Ljósið, endurhæfinga- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda, hefur fengið öflugan stuðning frá fjáröfluninni í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið undanfarin ár, sem nýtist til að niðurgreiða alls kyns þjónustu. Anna Guðrún Auðunsdóttir er ein þeirra sem ætlar að hlaupa fyrir Ljósið í ár, en sjálf greindist hún með krabbamein í maga á síðasta ári.

„Það er heilmikil starfsemi hjá Ljósinu en þetta er í rauninni endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda,“ segir Anna. „Þarna starfa iðjuþjálfar, sálfræðingar, íþróttafræðingar, sjúkraþjálfarar og fleiri og þeir aðstoða við endurhæfinguna, bæði á meðan meðferð fer fram og ekki síður eftir hana. Minni meðferð lauk til dæmis í janúar, en ég sæki enn námskeið og alls konar þjónustu hjá Ljósinu.

Allir fjármunir sem safnast í gegnum Reykjavíkurmaraþonið fara í að niðurgreiða þjónustu fyrir krabbameinsgreinda,“ segir Anna. „Í fyrra náði þetta að niðurgreiða öll námskeiðsgjöld og greiða fyrir hluta af nýju húsnæði Ljóssins, sem var opnað á fyrri hluta árs.

Ég hleyp fyrir Ljósið því ég hef fengið frábæra þjónustu þar eftir að ég greindist í fyrra. Það er frábært að hafa þennan stað til að leita í reynslu annarra og fá stuðning,“ segir Anna. „Stuðningurinn er líka öðruvísi en annars staðar í samfélaginu. Þarna er þekking og það er gott að fá stuðning frá öðrum sem hafa gengið í gegnum svipaða upplifun.“

Einstök og fjölbreytt þjónusta

„Ég fór sjálf á þrjú eða fjögur námskeið hjá Ljósinu sem ég þurfti ekki að borga fyrir því Reykjavíkurmaraþonið borgaði. Þar að auki hef ég nýtt mér þjónustu í sambandi við líkamsrækt og hreyfingu. Ég hef talað við sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, markþjálfa og fleiri sérfræðinga,“ segir Anna. „Það er ótrúlega dýrmætt fyrir fólk í þessari stöðu að geta leitað til Ljóssins og ég hef ekki fundið sams konar þjónustu annars staðar. Þó að formlega kerfið sé frábært er þessi vinkill bara til þarna.

Starfið skiptir því gríðarlega miklu máli og það er frábært fyrir fólk í þessari stöðu að þurfa ekki að borga fyrir þessi námskeið,“ segir Anna. „Það er svo mikill annar kostnaður sem fylgir þessum veikindum sem er í forgangi og því er ekki víst að fólk myndi sækja þessi gagnlegu námskeið ef þau væru ekki gjaldfrjáls.“

Það getur hver sem er hlaupið fyrir Ljósið í Reykjavíkurmaraþoninu, sem fer fram 22. ágúst. Sjálf ætlar Anna að hlaupa 10 kílómetra og er með hóp inni á Hlaupastyrkur.is sem heitir Mallinn hennar Önnu. „Ég er að biðja mína hlaupavini að bæta sér hópinn að safna fyrir Ljósið.“