Heimir segir að það vera fjölbreytnina sem hafi heillað hann við þetta fag. „Að fá tækifæri til að vinna með einstaklingum og hópum í að efla eigin færni í að takast á við verkefni sem lúta að námi, starfi eða persónulega lífinu,“ útskýrir hann. Viðfangsefni náms- og starfsráðgjafa eru afar fjölbreytt. Við sinnum einstaklingsráðgjöf og hópráðgjöf. Ef ég tala fyrir framhaldsskólann þá hefur andlegri heilsu nemenda hrakað undanfarin ár og við aðstoðum nemendur við að takast á við það. Nám er lífsstíll og því er mikilvægt að nemendur kunni að verkefnastýra náminu sínu, með góðri tímastjórnun, markmiðasetningu, forgangsröðun, góðum vinnuvenjum og heilbrigðu líferni en nemendur leita til náms- og starfsráðgjafa með þessi mál. Við styðjum nemendur til sjálfstæðis og reynum að efla seiglu með því að benda á aðferðir sem skipta máli í skóla sem og í atvinnulífi,“ segir hann.

Þegar Heimir er spurður að hvaða leyti það skipti máli að leita aðstoðar hjá náms- og starfsráðgjafa, svarar hann: „Við leitum leiða til að bæta stöðu einstaklinga með því að fjárfesta í sjálfum sér, fjárfestingu sem aldrei verður tekin frá þeim. Þessi fjárfesting gæti til dæmis verið að fara í nám, skipta um starf, efla sjálfsmyndina, bæta lífsleiknina, bæta vinnubrögð, læra verkefnastýringu og allt þar á milli. Náms- og starfsráðgjafi segir engum að gera neitt heldur styður við einstaklinga í því sem þeir vilja breyta.“

Líðan nemenda í hinu daglega starfi og persónuleg málefni koma heldur betur á borð náms- og starfsráðgjafa. „Það er ekki hægt að aðskilja líðan eða persónuleg málefni frá námi eða starfi. Traust og trúnaður eru lykilatriði í okkar starfi og líðan einstaklinga hefur áhrif á það hvernig ráðgjöf við veitum og hver markmiðin eru með ráðgjöfinni,“ segir Heimir og bætir við að náms- og starfsráðgjafar starfi á sem flestum sviðum atvinnulífsins. „Má þar meðal annars nefna skólakerfið, Vinnumálastofnun og í mannauðsteymum fyrirtækja. Náms- og starfsráðgjafar skipta miklu máli fyrir atvinnulífið. Nám og störf framtíðarinnar eru alltaf að taka stórstígum breytingum. Störf eru að hverfa og ný störf að koma í staðinn. Til þess að atvinnulífið geti fylgt þeim breytingum sem fram undan eru þarf í sífellu að efla færni starfsmanna með endurmenntun og fræðslu og þar geta náms- og starfsráðgjafa spilað lykilhlutverk,“ segir Heimir.

Þegar hann er spurður um eftirminnilegt atvik í sínu starfi er hann ekki seinn til svars: „Nemendur á leið í sjúkra- og upptökupróf, ca. 40 nemendur, og ég fór að kanna líðan þessara nemenda. Allir frekar stressaðir en á þeim tímapunkti tókst mér að ganga á glervegg af miklum þunga í votta viðurvist sem varð til þess að brúnin á nemendum léttist mjög mikið. Þetta var sennilega mitt besta ráð við prófkvíða því allir nemendur stóðust sín próf eftir þessa uppákomu.“