Erna Sif Arnardóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, HR, er leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna á Íslandi og stýrir rannsóknarverkefninu Svefnbyltingunni, sem fékk tveggja og hálfs milljarðs króna (15 milljóna evra) styrk úr Horizon2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun. Að Svefnbyltingunni koma vísindamenn við Háskólann í Reykjavík, íslensku fyrirtækin Nox Medical og SideKick Health og 36 samstarfsaðilar um allan heim.

„Ég varð ástfangin af þessu viðfangsefni þegar ég fór sem skiptinemi til Ástralíu og tók valáfanga um svefn. Mér fannst rannsóknir á honum áhugaverðar og spennandi og fékk fljótlega vinnu á svefndeild Landspítalans,“ segir Erna. „Ég fór svo í meistara- og doktorsnám tengt svefni og vann á svefndeildinni samhliða því.

Eftir doktorsgráðuna vann ég að rannsóknum og var ráðgjafi hjá Nox Medical en fyrir þremur árum fór ég til Háskólans í Reykjavík og fékk svo stöðu hjá verkfræði- og tölvunarfræðideild,“ segir Erna. „Við settum Svefnsetrið, þverfaglegt setur til svefnrannsókna, á fót sem styrkt var af Innviðasjóði Rannís árið 2020.

Tilgangur Svefnsetursins er að færa saman alla sem vinna að svefnrannsóknum. Þar fara fram margar ólíkar rannsóknir og fjórar deildir innan HR koma að þeim, verkfræði-, tölvunarfræði-, sálfræði- og íþróttafræðideild,“ segir Erna. „Við erum til dæmis að rannsaka svefn og heilsu hjá afreksíþróttafólki og hvernig æfingar og æfingatímar hafa áhrif á svefn, hvernig má bæta svefn krabbameinssjúklinga og bæta líðan framhaldsskólanema með því að líkja eftir dagsbirtu innandyra. Auk þess erum við að vinna með landlæknisembættinu að vitundarvakningu um svefn sem fer fram í næsta mánuði.“

Markmið Svefnbyltingarinnar

„Svefnbyltingin hefur fjögur meginmarkmið sem við ætlum að reyna að ná með því að nýta þverfaglega nálgun og nýja möguleika í upplýsingatækni og gervigreind. Það fyrsta er að umbylta aðferðum við greiningu svefnsjúkdóma, sérstaklega á kæfisvefni, en hann hrjáir um milljarð manns um allan heim. Við viljum líka færa áhersluna í greiningu og meðferð þessara sjúkdóma yfir á daglegt líf einstaklinga, meðal annars með því að færa mælingar heim til sjúklinga svo þær verði auðveldari og áreiðanlegri,“ segir Erna. „Nýjar meðferðir við vægum kæfisvefni verða líka prófaðar og gildi snjallúra við greiningu og meðferð svefnvandamála verður rannsakað. Svo ætlar SideKick Health að hanna smáforrit fyrir lífsstílsmeðferð við kæfisvefni sem við vonum að nái sérstaklega til yngra fólks.

Það eru auknar líkur á kæfisvefni hjá fólki í yfirþyngd og hann veldur verri svefni. Ef fólk sefur illa aukast svo líkurnar á því að fólk sæki í óhollan mat og það borðar meira því heilinn kallar eftir orku. Sedduhormón brenglast og insúlínmagn líkamans eykst líka ef fólk sefur lítið, en það getur verið fyrsti vísir að sykursýki. Fyrir vikið er fólk sem sefur illa líklegra til að þyngjast,“ segir Erna. „Við viljum ná til ungs fólk og bjóða því að koma í lífsstílsmeðferðir, bæði með þjálfara og í gegnum smáforrit SideKick Health.

Trúverðugleiki og hvatning

Ég held að það séu nokkrar ástæður fyrir því að Svefnbyltingin fékk þennan stóra styrk. Efnið sem við settum fram er gríðarlega mikilvægt og þarft, við erum að vinna þverfaglega að þessu og náum saman öllum helstu sérfræðingum Evrópu í svefni,“ segir Erna. „Við erum líka með sterka bakhjarla og stuðning frá bæði evrópska svefnfélaginu og lungnafélaginu. Þetta gaf verkefninu trúverðugleikann sem þurfti til.“

Erna fékk líka hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir skömmu, sem hún segir að sé gríðarleg viðurkenning.

„Það er mikill heiður að vera hluti af þeim fríða flokki sem hefur fengið þessi verðlaun og þetta er mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut,“ segir hún.

Svefninn í forgang

„Svefn er gríðarlega mikilvægur fyrir alla líkamsstarfsemi og það er ótrúlega mikið sem við vitum ekki enn um hann,“ segir Erna. „Það er til dæmis stutt síðan við uppgötvuðum að það er sogæðakerfi í heilanum sem virkjast í svefni, sem getur haft gríðarlega þýðingu fyrir heilasjúkdóma.

Það er mjög mikilvægt að setja svefn í forgang til að stuðla að góðri heilsu, en samkvæmt könnunum sefur að minnsta kosti fjórðungur Íslendinga ekki nógu vel eða mikið. Þetta er mismunandi eftir aldurshópum og algengara meðal unglinga,“ segir Erna. „Íslendingar neyta líka mjög mikils koffíns og fólk virðist ekki alveg meðvitað um hvað telst mikil koffínneysla og hve mikilvæg tímasetning hennar er. Það er almennt ekki mælt með því að drekka koffín eftir tvö á daginn, því koffín er svo lengi í blóðinu. Það getur valdið því að fólk eigi erfiðara með að sofna en einnig að gæði svefnsins minnki jafnvel þó að fólki sofni auðveldlega.

Það er svipað með skjátæki, þau geta valdið því að fólki sofni ekki eða gæðum svefnsins hraki,“ segir Erna. „Ég mæli klárlega með að fólk prófi í eina viku að sleppa skjátækjum tveimur klukkustundum fyrir svefn og svo aðra viku að sleppa koffíni eftir klukkan tvö á daginn og finna á eigin skinni hvaða áhrif þetta hefur á svefn og líðan næsta dag.“ ■