk þess að vera í samstarfi við rannsóknaraðila og háskóla hérlendis sem erlendis. Slíkir styrkir eru mikilvægir til að tryggja hraðari vöruþróun,“ segir Hélène. „Tækniþróunarsjóður hefur verið hvatning til rannsókna og þróunar nýrra vara hjá Primex og stuðlað að jákvæðri og sjálfbærri byggðaþróun. Ávinningurinn er enn fremur aukin þekking, nýting auðlinda, verðmætasköpun og atvinnusköpun fyrir íslenskt samfélag.“

Þorbjörg Jensdóttir er framkvæmdastjóri IceMedico.

Uppskorið eins og sáð er

Nýsköpunarferlar í öllum geirum efnahagslífs eru undirstaða áframhaldandi þroska og vaxtar innan hvers geira fyrir sig, að mati Þorbjargar Jensdóttur, framkvæmdastjóra IceMedico, sem framleiðir Happ+ mola.

„Það hefur margsannað sig að lönd sem hafa forgangsraðað nýsköpun og rannsóknum í samdrætti, hafa uppskorið samkvæmt því með tímanum, en nýsköpun tekur tíma og er þolinmæðisverk. Þannig, að eins freistandi og það kann að vera að skera niður nýsköpunarferla þegar það harðnar á dalnum, er jafnframt mikil áhætta fólgin í því að missa af dýrmætum tækifærum framtíðar fyrir land og þjóð,“ segir Þorbjörg.

Ein helsta ógn nýsköpunar, að mati Þorbjargar, er skortur á þolinmóðu fjármagni. „Ég finn það í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi, en einnig sést það vel á markvissri aukningu umsókna til Tækniþróunarsjóðs á milli umsóknarfresta. Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er því gríðarlegt fyrir uppbyggingu nútímaþjóðfélags,“ segir Þorbjörg.

„Styrkir sem IceMedico hefur hlotið frá Tækniþróunarsjóði í gegnum tíðina, hafa alltaf skipt sköpum í verkefnum sem sótt var um. Bæði hafa styrkirnir náð að verja mikilvæg störf hjá félaginu, sem og að leyfa félaginu að hreyfa tiltekin verkefni hraðar en annars hefði verið hægt og það hefur styrkt samkeppnistöðu félagsins, ekki síst erlendis. Styrkirnir hafa einnig, og munu halda áfram með nýveittum styrk, nært samstarf við önnur fyrirtæki og Háskóla Íslands í okkar tilviki.“

Þrjár konur í ábyrgðarstöðum: Sigríður V. Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri, Hélène L. Lauzon framkvæmdastjóri og Guðný Kristjánsdóttir gæðastjóri.

Vantar umsóknir frá konum

Í þjóðfélagsumræðunni er gjarnan talað um að halli á konur og landsbyggðina þegar kemur að stuðningi við nýsköpun.

„Ég er harður talsmaður jafnréttis og réttlætis á öllum sviðum. Að því sögðu tel ég ekki að lausnin á þeim vanda sem í því felst að lægri hluti fjármagns Tækniþróunarsjóðs fari út á land, eða til verkefna sem leidd eru af konum, sé að líta öðruvísi til þeirra verkefna. Þvert á móti held ég að mikilvægt sé að horfa til allra verkefna út frá gæðum þeirra, óháð því hvaðan þau koma, enda skilst mér þegar litið er á gögnin að komi í ljós að hlutfall verkefna sem hljóta styrk og koma frá þessum hópum sé sambærilegt við önnur verkefni,“ segir Hjálmar hjá Grid

Vandinn sé að ekki berist nógu margar umsóknir af landsbyggðinni, eða konum.

„Lausnin hlýtur að felast í að finna orsök þess og ráðast að henni, hvort sem það felst í að hvetja konur og fólk á landsbyggðinni enn frekar til að sækja um, eða – það sem mér finnst líklegra – að það sé eitthvað í umhverfi þessara hópa sem dragi úr nýsköpunarstarfi á meðal þeirra. Þetta þarf að greina og ráðast að rótum vandans þar,“ segir Hjálmar.

Ásta Sóllilja hjá Laka Power segir mikilvægt fyrir sprotafyrirtæki með lítil fjárráð að velja hæfustu einstaklingana til starfa, óháð kyni.

„Á sama tíma þarf að hafa í huga að fjölbreytni skiptir máli fyrir nýsköpun. Það er mikilvægt að Tækniþróunarsjóður styrki bestu verkefnin, óháð kyni verkefnastjóra. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvað sé hægt að gera til að kveikja áhuga fleiri öflugra kvenna á nýsköpun. Þar skipta sterkar fyrirmyndir án efa mjög miklu máli. Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi er að miklu leyti stýrt af konum og við eigum nýsköpunarráðherra sem er kona. Svo gott sem jafnmargar konur og karlar stýra fjárfestingum vísisjóða á Íslandi, og það er einstakt í þeim geira. En eflaust má gera enn betur til að auka hlut kvenna í nýsköpun á Íslandi,“ segir Ásta Sóllilja.

Landsbyggðin stendur sig vel

Brýnt er að átta sig á að nýsköpun af landsbyggðinni er mikilvæg. Mörg sterk fyrirtæki úti á landi standa framarlega á sínum markaði á heimsvísu eins og Primex, Kerecis, Genís og Skaginn/3X. Sem dæmi hefur Primex verið brautryðjandi í verðmætasköpun í fullnýtingu sjávarafurða á síðastliðnum árum og lagt áherslu á kynjasjónarmið, þar sem yfir helmingur stjórnenda félagsins eru konur. Þar starfa tvær konur með doktorsgráðu og sumarnemar hafa verið ríkjandi kvenkyns á undanförnum árum.

Þorbjörg hjá IceMedico hefur orðið: „Kynjahlutföll hafa lengi verið viðkvæmt mál. Ég hefði sjálf viljað sjá fleiri konur í forsvari fyrir stórum styrkumsóknum hjá meðal annars Tækniþróunarsjóði. Ég hjó eftir því í nýafstaðinni úthlutun, að ég var eini kvenkyns verkefnastjórinn í styrktarflokknum Vöxtur sem hlaut styrk og mér fannst það furðulegt í fyrstu, þar sem ég veit að við eigum flotta kvenkyns framkvæmdastjóra hjá öflugum nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi og sem ættu fullt erindi að sækja í sjóðinn. En þegar tölurnar eru skoðaðar virðist vera samhengi milli hlutfalls kvenkyns verkefnastjóra sem fá veitingu og hlutfalls innsendra umsókna heilt yfir hjá sjóðnum. Af hverju eru ekki fleiri konur að sækja um?“ veltir Þorbjörg fyrir sér.

„Mín skoðun er einfaldlega sú að vandamálið byrjar annars staðar. Konur veigra sér gjarnan við að sækja um út af alls konar ástæðum og mögulega eru verkefni kvenna þannig skrúfuð saman að þau henta ekki viðmiðum sjóðsins. Ástæðan getur verið margþætt, en hér mætti leggja vinnu í að greina betur hvað verður til þess að konur nái ekki almennilegu flugi í styrkumhverfinu á Íslandi og hvað sé hægt að gera til að bæta það.“