Með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU verður hætt að urða lífrænan úrgang frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu og í staðinn verða metangas- og jarðgerðarefni unnin úr þeim. Einnig er stefnt að því að ná út öllu plastefni ásamt málmi úr úrgangi frá heimilum. Þegar stöðin er komin í gagnið er stefnt að því að yfir 95% af úrgangi frá heimilum á samlagssvæði SORPU verði endurnýtt. Lífrænu efnin verða nýtt til gas- og jarðgerðar, en málmar og önnur ólífræn efni, s.s. plast, verða flokkuð vélrænt til endurnýtingar. Með þessu er stigið mikilvægt skref í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda vegna meðhöndlunar úrgangs.

Mikil vinna að baki

„Undirbúningur gas- og jarðgerðarstöðvarinnar hefur staðið lengi, en verkið er unnið í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu mótuðu með sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU. „Verkið er síðan kostað af SORPU og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Björn segir að stefnt sé að því að yfir 95% af úrgangi frá heimilum á samlagssvæði SORPU verði endurnýttur þegar stöðin er komin í gagnið. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Ráðist var í verkið vegna krafna um að draga úr urðun á lífrænum úrgangi eftir að ný lög um meðhöndlun úrgangs voru sett og þetta var talin hagkvæmasta og besta leiðin út frá fjárhagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum,“ segir Björn. „Þetta er líka aðferð til að draga úr lyktarmengun frá urðunarstaðnum.

Skrifað var undir samning við danska fyrirtækið Aikan Solum AS um tæknilausn fyrir stöðina 15. desember 2016 og samið var við Ístak um verkið 13. júlí 2018,“ segir Björn. „Fyrsta skóflustunga að stöðinni var svo tekin 17. ágúst 2018 og er áætlað að gas- og jarðgerðarstöð SORPU verði komin í rekstur á vormánuðum 2020.“

Stórt og áhrifaríkt verkefni

„Stærð hússins verður 12.800 fermetrar og stöðin mun anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi árlega,“ segir Björn. „Markmiðið er að nýta sem best allan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum á höfuðborgarsvæðinu, s.s. matarleifar, gæludýraúrgang o.fl. Ekki aðeins nýtast næringarefnin sem felast í lífrænum heimilisúrgangi, heldur einnig orkan sem verður til við niðurbrot úrgangsins.

Ársframleiðsla stöðvarinnar af metangasi samsvarar um 3,4 milljónum bensínlítra sem hægt verður að nýta sem eldsneyti á ökutæki. Hún mun líka framleiða 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti til landgræðslu á ári. ?FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Þetta er stærsta verkefni SORPU frá því fyrirtækið hóf starfsemi árið 1991,“ segir Björn. „Ársframleiðsla stöðvarinnar af metangasi samsvarar um 3,4 milljónum bensínlítra sem hægt verður að nýta sem eldsneyti á ökutæki og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti til landgræðslu.

Þegar fyrsta skóflustungan að stöðinni var tekin flutti umhverfisráðherra tölu og sagði að þessi aðgerð jafnaðist á við að taka 36 þúsund ökutæki af götum landsins,“ segir Björn. „Þannig að þetta hefur veruleg jákvæð umhverfisáhrif.“

Gas- og jarðgerðarstöðin er stærsta verkefni SORPU frá því fyrirtækið hóf starfsemi árið 1991. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Knýr ökutæki, uppgræðslu og skógrækt

„Það væri upplagt að nota gasið til að knýja almenningssamgöngur, en auk þess má nýta það í alls konar iðnað sem nýtir gas og olíu,“ segir Björn. „Nú þegar er verið að nýta metangas frá urðunarstaðnum í Álfsnesi á 1.700 ökutæki á höfuðborgarsvæðinu, en svo er smáræði nýtt á annan hátt. Við stefnum að því að auka þessa notkun verulega þegar stöðin er komin í gagnið.

Jarðefnin henta mjög vel í skógrækt og uppgræðslu, meðal annars til að minnka uppblástur,“ segir Björn. „Það er svæði í kringum okkur á Álfsnesi sem við ætlum að byrja að rækta upp, en svo hafa Skógræktarfélag Reykjavíkur, Landgræðslan og samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs líka lýst yfir miklum áhuga á að nýta þetta efni.

Stærð hússins verður 12.800 fermetrar og stöðin mun anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi árlega. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Með fram þessu erum við líka að reyna að auka endurvinnslu á ýmsum efnum, t.d. öðrum lífrænum úrgangi, eins og sláturúrgangi, og erum að reyna að bæta okkur í forvinnslu fyrir lífdísil- og moltuframleiðslu úr honum,“ segir Björn.

Þörf á betri flokkun

„Til að ná sem bestum árangri þá hvetjum við fólk til að flokka betur spilliefni, lyf, raftæki, fatnað og gler, en öll þessi efni eiga sér nú þegar endurvinnslu- eða förgunarleið,“ segir Björn. „Þegar nýja stöðin kemst í gagnið á vormánuðum munum við leggja aukna áherslu á þetta.“